Enn við sama heygarðshornið

Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún byggi efnahagsstefnu sína á fyrirliggjandi áætlunum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þýðir að hún þarf að ná markmiðum fjárlaga 2009 sem samþykkt voru fyrir jól. Hún þarf að beita »aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum« eins og segir í verkefnaskrá hennar.

Stóraukin útgjöld
Fyrstu skref ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn benda hins vegar til hins gagnstæða. Þeir eru enn við sama heygarðshornið. Ekki hefur orðið vart við breytingu á afstöðu þeirra frá afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, en þar fluttu þeir breytingatillögur um stóraukin útgjöld í öllum þáttum opinberrar starfsemi. »Aðhaldssöm og ábyrg stefna í efnahags- og ríkisfjármálum« er fjarri góðu gamni.
Fyrsta vikan
Í fyrstu viku nýrrar ríkisstjórnar hefur nýr heilbrigðisráðherra fellt niður innritunargjöld á sjúkrahús sem nema um eitt hundrað milljónum króna og skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu, sem áttu að skila um 1,3 milljörðum króna, eru í uppnámi. Stjórnendur viðkomandi heilbrigðisstofnana hafa lagt nótt við dag að útfæra tillögur sínar til að ná markmiðum fjárlaga og liggja þær fyrir hjá þeim flestum. Óvíst er hvort nýr heilbrigðisráðherra hafi kraft og þor til að fylgja þeim eftir. Vilji nýs menntamálaráðherra varðandi breytta útborgun námslána mun kosta ríkissjóð marga milljarða króna og 13 milljarða króna þarf til að ljúka tónlistarhúsi eins og hugur hennar stendur til.

Slá hendi á móti fleiri störfum
Ekki er á það bætandi að nýr sjávarútvegsráðherra virðist tilbúinn til að slá hendinni á móti um 5 milljarða tekjum og hátt á þriðja hundrað störfum með að fella úr gildi reglugerð um hvalveiðar.

Vonbrigði
Fyrstu skref VG í ríkisstjórn valda vonbrigðum, þau lýsa ekki skilningi á þeirri erfiðu efnahagslegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir, né hvaða aðgerða er þörf. Þau lýsa útgjaldagleði, sem er nokkuð sem við þurfum ekki á að halda þessa dagana

Grein birt í Morgunblaðinu 9.2.09


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Æ,já Ásta

Það er víst ekki sérlega kræsilegt að taka að sér að þrífa upp nærri tveggja áratuga skít sjálfstæðismanna. Ekki nema von að menn verði svolítið ráðvilltir fyrstu dagana meðan þeir eru að átta sig á að forin er talsvert dýpri en menn hafa látið í veðri vaka síðustu misseri.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 9.2.2009 kl. 13:27

2 identicon

Það mun taka ,, fólkið í landinu " a.m.k. 18 ár að moka út uppsafnaðan íhaldsskítinn.

Stefán (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 14:21

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessir ágætu herrar hlustuðu víst ekki á viðtal við Elías nokkurn Pétursson í Silfrinu á sunnudag. Þeir halda að veislan standi enn.

Ragnhildur Kolka, 9.2.2009 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband