Stjórnarliðar á móti Framsókn?

Framsókn setti tillögu sína um stjórnlagaþing á oddinn í stuðningi sínum við minnihlutastjórn Vg og Samfylkingar.

Það vakti hins vegar athygli í þinginu í dag að enginn stjórnarliði hélt ræðu um málið, en utanríkisráðherra og formaður þingflokks Samfylkingar fóru í stutt andsvör.

Framsóknarmenn fjölmenntu á hinn bóginn í umræðuna, en svo virðist sem þeim sé þegar ljóst að á brattann er að sækja.

Þannig gerir t.d. Hallur Magnússon, framsóknarmaður, sem er á leið í framboð til Alþingis, m.a. ráð fyrir því bloggsíðu sinni að „Sjálfstæðismenn og einhverjir Samfylkingarmenn reyni að kaffæra málið með vísan til kostnaðar" . 

Hann segir einnig:

„Það kemur ekki á óvart að Sjálfstæðismenn óttast fólkið og lýðræðið. Verst að hluti Samfylkingar og VG treysta þjóðinni heldur ekki til að kjósa sér stjórnlagaþing til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá."

Lýsing hans á afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar ekki  rétt, eins og kemur m.a. fram í frásögn af ræðu Péturs Blöndal.  

Nú er spurt.  Skyldi þetta hafa einhver áhrif á stuðning Framsóknar við minnihlutastjórnina?


mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr sjúklingaskattur

Í gær gaf Ögmundur Jónasson út nýja reglugerð um greiðsluþáttttöku almennings í lyfjum, sem leiðir til 10% hækkunar á lyfjakostnaði almennings. Þetta þýðir að um 400 milljónir króna eru færðar úr vösum sjúklinga til ríkisins.

VG á móti 
Þetta er sérkennilegt ekki síst í ljósi þess að fyrir örfáum vikum, í umræðu um frumvarp til fjárlaga, fóru Vinstri grænir, með núverandi heilbrigðisráðherra í fararbroddi, hamförum í hneykslan sinni yfir þeirri ósvífu að hækka komugjöld í heilbrigðisþjónustu og innritunargjöld á sjúkrahús, en alls námu þessar hækkanir um 360 milljónum króna. Komugjöld höfðu ekki hækkað um langt árabil.

10% hækkun lyfjakostnaðar
Nú hefur Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra ákveðið að auka álögur á sjúklinga og hækka lyfjakostnað sjúklinga um 10%.

Röksemdir fyrir þeirri hækkun eru sambærilegar þeim sem þingmenn Vinstri grænna náðu ekki upp á nef sér í reiði sinni yfir í umræðu um fjárlögin í desember síðastliðnum. Greiðsluviðmiðun sjúklinga hafði ekki hækkað frá ársbyrjun 2001, en á sama tíma hækkaði vísitalan um 60%.

VG á móti hækkun gjalda í heilbrigðisþjónustu
Þetta eru mikil umskipti frá málflutningi Vinstri grænna fyrir nokkrum vikum, sem máttu ekki heyra það nefnt að hækka álögur í heilbrigðisþjónustu, sem þeir sjálfir kölluðu sjúklingaskatt.

Stolnar fjaðrir
Því til viðbótar má segja að reglugerð sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra kynnti í gær, var í meginatriðum efnislega sú sama og reglugerð sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra undirritaði 20. Janúar síðastliðinn og hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu um margra mánaða skeið, en það lét ráðherrann ógetið.


mbl.is Þingmenn karpa um fjaðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of stór biti?

Það hefur verið gott að vinna með Valgerði á þingi, þótt okkur hafi nú greint á um ýmislegt.

Það verður eftirsjá af svona reyndum stjórnmálamanni á þingi.

Miklar sviptingar eru hjá Framsókn þessi misserin.  Á innan við þremur árum hefur reynslumikið fólk eins og Halldór Ásgrímsson, Hjálmar Árnason, Guðni Ágústsson, Jónína Bjartmars og Jón Kristjánsson hætt á Alþingi og nú hafa bæði Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson tilkynnt að þau muni ekki bjóða sig fram í þingkosningunum í vor.   Þá er ónefndur Bjarni Harðarson, sem ekki einungis sagði af sér þingmennsku heldur sagði sig einnig úr flokknum í kjölfarið, auk Árna Magnússonar og Jóns Sigurðssonar, sem báðir áttu stuttan stjórnmálaferil.  

Eftir stendur þingflokkur sem er ungur að reynslu, að Siv undanskilinni.  Ungur maður, með engan bakgrunn í stjórnmálum gekk í flokkinn stuttu áður en hann var kjörinn formaður.  

Af sjö þingmönnum flokksins í dag eru þrír á sínu fyrsta kjörtímabili og tveir að hætta.  Reynsluboltarnir á næsta kjörtímabili verða því Siv og Birkir Jón sem tók sæti á Alþingi á árinu 2003, 23 ára að aldri, að því tilskyldu að þau nái áframhaldandi kjöri 

Framsóknarmenn eru í eðli sínu íhaldssamir og vilja að breytingar gerist hægt. Þessi staða og fimm formenn á innan við 2 1/2 ári veit ég að er nokkuð stór biti fyrir marga þeirra.  Hvernig þeim tekst að kyngja honum kemur í ljós í kosningunum í vor.

 


mbl.is Valgerður ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg afstaða

Þetta var furðuleg afgreiðsla hjá meirihluta viðskiptanefndar í morgun.  Ég sat þann hluta af fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem þessi málsmeðferð var m.a. rædd .   

Seðlabanki Evrópu vildi veita umsögn

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðum formlega eftir að fá umsögn frá Seðlabanka Evrópu um frumvarpið, en í gögnum nefndarinnar lá afrit af samskiptum frá tilteknum starfsmanni hjá Seðlabanka Evrópu sem hafði borist til skrifstofu forsætisráðherra þar sem boðist var til að bankinn gæfi umsögn um málið. 

Meirihlutinn hafnaði

Þessu hafnaði meirihluti viðskiptanefndar, með þeim rökum að ekki væri hefð fyrir því að leita til erlendra aðila um umsagnir í málum sem liggja fyrir Alþingi, slík ósk myndi tefja málið og að það gæti þýtt að einnig þyrfti að leita umsagnar seðlabanka um víða veröld.  Ég gef lítið fyrir þessi rök og lét bóka að þar sem íslenskt fjármálaumhverfi væri byggt á lögum sem hefðu uppruna í evrópski löggjöf væri mikilvægt að fá umsögn Evrópska seðlabankans á frumvarpinu, sem hefði sérþekkingu á málinu.      

Yfirlýsing Birgir Ármannssonar

Því til viðbótar hefur Birgir Ármannsson samþingmaður minn sent eftirfarandi athugasemd til fjölmiðla í kjölfar fréttar ríkisútvarpsins um málið í kvöldfréttum

„Vegna fréttar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kl. 18 vil ég taka eftirfarandi fram:Í frétt RÚV var réttilega greint frá því að inn á aukafund í viðskiptanefnd Alþingis í morgun bárust skilaboð um að Evrópski seðlabankinn (ECB) væri reiðubúinn að gefa umsögn um frumvarp forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni töldu sjálfsagt og eðlilegt að leita eftir þessari umsögn, enda er mikilvægt að við afgreiðslu málsins í nefndinni komi fram álit sérfróðra aðila, innlendra sem erlendra, á efnisatriðum frumvarpsins. Meirihluti nefndarmanna, fulltrúar VG, Samfylkingar og Framsóknarflokksins höfnuðu hins vegar tillögu sjálfstæðismanna um þetta og báru því einkum við að ætlunin væri að vinna málið hratt og því gæfist ekki tími til að bíða eftir þessari umsögn. Sjálfstæðismenn óskuðu þá eftir því að eftir því yrði leitað að ECB skilaði umsögn innan fárra daga, enda væri hvort sem er ljóst að talsverð vinna væri eftir við þetta mál innan nefndarinnar. Ekki var heldur á það fallist af hálfu meirihluta nefndarinnar.Þessi sérkennilega afgreiðsla meirihluta viðskiptanefndar veldur vonbrigðum, enda er ljóst að innan ECB er að finna verulega sérþekkingu á löggjöf um seðlabanka, sem eðlilegt hefði verið að nýta við meðferð þessa frumvarps.Með vinsemd og virðingu,Birgir Ármannsson,alþingismaður og nefndarmaður í viðskiptanefnd.“
mbl.is Afþökkuðu umsögn Seðlabanka Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg virðir meirihlutavilja þingsins

Það vakti eftirtekt í þingsölum í gær að formaður utanríkismálanefndar Árni Þór Sigurðsson, treysti sé ekki til að skrifa undir meirihlutaálit utanríkismálanefndar og skilaði einn og sér minnihlutaáliti við frumvarp um staðfestingu á samningi  um aðild Króatíu og Albaníu að NATO.  Þetta er mjög óvenjulegt,  svo ekki sé fastar að orði kveðið og segir töluvert um stöðu þessarrar minnihlutastjórnar sem nú er starfandi.  Í umræðum um frumvarpið sagði formaðurinn að hann gerði sér „grein fyrir því að meirihlutavilji er fyrir því á Alþingi og hann virði ég".

Þetta verður ekki skilið á annan veg en svo að hin almenna regla í þingstörfum VG verði í samræmi við þessa yfirlýsingu þingmannsins í málum sem koma til umfjöllunar á Alþingi næstu vikurnar.  Ég vænti þess þá að VG standi ekki í vegi fyrir meirihlutavilja þingsins sem kemur fram í þingsályktunartilllögu 36 þingmanna um áframhaldandi hvalveiðar og afgreiði málið með sama hætti: Hleypi málinu í gegn, en skili minnihlutaáliti.    

Það virðist því augljóst að Steingrímur Sigfússon, sjávarútvegsráðherra mun ekki fella úr gildi reglugerð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um heimildir til hvalveiða.


Nýr veruleiki

Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu .  Miðað við viðbrögð þingmanna hinna flokkanna á Alþingi er eins og þeir séu ekki búnir að átta sig á því.

Það hafa orðið hlutverkaskipti og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að þreifa sig áfram í þessari nýju stöðu.   Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gerst þaulsetnir í ræðustól síðustu daga og kvarta stjórnarliðar hástöfum undan elju þeirra og tengja hana komandi prófkjörum. Eins og þingmenn annarra stjórnmálaflokka séu ekki í sömu stöðu um þessar mundir! 

Stjórnarandstöðuflokkar hafa sérstöku hlutverki að gegna að veita stjórnarliðum aðhald.  Þetta er  meðal annars gert undir dagskrárliðnum störf þingsins sem er hálftíma umræða í byrjun þingfundar tvisvar í viku. Þá beina þingmenn fyrirspurnum að kollegum sínum, t.d. formönnum þingnefnda.   Aðra tvo þingdaga í viku hverri beina þingmenn fyrirspurnum sínum til ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.  Samkvæmt lauslegri athugun minni voru þingmenn stjórnarandstöðunnar í  um 90% tilvika frummælendur undir þessum liðum þingsins á haustþingi.   Þetta hefur nú snúist við, sem þingmenn stjórnarliða eiga erfitt með að höndla og þusa yfir.

Viðbrögð stjórnarliða við framgöngu okkar sjálfstæðismanna á þingi segja mér að við erum að gegna hlutverki okkar með sóma.  Fyrst og fremst leggjum við áherslu á að vera málefnaleg, þótt fjölmiðlar veiti því síður athygli en „uppákomum" og skærum manna á milli í umræðum.   

Ég skil það einnig svo að þau, ekki síður en við í þingflokki sjálfstæðismanna og almenningur allur, þarf að venjast því, tímabundið, að Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu.


„Tekinn í bólinu"

Vinstri grænir eru andvígir hugmyndum sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum og Norðausturlandi um frekari atvinnuuppbyggingu í Helguvík  á Reykjanesi og á Bakka við Húsavík á formi álframleiðslu.  Sem annan valkost hafa Vinstri Grænir bent á kísilflöguverksmiðju, sem er í sjálfu sér gott og blessað.   Þeim hefur hins vegar sést fyrir mikilvægur þáttur í þessu sambandi sem er að kísilflöguverksmiðja losar þrisvar sinnum meiri gróðurhúsalofttegundir en álver.  Á þetta benti Ólöf Nordal alþingismaður í í  utandagskrárumræðu á Alþingi í dag um áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

Nú er ég ekki neinn sérstakur talsmaður álvera umfram aðra kosti í nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu í landinu til að bregðast við auknu atvinnuleysi.  Hins vegar er athyglisverð þversögn í málflutningi VG að á sama tíma og þeir lýsa því yfir að þeir vilji fara í verkefni sem losa minni gróðurhúsalofttegundir á heimsvísu, kemur fram að valkostur þeirra umfram álver er kísilflöguverksmiðja, sem þegar upp er staðið losar þrisvar sinnum meiri gróðurhúsalofttegundir en álver. 

Þetta kallar maður að vera tekinn í bólinu. 


Tvær flugur í einu höggi

 Um 14 þúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá og fer þeim fjölgandi.  Þetta er fólk með fjölbreytta menntun og ólíkan bakgrunn. Það hrópar á tækifæri til að nýta þekkingu sína og reynslu til að sjá sér farborða og taka þátt í að byggja upp nýtt samfélag.

Stjórnvöld  ber skyldu til að skapa þessu fólki tækifæri til að standa á ný á eigin fótum og takast á við krefjandi verkefni. Um leið gefst þeim kostur á að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins.

Í því skyni þurfa stjórnvöld að endurskoða verkefni hins opinbera og auka samstarf við einkaaðila.    Einkaaðilar hafa mun meira svigrúm en ríkið til bregðast við nýjum viðskiptahugmyndum, útvíkka starfsemi sína og fjölga atvinnutækifærum og síðast en ekki síst að standa fyrir fjölþættri starfsemi  jafnt í þágu opinberra aðila og einkaaðila.         

Með þessari áherslubreytingu taka stjórnvöld að sér hlutverk upplýsts og krefjandi kaupanda þar sem aukin áhersla er lögð á árangur og bætta nýtingu fjármagns. Ávinningurinn  felst í því að með því að tiltekin starfsemi flyst til einkaaðila frá opinberum stofnunum eykst samkeppni um opinber verkefni og kaupendahópur fyrirtækjanna stækkar. Þeim er sköpuð betri starfsskilyrði með því að færa þeim stór og krefjandi verkefni og ný þekking verður til innan fyrirtækjanna sem styrkir stoðir þeirra til frekari afurðasköpunar.

Nefnum tvö dæmi af ólíkum toga.

Hugbúnaðarfyrirtæki hafa árum saman kallað eftir auknum verkefnum frá opinberum stofnunum, sem hafa rekið eigin tölvudeildir.      

Lagabreyting sem varð á árinu 2003 gerði einkaaðilum kleift að setja á stofn þjónustufyrirtæki, utan ríkiskerfisins, til að annast heilsuvernd, heilsufarsskoðanir og áhættumat á vinnustöðum.   Fjölmörg fyrirtæki fagmenntaðra heilbrigðisstarfsmanna spruttu upp í kjölfarið,  sem hafa skapað atvinnu og um leið létt verkefnum af opinberum starfsmönnum. 

Með útvistun verkefna ríkisins geta stjórnvöld slegið tvær flugur í einu höggi, skapað fleirum atvinnu og aukið hagkvæmni í rekstri ríkisins.

Grein birt í Fréttablaðinu 11.02.09


Enn við sama heygarðshornið

Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún byggi efnahagsstefnu sína á fyrirliggjandi áætlunum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þýðir að hún þarf að ná markmiðum fjárlaga 2009 sem samþykkt voru fyrir jól. Hún þarf að beita »aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum« eins og segir í verkefnaskrá hennar.

Stóraukin útgjöld
Fyrstu skref ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn benda hins vegar til hins gagnstæða. Þeir eru enn við sama heygarðshornið. Ekki hefur orðið vart við breytingu á afstöðu þeirra frá afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, en þar fluttu þeir breytingatillögur um stóraukin útgjöld í öllum þáttum opinberrar starfsemi. »Aðhaldssöm og ábyrg stefna í efnahags- og ríkisfjármálum« er fjarri góðu gamni.
Fyrsta vikan
Í fyrstu viku nýrrar ríkisstjórnar hefur nýr heilbrigðisráðherra fellt niður innritunargjöld á sjúkrahús sem nema um eitt hundrað milljónum króna og skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu, sem áttu að skila um 1,3 milljörðum króna, eru í uppnámi. Stjórnendur viðkomandi heilbrigðisstofnana hafa lagt nótt við dag að útfæra tillögur sínar til að ná markmiðum fjárlaga og liggja þær fyrir hjá þeim flestum. Óvíst er hvort nýr heilbrigðisráðherra hafi kraft og þor til að fylgja þeim eftir. Vilji nýs menntamálaráðherra varðandi breytta útborgun námslána mun kosta ríkissjóð marga milljarða króna og 13 milljarða króna þarf til að ljúka tónlistarhúsi eins og hugur hennar stendur til.

Slá hendi á móti fleiri störfum
Ekki er á það bætandi að nýr sjávarútvegsráðherra virðist tilbúinn til að slá hendinni á móti um 5 milljarða tekjum og hátt á þriðja hundrað störfum með að fella úr gildi reglugerð um hvalveiðar.

Vonbrigði
Fyrstu skref VG í ríkisstjórn valda vonbrigðum, þau lýsa ekki skilningi á þeirri erfiðu efnahagslegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir, né hvaða aðgerða er þörf. Þau lýsa útgjaldagleði, sem er nokkuð sem við þurfum ekki á að halda þessa dagana

Grein birt í Morgunblaðinu 9.2.09


Tilkynning um framboð í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík

 Ásta Möller, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins Í Reykjavík sem haldið verður 14. mars næstkomandi vegna Alþingiskosninga á vordögum

Ásta Möller var fyrst kjörin á Alþingi í alþingiskosningum 1999, var varaþingmaður frá 2003 til 2005. Í kosningunum vorið 2007 varð hún 7. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í upphafi þessa kjörtímabils var hún kjörin formaður heilbrigðisnefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Auk þess var hún kjörin í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins í apríl á síðasta ári. Þá á hún sæti í fjárlaganefnd.

 Í störfum sínum hefur Ásta Möller lagt sérstaklega áherslu á heilbrigðismál, málefni aldraðra og önnur velferðarmál fjölskyldunnar, auk lífeyrismála og málefna launamanna.   

Ásta hefur gengt fjölmörgum forystustörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er ritari þingflokks sjálfstæðismanna.  Ásta var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 2005-2007 og sat í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 2003-2006.   Þá var hún formaður heilbrigðis-og trygginganefndar Sjálfstæðisflokksins um árabil.

Ásta Möller hefur lokið BSc prófi í hjúkrunarfræði og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gegndi formennsku í fag- og stéttarfélögum hjúkrunarfræðinga frá 1989-1999. 

Nánari upplýsingar er að finna á veffanginu http://www.astamoller.is/ og á bloggsíðunni http://www.astamoller.blog.is/.


Óheyrilegur kostnaður sjúklinga

Sjúklingar hafa þurft að greiða umtalsverðar upphæðir vegna heilbrigðisþjónustu. Á árinu 2007 greiddu um 15 þúsund manns yfir 100 þúsund krónur úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu og þar af eru um 500 manns sem hafa borið kostnað yfir 250 þúsund krónur. 10 einstaklingar þurftu á árinu 2007 að greiða á bilinu 570-890 þúsund krónur vegna heilbrigðisþjónustu. Þessar tölur eru fyrir utan tannlæknakostnað, sem getur verið umtalsverður, eins og fólki er kunnugt.

Þessar upplýsingar koma fram í gögnum sem nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins undir forystu Péturs H Blöndal hefur aflað sér.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi
Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði ég Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra um áform hans um að hrinda nýju greiðsluþátttökukerfi almennings í heilbrigðisþjónustu í framkvæmd. Unnið hefur verið að því verkefni á síðustu misserum. Skv. áætlunum fyrri ríkisstjórnar var áformað að það gæti tekið gildi 1. apríl næstkomandi.

Miklar væntingar eru bundnar við hið nýja kerfi. Það hefur m.a. komið fram í samtölum við fulltrúa Öryrkjabandalagsins, sem hafa bent á ójafnræði í greiðsluþátttöku milli sjúklingahópa og að ýmsir skjólstæðingar þeirra hafa þurft að bera mikinn kostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Það er staðfest með þeim tölum sem að framan er greint.

Núverandi kerfi er óréttlátt
Núverandi greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er óréttlátt og það getur ráðist af hvaða sjúkdómur viðkomandi er með, hve mikið sjúklingur getur þurft að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu.

Lægst greiðsluþátttaka innan OECD
Af svari heilbrigðisráðherra má ráða að í stað þess að jafna álagið milli sjúklingahópa eins og hið nýja greiðslukerfi miðast við, vill hann fella niður gjöld í heilbrigðisþjónustu. Það kemur reyndar ekki á óvart, enda hefur það verið stefna Vinstri Grænna. Það er hins vegar vert að benda á að greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu hér á landi er ein sú lægsta innan OECD, eða um 17-18% af heildarútgjöldum til þjónustunnar.

Markmið nefndar Péturs H. Blöndal hefur verið að jafna greiðsluþátttökuna, gera hana réttlátari, en ekki auka hlutdeild almennings í heilbrigðiskostnaði frá því sem nú er.

Aukin útgjöld
Svar heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag bendir til að mikil óvissa er um hvort og hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi. Jafnframt vakna efasemdir um hve mikil alvara er hjá ríkisstjórninni að fylgja eftir áætlunum um aðhald í ríkisrekstri sem Ísland hefur skuldbundið sig til í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Eftir kosningar

Sjálfstæðisflokkurinn er með fyrsta þingmann í öllum kjördæmum landsins.   Tók það af Samfylkingunni í Reykjavík norður og í Suðurkjördæmi og af Framsókn í Norðausturkjördæmi.  Hugsanlega er þetta í fyrsta sinn í sögu stjórnmála á Íslandi sem einn flokkur er með fyrsta þingmann í öllum kjördæmum.  Hef þó ekki lagt í rannsóknarmennsku til að sannreyna það.

Samfylkingin tapaði 4,2% fylgi, en Framsókn 6% fylgi í kosningunum síðasta laugardag miðað við alþingiskosningar 2003.  Þetta hafa álitsgjafar kallað varnarsigur Samfylkingar en stórtap Framsóknar.   Sérstakt!

Munur á fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í kosningunum 2003 var 2,7%, en er nú 4 árum seinna um 10%.   Sjálfstæðisflokkurinn var með 22 þingmenn, en er nú með 25; Samfylkingin var með 20 þingmenn er nú með 18.  Munur á þingmannafjölda var 2, en er nú 7.     

Talsmenn Samfylkingar og VG hafa látið hafa eftir sér að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks  með nauman eins þingmanns meirihluta sé óstarfhæf.   Á kosninganótt var það ekki vandamál, þegar sams konar staða var uppi hjá stjórnarandstöðunni.  Skrítið?

Frjálslyndi flokkurinn er flokkur "pólítískra flóttamanna"    Tveir með uppruna sinn úr Sjálfstæðisflokknum og einn með uppruna sinn úr Alþýðubandalaginu.   Pólítískan bakgrunn  Grétars Mar þekki ég ekki.   Skyldu vera einhverjir pólítískir snertifletir milli t.d. Jóns Magnússonar og Kristins H Gunnarssonar?  Hvernig eiga þessir tveir pólar að ná saman um málefni.  Það væri gaman að vera fluga á vegg í þessum þingflokki þegar þeir takast á!

Konum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins fjölgaði um 100% milli kosninga.  Voru 4 eftir síðustu kosningar, en eru nú 8.  Fækkun sjálfstæðiskvenna á þingi 2003 þóttu sérstök tíðindi.  Konum í þingflokki Samfylkingar fækkar hins vegar um helming úr 9 konum í sex milli kosninga.   Það þykir hins vegar ekki sérstök ástæða til upphrópana.  Samt er flokkurinn afkomandi Kvennalistans sáluga og á að bera uppi merki hans. 

Frá og með þessari færslu mun ég færa mig aftur á heimasíðu mína www.astamoller.is., en þar birtast greinar, blogg, pistlar, ræður og fleira efni sem ég hef sett á síðuna. 

 


Hver vill taka áhættu á nýrri vinstri stjórn?

Skoðanakannanir sýna að það er stórhætta á að vinstri stjórn taki við eftir kosningar sem haldnar verða eftir tvo daga, enda virðist Kaffibandalagið enn vera í góðu gildi.

Rifjum aðeins upp hvað vinstri stjórnir þýða fyrir stjórnun efnahagsmála og áhrif hennar á hag heimila og fyrirtækja í landinu.

Almenningur hefur ekki farið varhluta af efnahagsstjórn síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins.  Kaupmáttur heimilanna, þ.e. tekjur eftir skatt,  hefur aukist um 75% frá árinu 1995 til dagsins í dag og hagvöxtur hefur verið mikill.  Skattar hafa verið lækkaðir á heimilin með lækkun tekjuskatts og hækkun persónuafsláttar, afnámi eignaskatta og lækkun virðisaukaskatts á matvæli.  Skattalækkanir á fyrirtæki hafa gefið svigrúm til launahækkana starfsmanna..

Þetta vill fólk varðveita og halda áfram á sömu braut aukinnar velferðar fjölskyldna í landinu.   64% landsmanna vilja Sjálfstæðisflokkinn áfram við stjórnvölinn.

Hver vill taka áhættu á nýrri vinstri stjórn?  

Saga vinstri stjórna á Íslandi er saga verðbólgu, aukinna ríkisútgjalda og skattahækkana á fjölskyldur og fyrirtæki í landinu.

Í bókinni "Frá kreppu til viðreisnar - Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930-1960", sem kom út á síðasta ári í ritstjórn Jónasar H. Haralz, ritar Þórunn Klemensdóttir grein um "Pólítískar hagsveiflur á Íslandi 1945-1998". Þar greinir hún m.a. pólítísk áhrif hægri stjórna annars vegar og vinstri stjórna hins vegar á helstu kennitölur efnahagsstjórnunar hér á landi. Skv. skilgreiningu hennar eru hægri stjórnir þær sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Aðrar teljast vera vinstri stjórnir.

Í grein Þórunnar kemur m.a. fram að á umræddu árabili er verðbólga umtalsvert hærri í tíð vinstri stjórna eða 24,5% að meðaltali í samanburði við 15,1% þegar hægri stjórnir eru við völd. Frá 1998 hefur þetta meðaltal lækkað enn. Þá er greinilegur munur á útgjaldaaukningu ríkisins eftir hvernig stjórn er við völd eða 11.2% að meðaltali á ári hverju í tíð vinstri stjórna til samanburðar við 3,3% útgjaldaaukningu á ári í tíð hægri stjórna.

Fólk er oft fljótt að gleyma.  Dæmin eru til að varast.  Viljum við innleiða hagstjórn R-listans  í Reykjavík í landsmálum, þar sem eyðsla umfram efni og óráðsía með fjármagn var megineinkenni valdatíma þess samkrulls?    Viljum við upplifa sundurlyndi R-listans í Reykjavík í landsstjórnina?  

Ég held ekki!

Ef kjósendur vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiðandi afl í landsstjórninni næsta kjörtímabil, verður það einungis tryggt með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn næsta laugardag.


Mannekla í hjúkrun

Mikið er rætt um skort á starfsfólki í hjúkrun á heilbrigðisstofnunum.  Í starfi mínu sem formaður Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999 vann ég m.a. skýrslu um manneklu í hjúkrun, en ný skýrsla um sama efni kom út nýverið.

Ég skoðaði þessi gögn og satt að segja kom mér þróun síðustu ára á óvart.  Þessar upplýsingar koma m.a. fram í grein sem ég skrifaði og birt er í Morgunblaðinu í dag.   Þar kemur m.a. fram að nemendaplássum á 1. ári í hjúkrunarfræði hefur fjölgað um 65% frá árinu 2002, úr 97 í 158 við hjúkrunarfræðideild HÍ og heilbrigðisvísindadeild HA:

Á síðustu árum hefur hjúkrunarfræðingum fjölgað verulega. Þegar bornar eru saman skýrslur NOMESKO, norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar frá árinu 1996 og 2004 kemur fram að starfandi hjúkrunarfræðingum á Íslandi hefur fjölgað verulega milli áranna 1996 og 2004 eða farið úr 516 hjúkrunarfræðingum á hverja 100 þúsund íbúa í 863 á hverja 100 þús. íbúa. Þetta er töluverð fjölgun á ekki lengri tíma og samsvarar rúmlega 1000 nýjum hjúkrunarfræðingum.

Með þessari fjölgun er fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverja 100 þúsund íbúa mun nær því sem gerist á hinum Norðurlöndunum en áður var, þar sem fjöldinn er nú á bilinu 896-1495 hjúkrunarfræðingar/100 þús. íbúa.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar "Spá um þörf fyrir vinnuafl í heilbrigðiskerfinu", sem gefin var út í desember 2006, segir að útskrifa þurfi milli 130 og 140 hjúkrunarfræðinga á ári til að mæta vinnuaflsþörf. Fjöldi nemenda í hjúkrunarnámi nú virðist geta mætt þessari vinnuaflsþörf og vel það, ef marka má spá Hagfræðistofnunar. Á næstu 10 árum mun hjúkrunarfræðingum fjölga um 1400, með fyrirvörum um brottfall, en þess ber jafnframt að geta að eftir 5-15 ár munu stórir árgangar hjúkrunarfræðinga fara á lífeyri.


Fólk treystir Sjálfstæðisflokknum best.

Á undanförnum dögum hafa birst skoðanakannanir sem sýna að kjósendur treysta Sjálfstæðisflokknum best allra flokka og Geir H Haarde forsætisráðherra best allra formanna flokkanna til að gegna starfi forsætisráðherra næsta kjörtímabil.

Þannig vilja 65% aðspurðra í einni skoðanakönnuninni að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn næsta kjörtímabil.    Til að tryggja það er auðvitað best að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Í Capacent Gallup könnun sem birtist í MBL í dag kemur fram að góður meirihluti aðspurðra, 54%, treysta formanni Sjálfstæðisflokksin best til að leiða næstu ríkisstjórn og hefur hann unnið á upp á síðkastið.  Hann ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaforingja og hefur fylgi langt út fyrir fylgi flokksins samkvæmt skoðanakönnunum.  Næstur á eftir honum er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir með undir þriðjungs stuðning á við Geir eða 17%.   Þetta eru ekki síst merkilegt í ljósi þess að Samfylkingin mælist nú kringum 24% fylgi, þannig að um meira en fjórðungur kjósenda flokksins treystir henni ekki til að verða forsætisráðherra.  Merkileg niðurstaða!  

Aðalatriðið er að allir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn komi á kjörstað, enginn má láta sitt eftir liggja. Þeir sem telja að það farsælast fyrir þjóðina að Geir verði næsti forsætisráðherra eiga auðvitað að kjósa Sjálfstæðisflokkinn næsta laugardag!


Er VG að gefa eftir?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að öll samsett orð sem byrja á einka-  hefur verið eitur í beinum VG.    Jafnvel svo, að í hvert sinn sem það er nefnt í ræðu á þingi, sprettur einhver hinna fimm þingmanna flokksins upp og hefur upp raust sína í forakt.

Það á ekki síst við um Jón Bjarnason, þingmann VG í norð-vesturkjördæmi.

Í gær birtu læknaráð og hjúkrunarráð Landspítala svör stjórnmálaflokkanna við ýmsum spurningum sem brenna á starfsfólki spítalans

Þá bregður svo við að nýr tónn er sleginn í svörum VG varðandi hugmyndir um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. 

Spurt er:  Hver er afstaða flokksins til einkarekstrar eða útboða einstakra verkefna í heilbrigðisþjónustu ? (hér er ekki spurt um almannatryggingakerfið eða einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar).

Svar VG er eftirfarandi: "Það er grundvallarafstaða VG að jafn aðgangur allra borgaranna að heilbrigðiskerfinu sé mannréttindamál. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hefur til langs tíma tíðkast, bæði sem sjálfseignarstofnanir (líkt og mörg hjúkrunarheimilin) og sem einkastofur úti í bæ, hvort heldur er hjá læknum, tannlæknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfurum eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. VG leggur ríka áherslu á að þegar um slíkan rekstur er að ræða sé hann á forsendum almannatryggingakerfisins og aðgangur sé jafn..."

Hér kveður við nýjan tón hjá VG, sem er ánægjulegt.  Ekki seinna vænna að VG átti sig á að einkarekstur er til í heilbrigðiskerfinu og að hann sé góður valkostur fyrir alla aðila.

  • Fyrir sjúklinga með bættu aðgengi m.a. minni biðtíma og fjölbreyttari og betri þjónustu.
  • Fyrir starfsmenn með meira sjálfræði í skipulagningu starfa sinna og aukinni starfsgleði
  • Fyrir ríkissjóð með betri nýtingu fjármuna og skilvirkara eftirlitskerfi.  

Það er alla vega ljóst að VG er að linast í andstöðu sinni við samsett orð sem byrja á einka-.

Þeir eru meira segja opnir fyrir hugmyndum um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu að tilteknum forsendum uppfylltum.  Þær forsendur sem fram koma hér að ofan stríða ekki gegn hugmyndum okkar sjálfstæðismanna, nema síður sé. 

Þetta er alla vega byrjunin hjá VG

En spurningin er:  Veit Jón Bjarnason af þessu!?


Endurgreiðsla vegna lyfjakostnaðar

Lyfjamál bera oft á góma í viðtölum við fólk, ekki síst hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem þurfa á lyfjum að halda og finnst þeir bera of mikinn kostnað af. 

Í gær fjallaði ég um afsláttarkort.  Hér mun ég fjalla um niðurgreiðslur ríkisins vegna lyfjakostnaðar og hvernig frekari öryggisnet eru byggð í kerfið þegar lyfjakostnaður hjá einstaklingum reynist hár. Sérstaklega fjalla ég um rétt elli- og örorkulífeyrisþega til niðurgreiðslu á lyfjum.

Ríkið greiðir stærstan hluta lyfjakostnaðar almennings, eins og í nágrannalöndum okkar og hefur Tryggingastofnun ríkisins á höndum það hlutverk að greiða niður lyf sjúkratryggðra einstaklinga.

Skipting á kostnaðir milli sjúklings og TR er mismunandi, eftir því um hvaða lyf er að ræða eða hvers eðlis sjúkdómurinn er.  Þannig greiðir TR að fullu lyf sem sjúklingur þarf lífsnauðsynlega að halda og að staðaldri.  Það á t.d. við um krabbameinslyf og sykursýkislyf.  

Jafnframt greiða örorku- og ellilífeyrisþegar og börn með umönnunarmat lægra gjald en almennt gerist.

Niðurgreiðslur vegna lyfja er mismunandi og er flokkuð í 5 flokka.  Ákveðin lyf greiðir TR að fullu eins og áður greindi og önnur lyf eru án greiðsluþátttöku TR, nema í sérstökum tilvikum.  Greiðsluþátttaka í hinum þremur lyfjaflokkunum er mismunandi.  Þannig greiða elli- og örorkulífeyrisþegar að lágmarki 200-600 krónur fyrir lyfjaskammt af tilteknum lyfjum sem falla undir þessa þrjá lyfjaflokka, en að hámarki 460-1375 krónur.

TR getur í ákveðnum tilvikum gefið út lyfjaskírteini sem eykur greiðsluþátttöku TR umfram það sem lyfjaflokkarnir gefa tilefni til  eða jafnvel greiða þau að fullu.  Fer það eftir ákveðnum reglum, sem hægt er að finna á heimasíðu TR, með þessum tengli: LYF  Lyfjaskírteini eru gefin út þegar einstaklingur þarf að nota lyf um lengri tíma af brýnni nauðsyn, og TR greiðir ekki eða aðeins að hluta, eða viðkomandi notar mörg lyf eða er með alvarlegan sjúkdóm eins og t.d. parkinsonsjúkdóm eða krabbamein

Hér eru jafnframt sett frekari öryggisnet, því þeir einstaklingar sem hafa umtalsverðan kostnað vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar til TR og er þar tekið tillit til tekna fjölskyldunnar og heildarkostnað vegna heilbrigðisþjónustu. 

Hægt er að sækja um endurgreiðslu tvö ár aftur í tímann.

Markmiðið með þessum niðurgreiðslum og öryggisnetum er að enginn sjúklingur eigi að þurfa að bera kostnað af lyfjum sem er honum ofviða.


Afsláttarkort

Ég hef tekið út athugasemd sem sett var inn á bloggið hjá mér í dag, sem var meiðandi og meinfýsin.   

Í athugasemdinni var hins vegar minnst á rétt einstaklinga sem hafa mikinn kostnað af heilbrigðisþjónustu, sem ég tel rétt að fjalla aðeins um.

Þegar tiltekinni upphæð er náð vegna kostnaðar í heilbrigðisþjónustu hefur sjúkratryggður rétt til að fá afsláttarkort skv. ákveðnum reglum.  Þessi upphæð er 18 þúsund krónur á ári fyrir einstaklinga, 4500 fyrir elli- og örorkulífeyrisþega og fyrir  öll börn í sömu fjölskyldu undir 18 ára aldri er upphæðin 6000. 

Þetta má kalla öryggisnet, þegar fólk þarf að greiða mikið úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu.   Með afsláttarkorti lækkar þessi greiðsla verulega.   

Ég ákvað af þessu tilefni að setja hér inn á síðuna reglur TR um hámarksgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu og rétt til afsláttarkorta, en þær eru teknar af heimasíðu stofnunarinnar.  

"Afsláttarkort Þegar ákveðinni hámarksgreiðslu er náð á einu almanaksári vegna læknis- eða rannsóknakostnaðar einstaklings eða allra barna í sömu fjölskyldu er hægt að sækja um afsláttarkort. Gegn framvísun þess er greitt lægra gjald.

Endurgreiðsla Þeir sem hafa orðið fyrir umtalsverðum læknis-, lyfja og þjálfunarkostnaði geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar að hluta gegn framvísun kvittana. Tekið er tillit til tekna auk útgjalda.

Þegar sjúkratryggðir einstaklingar hafa greitt tiltekna fjárhæð á sama almanaksári (frá janúar til desember) fyrir heilbrigðisþjónustu eiga þeir rétt á afsláttarkorti.

Árlegar greiðslur sem þarf að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu áður en afsláttarkort er útgefið eru eftirfarandi *:

Kr. á ári

Einstaklingar

18.000

Elli- og örorkulífeyrisþegar sem greiða lægra gjald fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu

4.500

Öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu

6.000

Afsláttarkortið er sent sjálfkrafa heim til þeirra sem ná hámarksgreiðslum ef upplýsingar um það eru til hjá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun berast upplýsingar frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem eru með samning við Tryggingastofnun um flestar greiðslur sjúklinga fyrir þjónustu þeirra.

Bent er á að rétt er að geyma allar kvittanir því upplýsingar sem TR hefur að byggja á eru takmarkaðar.

Tryggingastofnun berast ekki upplýsingar frá heimilis- og heilsugæslulæknum eða sjúkrahúsum. Þessum gögnum þarf fólk eftir sem áður að safna saman og senda til þjónustumiðstöðvar eða til umboða Tryggingastofnunar til að fá afsláttarkortið.

Endurgreiðslur verða lagðar beint inn á bankareikninga einstaklinga.

Greiðslur fyrir eftirtalda þjónustu gilda upp í afsláttarkort:

  • komur á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis
  • vitjanir lækna
  • komur á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa
  • komur til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa
  • komur til sérfræðilækna á göngudeild sjúkrahúsa
  • rannsóknir á rannsóknastofum
  • geisla- og myndgreininga og beinþéttnimælinga
  • sérfræðiviðtöl hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Reikningar frá hjartalæknum gilda einnig upp í afsláttarkort ef sjúklingar hafa fengið tilvísun frá heimilislækni.

Kostnaður vegna þjálfunar, lyfja, tannlækninga o.fl. er hins vegar ekki tekinn með inn í hámarksupphæðina og veitir ekki rétt til afsláttarkorts.

Tryggingastofnun berast almennt reikningar frá læknum í lok hvers mánaðar.

Þeir sem hafa náð hámarksfjárhæð fyrr geta sent reikninga til Tryggingastofnunar og fengið kortið sent."

Hér er síðan tengill á frekari upplýsingar um upphæðir sem fólk greiðir eftir að hámarksupphæð er náð  afsláttarkort

 


249 ný hjúkrunarrými í Reykjavík 2002-2006

Meginþunginn í umræðu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni eru biðlistar, m.a. vegna plássa á hjúkrunarheimilum í Reykjavík. Það vantar um 200 hjúkrunarrými í Reykjavík.

Samfylkingin sést ekki fyrir í málflutningi sínum og skellir skuldinni á ríkisstjórnina, að hún hafi ekki staðið við samkomulag sem undirritað var af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Jóni Kristjánssyni rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar á árinu 2002.

Ég hef bent á ábyrgð R-listans í Reykjavík í málinu m.a. í tveimur svargreinum í Fréttablaðinu nýverið.  

M.a. benti ég á að R-listinn hefði á sínum ferli við stjórn Reykjavíkurborgar látið hjá líða að búa betur að eldri borgurum í Reykjavík.  Þannig hefði verið nánast algjör stöðnun í uppbyggingu þjónustuíbúða, félags- og þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða fyrir eldri borgara.

Ég benti á að eina hjúkrunarheimilið sem ákvörðun var tekin um og byggt var í Reykjavík í 12 ára stjórnartíð R-listans var hjúkrunarheimilið Sóltún, sem var byggt í einkaframkvæmd og var alfarið á vegum ríkisins. Sóltún hefur 92 hjúkrunarrými.

Í fyrradag fékk ég upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu, sem ég hafði óskað eftir, um fjölgun hjúkrunarrýma í Reykjavík á tímabilinu 2002-2006, en þessar upplýsingar lágu ekki fyrir áður.  

Í þessum nýju upplýsingum kemur fram að hjúkrunarrýmum í Reykjavík hefur fjölgað um 249 á tímabilinu 2002-2005. Fyrir utan Sóltún má rekja fjölgun hjúkrunarrýma til viðbygginga eða breytinga á starfandi hjúkrunarheimilum og LSH.

Þau skiptast eftirfarandi:

Sóltún                           92 rými          (2002)

Grund                           12 rými          (2002)

Hrafnista                       3 rými           (2003)

Skjól                             -3 rými          (2003) - fækkun

Eir                                  3 rými          (2003)

Skógarbær                     2 rými          (2003)

Hrafnista                       60 rými          (2004)

Grund                             6 rými          (2004)

Eir                                 40 rými          (2004)

Droplaugarstaðir           14 rými          (2005)

LSH                               20 rými          (2005)

Engin viðbót á árinu 2006.

Skv. upplýsingum frá Hrafnistu greiddi borgin 30% af byggingakostnaði við þessi 60 rými hjá stofnuninni og var samkomulag þess efnis undirritað af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þáverandi borgarstjóra rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar 2006.  70% var fjármagnað úr framkvæmdasjóði aldraðra og af sjálfsaflafé Hrafnistuheimilanna.  Ekki er mér kunnugt um hvernig önnur hjúkrunarrými voru fjármögnuð né að hvaða leyti borgin kom að því. 

Það sem vekur athygli er að Samfylkingin leggur meira upp úr því að reyna að koma höggi á ríkisstjórnina í biðlistaherferð sinni, en að draga þó það fram sem R-listinn gerði til að stuðla að byggingu fleiri hjúkrunarrýma.  Benda má á að Droplaugarstaðir eru í 100% eigu borgarinnar og hún var byggingaraðili í hjúkrunarheimilinu Eir og hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, en um 70 rými bættust við á þessum heimilum á tímabilinu 2002-2006. 

Hvernig getur Samfylkingin talað um svik ríkisstjórnarinnar gagnvart Reykvíkingum. 

Á þessu árabili hefur borgin einblýnt á byggingu hjúkrunarheimilanna Markholt við Suðurlandsbraut og á Lýsislóðinni, en bygging þeirra tafðist fyrst og fremst vegna skipulagsmála í Reykjavík.  Þess vegna er þessi vandi í dag, skortur á 200 hjúkrunarrýmum.

Vanrækslusyndirnar eru því ekki ríkisins.


522 ný hjúkrunarrými frá 2001-2006

Samfylkingin keyrir nú neikvæða kosningabaráttu.  Í stað þess að leggja áherslu á hvað flokkurinn stendur fyrir er reynt að kveikja á neikvæðum tilfinningum kjósenda í þeirri von að þeir snúi sér til lags við flokkinn.   Þessi aðferð hefur reyndar af mörgum sem vit hafa á hvernig á að reka kosningabaráttu ekki verið talin vænleg til árangurs og hefur skv. nýjum fylgiskönnunum ekki skilað flokknum miklu.    

Nú er sem sagt keyrt á biðlista í velferðarkerfinu og talað um vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar m.a. í öldrunarmálum.

Staðreyndir er hins vegar sú að hjúkrunarrýmum hefur fjölgað um 522 frá árinu 2001, skipt eftirfarandi á árin:

2001    22

2002    132

2003    50

2004    127

2005    126

2006    65

Því til viðbótar hefur ríkisstjórnin samþykkt að byggð verði 374 hjúkrunarrými á árunum 2007-2010, þar af verða 65 tekin í notkun á þessu ári. 

Þessum 374 hjúkrunarrýmum er skipt eftirfarandi:

  • 110 rými í Markholt við Suðurlandsbraut í Reykjavík, þar af eru eru 40 rými fyrir heilabilaða og 10 rými fyrir geðsjúka.
  • 90 á svokallaðri Lýsislóð
  • 20 á Sjúkrahúsi Suðurlands,
  • 44 í Kópavogi,
  • 20 í Mosfellsbæ,
  • 30 í Reykjanesbæ  
  • 30 í Hafnarfirði,
  • 10 á Ísafirði  
  • 20 í Garðabæ.

Alls er þetta fjölgun um fast að 1000 hjúkrunarrými á árunum 2001-2010. Á árinu 2000 voru hjúkrunarrými í landinu 2048.  Þannig mun hjúkrunarrýmum á landinu fjölga um 50% á tíu ára tímabili 2001-2010.

Svo talar Samfylkingin um vanrækslusyndir.  Fylgist hún ekki með?!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband