Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Eru verðbætur fjármagnstekjur

Um 30 þúsund eldri borgurum var tilkynnt í byrjun árs að þeir hefðu fengið ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins alls að upphæð tæpar 300 milljónir króna, sem þeir yrðu að greiða til baka eða semja um.

Þetta veldur óróa og óþægindum hjá eldri borgurum landsins

Fjármagnstekjur skerða lífeyri 100%
Um síðustu áramót gengu í gildi breytingar á almannatryggingalögum, sem fólu í sér að fjármagnstekjur umfram 100 þúsund krónur á ári, um 8000 á mánuði skerða að fullu lífeyri almannatrygginga. Áður skertu 50% fjármagnstekna lífeyri almannatrygginga. Til fjármagnstekna í þessum skilningi falla vaxtatekjur og verðbætur af bankareikningum, leigutekjur, arður og söluhagnaður.

Er þetta eitthvað til að gera veður út af?

Í fyrirspurnatíma í dag ræddi ég við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um þessa breytingu

Í ræðu sinni á Alþingi á sínum tíma sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra m.a. eftirfarandi:

"...Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerti bætur almannatrygginga um 50% skerði þær um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem er hægt að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti"

Mikil gagnrýni
Nú síðustu daga hefur komið fram veruleg gagnrýni á þessa breytingu og áhrif þeirra á kjör aldraðra

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara hefur mótmælt kröftuglega því sem þeir kalla ranglátar endurkröfur TR, sem stjórnin segir að byggist á óskiljanlegum og óréttlátum reglugerðum og lögum um að tekjutengja og meðhöndla vexti og verðbætur eins og um tekjur væri að ræða.

Verðbætur eru ekki fjármagnstekjur
Í þessu máli hefur sérstaklega verið gagnrýnt að verðbætur teljist til fjármagnstekna í skilningi almannatryggingalaga.  Í þeirri verðbólgu sem hefur ríkt á undanförnum mánuðum sé varhugavert að líta á verðbætur á sama hátt og vexti, þar sem þær eru ekki ávöxtun, heldur hugsaðar til þess að innistæður rýrni ekki. Verðbætur sem eiga að halda í verðbólguna, eigi því alls ekki að skerða lífeyri almannatrygginga, þær eiga að halda í við hækkandi verðlag.

Ég tek undir þessa gagnrýni og get einnig skilið að eldri borgarar séu svekktir vegna þessa.

Var of langt gengið?
Í umræðunni spurði ég Jóhönnu hvort hún telji að of langt hafi verið gengið í lagasetningu fyrir jól að fjármagnstekjur skerði að fullu bætur almannatrygginga, eftir að um 100 þúsund króna frítekjumarki er náð og hvort ástæða er til að endurskoða hvort verðbætur eigi að falla þar undir.

Hún svaraði í þá veru að þetta yrði skoðað

Efnisleg umræða, ekki málþóf

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ásakaðir um að stunda málþóf í umræðu á Alþingi í gær, þegar til umræðu var frumvarp ríkisstjórnarinnar um innlausn séreignalífeyrissparnaðar fólks hjá lífeyrissjóðunum.

Á þingi í dag, sem starfandi þingflokksformaður þá stundina, andmælti ég fullyrðingum Marðar Árnasonar í þessa veru.

Ekki heppileg leið
Í gær fór þvert á móti fram efnisleg umræða frá hendi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um heimildir fólks til að nálgast séreignasparnað sinn úr lífeyrissjóðum til að mæta greiðsluerfiðleikum heimilanna.

Þar gagnrýndum við sjálfstæðismenn harðlega þá leið sem ríkisstjórnin og framsóknarmenn vilja fara. Hún felur í sér að almenningur getur innleyst eina milljón króna í jöfnum greiðslum á 10 mánuðum, 100 þúsund krónur á mánuði í 10 mánuði, eða 63 þúsund krónur á mánuði eftir skatta. Slík útfærsla dugar skammt til að mæta vanda heimila í landinu sem eiga í greiðsluerfiðleikum og veldur almenningi vonbrigðum. Jafnframt getur hún skaðað starfsemi lífeyrissjóðanna.

Það er til önnur og betri leið
Leiðin sem sjálfstæðismenn mæltu fyrir í gær að frumkvæði Péturs H Blöndal og lögðu fram breytingatillögu um felur í sér að almenningur gæti útleyst séreignalífeyrissparnað sinn í einu lagi, einni milljón króna að frádregnum skatti, - í einni upphæð, sem má margfalda með tveimur ef hjón eða sambýlisfólk á slíka inneign í séreignalífeyrissparnaði, alls 630 -1260 þúsund.

Það var mat fulltrúa lífeyrissjóðanna að leið sjálfstæðismanna, kæmir betur til móts við yfirlýst markmið frumvarpsins um að rétta heimilunum hjálparhönd og um leið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Ekki var hlustað á varnaðarorð
Vinna stjórnarliða og framsóknarmanna við vinnslu frumvarpsins var flaustursleg og var ekki hlustað á varnaðarorð umsagnaraðila.

Hafi þingmenn eitthvað lært af hamförum haustsins, þá er það að vanda til verka. Ekki má sýna andvaraleysi heldur skoða mál til hlítar og finna bestu leið, sem kemur sem flestum til góða

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að á það hafi skort í vinnslu frumvarps um innlausn séreignalífeyrissparnaðar og lögðu sig fram um að fá stjórnarliða og fylgismenn þeirra að snúa við blaðinu, en árangurslaust.

Vonandi tekst honum það.

Breytingar á heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum var eitt af stóru baráttumálum í kosningabaráttu Bill Clinton til forseta Bandaríkjanna.  

Hann fékk hundrað daga til að koma fram með áætlun sína og setti hann konu sína Hillary til að stýra nefnd sem átti leggja fram tillögur.  Honum mistókst ætlunarverk sitt, af ýmsum ástæðum, sem ég rakti í ritgerð sem ég skrifaði í meistaranámi mínu í opinberri stjórnsýslu og hægt er að nálgast á heimasíðu minni, www.astamoller.is undir Erindi og ritgerðir.

Allt hefði átt að ganga honum í haginn, en hann klúðraði því, því miður. 

Vonandi tekst nýjum forseta að fylgja eftir áætlun sinni að bæta heilbrigðisþjónustu Bandaríkjamanna, sérstaklega þeirra sem eiga undir högg að sækja.

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að hugmyndir um aukið samstarf ríkisins og sjálfstæðra aðila um rekstur í heilbrigðisþjónustu hefur ekkert með amerískt heilbrigðiskerfi að gera.  Þar er fyrst og fremst talað um að ríkið geri samninga við sjálfstæða aðila, sjálfseignastofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um að veita sjúklingum og öldruðum þjónustu, með óbreyttri greiðsluþátttöku almennings.

 

 

 


mbl.is Krefst endurbóta á heilbrigðiskerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna eiga konur að taka þátt í stjórnmálum?

Þessi frétt gladdi mig sérstaklega. 

Svo vill til að ég er einn af fjórum fulltrúum vestrænna ríkja í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU.  Var kosin í stjórnina í apríl á síðasta ári og vann þar þýskan þingmanna með nokkrum yfirburðum. Er ég annar þingmaður frá Íslandi sem hefur verið kjörin í framkvæmdastjórnina í yfir eitt hundrað ára sögu samtakanna.  Hinn er Geir H Haarde.

Þessi samtök leggja sérstaka áherslu á að jafna hlutföll kynjanna í stjórnmálum og hafa látið gera rannsókn um viðhorf karla og kvenna sem gegnt hafa þingstörfum og er hún um margt áhugaverð.  Þannig mæta konur og körlum mismunandi þröskuldum til að taka þátt í stjórnmálum og áherslur þeirra eru mjög ólíkar. 

Hér má finna tengil á þessa rannsókn:  http://www.ipu.org/PDF/publications/equality08-e.pdf

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru ein bestu rök fyrir því hvers vegna konur jafnt og karlar  eiga að taka þátt í stjórnmálum.

 


mbl.is Metfjöldi kvenna á þingi í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringingar, opnun og lestur passíusálma

Dagurinn í dag var fjölbreyttur.  Byrjaði daginn á klippingu, en fór síðan á fund stjórnar þingflokks sjálfstæðismanna þar sem dagurinn í þinginu var ræddur og skipulagður frá okkar hendi.   Þar voru mætt  auk mín, Geir, formaðurinn okkar og Arnbjörg þingflokksformaður, auk Árna Helgasonar framkvæmdastjóra þingflokksins. Síðan vann ég á skrifstofunni minni við skriftir, skipulagningu og símtöl til kl. 12, en þá var þingfundur settur.  

Um kl. 13 skaust ég í mat og fór síðan upp á kosningaskrifstofu til að funda um auglýsingamál. Nú gildir að nýta hvern eyri sem  best til kynningar.  Tók síðan nokkur símtöl, en um kl. 16 var þingflokksfundur í Alþingishúsinu.  Náði síðan að stoppa smá stund við opnun kosningaskrifstofu Jóns Magnússonar í Síðumúla ( á móti versluninni Álnabæ, eins og Jón sagði!)

Klukkan 18 átti ég að vera mætti í Grafarvogskirkju til flytja 6. sálm Passíusálma, en Sr. Bjarni Þór hefur leitað til okkar þingmanna síðustu ár í því skyni og hafði ég mikla ánægju af því. Þar hitti ég konu sem ég kannaðist við og hún vildi afhenda mér bréf, sem hún og gerði.  Á blaðinu var vísa eftir Sigurð Jónsson, sem hann orti til mín.  Ég kannaðist reyndar við konuna og kom í ljós þegar við ræddum saman að hún hefði unnið lengi í Reykjavíkurapóteki. Þangað hafði ég oft komið sem krakki með Elínu Soffíu æskuvinkonu minni, en pabbi hennar var lyfjafræðingur þar.  Þar fengum við stundum apótekaralakkrís og ég mundi eftir andliti konunnar eftir öll þessi ár.  Ég er mjög glögg á andlit, en er ekki eins klár á að muna hvaðan ég þekki fólk, hvað þá nöfn þess.  

Kvöldið fór í símtöl og fundi á kosningaskrifstofunni, en starfið þar er að fara í gang.  Bauð vinnandi fólki þar upp á kjúklingasalat sem var útbúið á staðnum.  

Ásta Möller

 


Staksteinar í dag.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, sem er sennilega víðlesnasti dálkur blaðsins segir m.a. eftirfarandi undir fyrirsögninni: 

"Uppgjör við framtíðina?

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sækjast eftir endurkjöri, eru byrjaðir að viðurkenna ábyrgð sína og flokksins á bankahruninu, a.m.k. að hluta til.

Ásta Möller sagði á Alþingi í gær. " Við vorum sjálfumglöð og sjálfsörugg og veittum ekki aðvörunarmerkjum athygli sem skyldi. Ég á minn þátt í þessu andvaraleysi sem við höfum gert okkur sek um (...) Fyrir sjálfa mig þykir mér það miður og hef beðist afsökunar á því."
Bjarni Benediktsson, sem alla líkur eru á að verði formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Sjónvarp mbl.is í gær: "Ég er sammála því að Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á ýmsu af því, sem hefur ekki lánast nógu vel hjá okkur á undanförnum árum."

Bjarni og Ásta bentu réttilega á að talsvert vantar upp á að í öðrum flokkum, sem verið hafa við stjórnvölinn undanfarin ár, fari fram svipuð umræða og sú, sem nú fer fram í Sjálfstæðisflokknum."...."

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband