Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Bryndís ver bónda sinn

Varnargrein Bryndísar Schram fyrir bónda sinn sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku fór fram hjá mér.  Ég rakst hins vegar á hana í bloggi skólabróður míns úr menntaskóla, Kjartans Valgarðssonar, sem nú býr í Afríku http://www.kjarval.blog.is/ 

Yfirskrift greinar Bryndísar er "Engin karlremba".  Greinin er dálítið krúttleg, frúin ver bónda sinn, vegna ummæla hans um "ljóskuna" Þorgerði Katrínu og segir að hann sé "ekki karlrembusvín".  Hún ætti að vita hvernig hann kemur fram við konur.  

Í vísnahorni Morgunblaðsins á laugardag er bent á að skv. Íslenskri orðabók, útgefinni 2003, er hugtakið "ljóska" skilgreint eftirfarandi: "ung, ljóshærð, vitgrönn kona".

Í vísnahorninu er jafnframt birt vísa frá Rúnari Kristjánssyni frá Skagaströnd:

Býr í húsi gerðu úr gleri

gúrú einn á Krataslóð.

Lofaður af Lennart Meri

en lítt af sinni eigin þjóð!

 

Jón Baldvin með þaninni þrjósku

þrumaði í Silfrinu hátt.

Lýsti þar einhverri ljósku

sem líklega skildi nú fátt!

 

Í umræðunni öflug gróskan

eykur mörgum þor.

Jafnvel menntamála-ljóskan

markar þar sín spor!

 

Jón Baldvin sem merktur mósku

miðlar ei viti stóru.

Einna helst líkur ljósku

sem leitar að eigin glóru!

Það sem mér fannst reyndar einna merkilegast í greininni var að Bryndís notaði þátíð þegar hún sagði eftirfarandi um nafngift bónda síns á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur:  "...Og svo ein enn sem hann vænti mikils af, hét bara Sóla."   Í samræmi við annað sem hefur komið frá kratahöfðingjanum að undanförnu.


Sjálfstæðisflokkur, VG og utanríkismál.

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins fjallar í dag um hugsanleg stjórnarmynstur eftir kosningarnar 12. maí næstkomandi.

Margt er hægt að taka undir í greiningu Morgunblaðsins en það voru tvö atriði sérstaklega sem vöktu athygli mína.

Annað er að höfundur Reykjavíkurbréfsins lýsir því að ekki sé þörf á að hafa áhyggjur af utanríkismálum í höndum Vinstri grænna með Steingrím Sigfússon þar við stjórnvölinn í hugsanlega ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og VG.  Þessir flokkar séu í grundvallaratriðum sammála í afstöðu sinni til Evrópusambandsins.

Nokkrum blaðsíðum framar í blaðinu, á bls. 38-41, er úttekt blaðsins á afstöðu stjórnmálaflokkanna í utanríkismálum.   Þar sker VG sig út í megináherslum í utanríkisstefnu Íslendinga síðustu áratuga, með neikvæðri afstöðu til NATO og varnarsamningssins við Bandaríkin.   Eina sem þessir tveir flokkar eru sammála um varðandi stefnu í utanríkismálum er afstaðan til ESB, sem ekki er einu sinni rætt í kosningabaráttunni og aðeins einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin með um 20% fylgi í skoðanakönnunin, er með á stefnuskrá sinni. 

Hvernig kemst höfundur Reykjavíkurbréfsins að þeirri niðurstöðu að utanríkismál í höndum VG muni ekki skapa vanda?  Hefur höfundurinn heimildir fyrir því að VG geri utanríkismál ekki að ágreiningsefni í hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum.  Ef svo er, væri gagnlegt að vita af því.

Hér er tafla um afstöðu flokkanna, tekin úr Morgunblaðinu í dag.

Mynd úr gagnasafni Morgunblaðsins

Hitt atriðið í Reykjavíkurbréfinu varðar hugsanlega virka íhlutun forseta Íslands í stjórnarmyndun, sem er áhyggjuefni og ógnun við lýðræðið í landinu.  Það er mikilvægt að allt frumkvæði í stjórnarmyndun verði á höndum forystumanna flokkanna, án afskipta og íhlutunar forsetans.

 

 


Nær helmings fækkun kvenna í þingliði Samfylkingar.

Hlutur kvenna og endurnýjun í þingliði flokka hafa ætíð þótt tilefni til umræðu.  Einkum hafa fréttamenn fylgst náið með gengi kvenna í Sjálfstæðisflokknum og verið tilefni  miður vinsamlegra athugasemda, ekki síst úr röðum Samfylkingarfólks.  Nú sýna skoðanakannanir að konum í þingflokki Samfylkingar mun fækka um nær helming og endurnýjun í þingliðinu verður afar lítil. 

Það hefur hins vegar ekki þótt tilefni tíðinda í blöðum eða bloggsíðum!  

Í könnun  Fréttablaðsins í dag er Sjálfstæðisflokknum spáð 40.6% fylgi, sem er um 7% aukning frá kjörfylgi 2003 og gefur flokknum 27 þingmenn í stað 22 áður. 

Í hópi þeirra 27 þingmanna eru 10 konur, þar af 7  nýjar á þingi, en þó engir nýgræðingar því þær hafa mikla reynslu í atvinnulífinu og í stjórnmálum, sem sveitarstjórnarmenn og aðstoðarmaður ráðherra.  Konur í þingliði flokksins eru nú 7, en gangi skoðanakönnunin eftir verða þær 10.

Fjórir nýir þingmenn eru karlar, sem hafa mikla reynslu í atvinnulífinu og stjórnmálum, á sveitarstjórnarstigi og sem aðstoðarmenn ráðherra. 

Af þessum 27 þingmönnum sem flokknum er spáð eru þannig 11 nýjir þingmenn og einn fyrrum þingmaður.  40% af þingmönnum flokksins verða nýir.

Samt spyrjum við að leikslokum, en þetta er feiknalega öflugt lið sem skoðanakönnun Fréttablaðsins spáir að bætist við hóp reyndra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Samfylkingu er skv. skoðanakönuninni spáð 15 þingmönnum, 10 körlum og 5  konum.  Konum í þingliði Samfylkingarinnar fækkar um 4.  Endurnýjunin felst í 2 reyndum sveitarstjórnarmönnum á miðjum aldri og einum fyrrum þingmanni. Endurnýjunin er 13.3%.

Kjósendur eiga ekki að vera í nokkrum vafa um hvor kosturinn er meira spennandi!


Hrafninn talar!

Meira um efni Viðskiptablaðsins í gær.

 Í pistli í blaðinu í gær segir Hrafn Jökulsson eftirfarandi:

  •  " Jú, það er kosið um næstu ríkisstjórn. Kaffibandalag stjórnarandstöðunnar vofir enn yfir þjóðinni.  Það hafa forystumenn Samfylkingar, VG og Frjálslyndra áréttað á síðustu dögum og vikum. Og vill einhver - í alvöru - slíka ríkisstjórn? Eftir landsfund Samfylkingarinnar var þjóðin jafn nær um stefnu flokksins, sem virðist rúmast í þremur orðum: Við viljum völd.

 

  • Og viljum við sjá Magnús Þór Hafsteinsson sem félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar, þar sem Steingrímur J. fengi að leika lausum hala í fjármálaráðuneytinu?..."

Jamm!!

Þarf nokkru við að bæta!   

Talandi um hryllingsmyndir! 


Áfram, áfram!

Viðskiptablaðið í gær var sérstaklega skemmtilegt aflestrar.  Þar var t.d. viðtal við Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra InPro, en fyrirtækið sérhæfir sig í veitingu heilbrigðisþjónusta á einkarekstrarlegum grunni, m.a. heilsuvernd í fyrirtækjum og hjúkrun í heimahúsum.   Þá er fyrirtækið í samstarfi við ýmsa aðila um framkvæmd forvarna t.d. forvarnir vegna hjartasjúkdóma í samstarfi við Hjartaheill á Suðurnesjum.  Fyrirtækið hefur jafnframt áhuga á að taka að sér verkefni með samningi við stjórnvöld um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu og nefnir Vigdís í viðtalinu rekstur heilsugæslustöðva sem dæmi. 

Hugmyndir Vigdísar eru ferskar og ég er hjartanlega sammála henni þegar hún segir í lok viðtalsins eftirfarandi: "... (það) þarf að skilgreina betur, og gera það fyrir opinberum tjöldum, hvaða þjónustu hið opinbera ætlar að fjármagna og tryggja þannig landsmönnum aðgang að. Í öðru lagi þarf að gefa einkaaðilum tækifæri til þess að sinna þessari þjónustu í mun meira mæli en nú er."

Ýmsir hafa orðið til þess að hallmæla sjálfstæðum rekstri í heilbrigðisþjónustu.  Gjarnan með að draga fram einhver öfgadæmi að utan.   Það á t.d. við um Vinstri græna, sem sjá svart þegar slíkar hugmyndir eru nefndar.

Reynslan hér á landi er hins vegar mjög góð.  Einkarekin heilsugæsla í Salahverfi sem hefur starfað í örfá ár og heilsugæslustöðin í Lágmúla,sem hefur starfað á þriðja áratug, þykja veita afbragðs þjónustu, sem m.a. hefur verið staðfest með könnunum á vegum Heilsugæslunnar í Reykjavík. Þá er hagkvæmi og skilvirkni í þjónustu betri hjá þeim, en hjá ríkisreknum heilsugæslustöðvum.  Það hefur heilbrigðisráðumeytið staðfest.  Hið sama má segja um einkarekna hjúkrunarheimilið Sóltún, en þjónustan og aðbúnaður aldraðra er notuð sem fyrirmynd annarra heimila.

Andstaða Vinstri grænna er því fremur í ætt við trúarbrögð, en að þeim sé umhugað að geta veitt gæðaþjónustu og fá fram betri nýtingu fjármuna úr opinberum sjóðum. 

Þessi heilbrigðisfyrirtæki eru rekin af opinberu fé með samningi við stjórnvöld.  

Sporin hér á landi þarf því ekki að hræðast, heldur eru hvatning til frekari þróunar. Það mun Sjálfstæðisflokkurinn gera, fái hann tækifæri eftir kosningar að taka að sér heilbrigðisráðuneytið, sem ríkur vilji er fyrir innan flokksins.  Ekki mun ég skorast undan að leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

 


Áfram um rangfærslur Samfylkingar um tannheilsu

Í gær skrifaði ég um rangfærslur Samfylkingar í auglýsingum um tannheilsu íslenskra barna. 

Í rannsókn Munnís, sem Samfylkingin er sennilega að nota kemur fram að rannsóknaraðferðir til að meta tannheilsu barna voru ólíkar og ekki sambærilegar í rannsókninni 1996 og 2005. 

Annars vegar var tannástand metið sjónrænt og hins vegar með hjálp röntgentækja.  Þetta er ekki sambærilegt.

Enda segja skýrsluhöfundar eftirfarandi:

"Undirstrikað er mikilvægi þess að önnur og nákvæmari aðferð er nú notuð við greiningu á tannátu en í fyrri rannsóknum, auk þess sem röntgenmyndir gera greiningu á skemmdum á hliðarflötum tanna betri. Því liggja nú fyrir mjög áreiðanlegar upplýsingar um tíðni tannátu hjá íslenskum börnum og ungmennum þó upplýsingarnar séu ekki algerlega samanburðarhæfar við niðurstöður fyrri rannsókna á tannátu hérlendis."

Hér er súlurit sem birt er í skýrslunni og sýnir raunverulegar niðurstöður könnunarinnar, þar  sem fyrri súlan 2005 er sambærileg við rannsóknir fyrri ára.

Þetta súlurit segir allt sem þarf!

Meðalfjöldi skemmdra, fylltra og tapaðra fullorðinstanna hjá 15 ára börnum - D3MFT

Mynd: meðalfjöldri DMFT hjá 15 ára. Smella á mynd til að stækka


Rangfærslur í auglýsingu Samfylkingarinnar

Rétt fyrir kl. 8 í morgun hlustaði ég á útvarpið í bílnum mínum á leið minni á fastan morgunfund okkar frambjóðenda í Valhöll. 

Þá var spiluð auglýsing Samfylkingarinnar með rödd eins frambjóðanda flokksins um stefnu hans varðandi tannheilsu íslenskra barna. Þar var fullyrt að hún hafi versnað á síðustu árum.   

Þetta er einfaldlega rangt.

Hér er líklega verið að vísa í nýlega kynnta rannsókn á tannheilsu Íslendinga.  Hana má nálgast hér , en þar er m.a. borin saman tannheilsa íslenskra barna á árunum 1995 og 2005

Þar segir m.a eftirfarandi:

"Tíðni tannskemmda meðal barna og unglinga á Íslandi lækkaði mjög hratt á árunum 1986-1996 en undanfarin áratug virðist hafa hægt mjög á þeirri jákvæðu þróun.

Ef eingöngu er miðað við niðurstöður sjónrænnar greiningar nú virðast litlar breytingar hafa átt sér stað á tannheilsu 6, 12 og 15 ára barna og ungmenna undanfarin 10 ár..." 

Fullyrðing frambjóðandans um versnandi tannheilsu íslenskra barna stenst því ekki og er röng. 

Þetta eru óvönduð vinnubrögð frá hendi Samfylkingarinnar og vekur spurningar um annað áróðursefni sem frá þeim kemur.   

 

 


Árni á hrós skilið!

Vandi þeirra barna og foreldra þeirra sem bíða eftir plássi á BUGL er erfiður.  Eins og kom fram í fréttum ríkissjónvarpsins í gærkvöldi sagði Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra að börn sem væru í bráðaþörf væru í forgangi í þjónustu á stofnuninni.  Börn sem eru með alvarlegan vanda sökum geðsjúkdóms þurfa á slíkri innlögn að halda.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að við getum breytt áherslum í geðheilbrigðisþjónustu og náð jafnvel betri árangri í betri líðan fólks.   Vandinn er að við leggjum allt of mikla áherslu á stofnanaþjónustu og innlögn á stofnun.  Það á við á flestum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. 

Við erum með hlutfallslega einna flest hjúkrunarrými fyrir aldraða og sjúkrarúm í geðheilbrigðisþjónustunni í samanburði við önnur Norðurlönd.  Það skortir á úrræði utan stofnana á göngudeildum, í heimahúsum og innan félagslega kerfisins.  Fólk er á stofnunum, sem gæti með auknum stuðningi heilbrigðis- og félagslega kerfisins búið sjálfstætt og fengið þjónustu utan stofnana eða heim til sín. 

Þetta er einn helsti ljóður á okkar heilbrigðiskerfi og hann er okkur dýr, bæði mannlega og fjárhagslega.

Það er hægt að gera hlutina öðruvísi.  Það staðfesta m.a. ummæli Helga Vilberg hjá Reykjavíkurborg og Gylfa Jóns Gylfasonar í Fréttablaðinu í fyrradag, 23. apríl, um þjónustu við börn með hegðunarvanda.   Þar segja þeir að þau kerfi sem sinna þessum börnum "tali ekki saman" og BUGL vísi ekki á þau úrræði sem fyrir eru innan skóla- og félagskerfis til að styðja við þessi börn og fjölskyldur þeirra.  Jafnframt er bent á að það skorti á slíkt úrræði.  

Einna athyglisverðast þó er framtak Reykjanesbæjar.  Sveitarfélagið bíður foreldrum upp á uppeldisnámskeið til að draga úr líkum á hegðunarvanda hjá börnum.  Stoðkerfi samfélagsins, heilbrigðiskerfið, skólinn og félagslega kerfi sveitarfélagsins styðja við þá nálgun sem námskeiðið er byggt á.  Áhersla er á að veita þjónustu í heimabyggð.

Afleiðingin er að tilvísanir vegna barna í Reykjanesbæ vegna hegðunarvanda eru mun færri og innlögnum barna úr sveitarfélaginu á barnageðdeild hefur fækkað um helming.

Þetta er þarft og gott framtak, sem sýnir næmni á þarfir samfélagsins!   Bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, á þar hrós skilið!


Reiðþjálfun í höfn

Hestamenn sem sóttu landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði árið 2002 muna þegar Önnu Bretaprinsessu var færður hestur að gjöf með þeim orðum að hann væri ætlaður til þjálfunar fatlaðra barna í heimalandi hennar.  Hesturinn fældist reyndar lítillega við athöfnina og annar sendur í hans stað til Bretlands, en það er önnur saga!

Í dag átti ég þess kost að vera viðstödd í reiðhöll hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi, þegar Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra undirritaði reglugerð sem heimilar þátttöku Tryggingastofunar ríkisins í greiðslu reiðþjálfunar, sem meðferð í sjúkraþjálfun.

Þetta var afar ánægjulegur viðburður, sem mun skipta miklu máli fyrir fjölmarga fatlaða, ekki síst fötluð börn.

Ég flutti fyrirspurn á Alþingi fyrir nokkrum misserum um þessi mál og benti m.a. á að íslenski hesturinn þyki sérlega vel fallinn til reiðþjálfunar fatlaðra og ræður þar bæði bygging hans og eðliseiginleikar. Hann er fremur smávaxinn með góða lund og ólíkar gangtegundir hans eru gagnlegar við hæfingu og þjálfun fatlaðra.  Með reiðþjálfun er m.a. hægt að bæta líkamsbeitingu, jafnvægi og hreyfifærni fatlaðra barna, auk þess að vera ánægjuríkt og hvetjandi sem meðferðarform.

Um nokkurt skeið hafa sérhæfðir sjúkraþjálfarar beitt reiðþjálfun fyrir fötluð börn, m.a. í sumarbúðum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.  Fyrirspurn mín beindist að því spyrja heilbrigðisráðherra hvort hann ætlaði að beita sér fyrir því að reiðþjálfun yrði viðurkennt meðferðarform við sjúkraþjálfun fatlaðra barna og nyti greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins. Siv heilbrigðisráðherra lýsti skilningi og stuðningi við málið.

Í framhaldi af fyrirspurn minni og með samvinnu og hvatningu margra aðila, m.a. Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara og annarra aðila varð þessi langþráði draumur margra að veruleika í dag.   

Því ber að fagna og fyrir það að þakka.  Hópur fatlaðra barna og foreldrar þeirra glöddust sérstaklega í dag.  


Einmana íslensk börn

Eitt sinn heyrði ég barn segja: "Krakkarnir vilja ekki gera sig að fífli að tala við mig." 

Einmana börn, var yfirskrift fundar sem ég sótti í morgun á vegum Samtakanna Náum áttum sem er opinn samráðsvettvangur ýmissa aðila um fræðslu og fíkniefnamál.   Í samráðshópnum eru bæði opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök . 

Kveikjan var nýleg alþjóðleg rannsókn sem sýndi að íslensk börn lýsa einni mestri einsemd í samanburði við börn í öðrum löndum.  

Þetta er mikið áhyggjuefni og umhugsunarefni fyrir foreldra í forgangsröðun sinni og skóla í áherslum sínum.

Á fundinum var m.a. sagt frá unglingsstúlku, sem hefur orðið útundan í félagahópi, en hún eyddi öllum páskunum fyrir framan tölvuna sína. Foreldrar hennar eru mikið fjarverandi vegna vinnu sinnar, m.a. vegna vaktavinnu. Þetta er ekki einsdæmi.  

Vinir skipta unglinga miklu máli.  Þau sem lenda útundan meðal félaga sinna, finna til einmanaleika, kvíða og depurðar.  Þessir krakkar eru í áhættu að missa tök á lífinu og oft þarf mikið átak til að byggja upp sjálfstraust og  sannfæra þau um ágæti sitt.   Á fundinum var sýnt fram á að inngrip skóla og foreldra og samvinna þeirra getur skipt sköpum um líðan og afdrif þessara krakka.  Jafnframt var athyglisverð umræða um að netnotkun þessarra barna hefur reynst þeim hættuleg. Netheimar eru opnir öllum og nýta níðingar sér það.  Þessir krakkar eru í sérstakri hættu gagnvart þeim, því sókn þessara krakka eftir samskiptum og viðurkenningu getur gert þau að auðveldum fórnarlömbum níðinga. 

Þessi umræða er mikilvæg og það var gott að hlusta á fagfólk lýsa hvernig þau nálgast unglingana af  umhyggju fyrir velferð þeirra og áhuga á að verða þeim að liði og hvaða árangri er hægt að ná með markvissum hætti.  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband