Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnarliðar á móti Framsókn?

Framsókn setti tillögu sína um stjórnlagaþing á oddinn í stuðningi sínum við minnihlutastjórn Vg og Samfylkingar.

Það vakti hins vegar athygli í þinginu í dag að enginn stjórnarliði hélt ræðu um málið, en utanríkisráðherra og formaður þingflokks Samfylkingar fóru í stutt andsvör.

Framsóknarmenn fjölmenntu á hinn bóginn í umræðuna, en svo virðist sem þeim sé þegar ljóst að á brattann er að sækja.

Þannig gerir t.d. Hallur Magnússon, framsóknarmaður, sem er á leið í framboð til Alþingis, m.a. ráð fyrir því bloggsíðu sinni að „Sjálfstæðismenn og einhverjir Samfylkingarmenn reyni að kaffæra málið með vísan til kostnaðar" . 

Hann segir einnig:

„Það kemur ekki á óvart að Sjálfstæðismenn óttast fólkið og lýðræðið. Verst að hluti Samfylkingar og VG treysta þjóðinni heldur ekki til að kjósa sér stjórnlagaþing til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá."

Lýsing hans á afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar ekki  rétt, eins og kemur m.a. fram í frásögn af ræðu Péturs Blöndal.  

Nú er spurt.  Skyldi þetta hafa einhver áhrif á stuðning Framsóknar við minnihlutastjórnina?


mbl.is Pétur Blöndal styður stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr sjúklingaskattur

Í gær gaf Ögmundur Jónasson út nýja reglugerð um greiðsluþáttttöku almennings í lyfjum, sem leiðir til 10% hækkunar á lyfjakostnaði almennings. Þetta þýðir að um 400 milljónir króna eru færðar úr vösum sjúklinga til ríkisins.

VG á móti 
Þetta er sérkennilegt ekki síst í ljósi þess að fyrir örfáum vikum, í umræðu um frumvarp til fjárlaga, fóru Vinstri grænir, með núverandi heilbrigðisráðherra í fararbroddi, hamförum í hneykslan sinni yfir þeirri ósvífu að hækka komugjöld í heilbrigðisþjónustu og innritunargjöld á sjúkrahús, en alls námu þessar hækkanir um 360 milljónum króna. Komugjöld höfðu ekki hækkað um langt árabil.

10% hækkun lyfjakostnaðar
Nú hefur Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra ákveðið að auka álögur á sjúklinga og hækka lyfjakostnað sjúklinga um 10%.

Röksemdir fyrir þeirri hækkun eru sambærilegar þeim sem þingmenn Vinstri grænna náðu ekki upp á nef sér í reiði sinni yfir í umræðu um fjárlögin í desember síðastliðnum. Greiðsluviðmiðun sjúklinga hafði ekki hækkað frá ársbyrjun 2001, en á sama tíma hækkaði vísitalan um 60%.

VG á móti hækkun gjalda í heilbrigðisþjónustu
Þetta eru mikil umskipti frá málflutningi Vinstri grænna fyrir nokkrum vikum, sem máttu ekki heyra það nefnt að hækka álögur í heilbrigðisþjónustu, sem þeir sjálfir kölluðu sjúklingaskatt.

Stolnar fjaðrir
Því til viðbótar má segja að reglugerð sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra kynnti í gær, var í meginatriðum efnislega sú sama og reglugerð sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra undirritaði 20. Janúar síðastliðinn og hafði verið í undirbúningi í ráðuneytinu um margra mánaða skeið, en það lét ráðherrann ógetið.


mbl.is Þingmenn karpa um fjaðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of stór biti?

Það hefur verið gott að vinna með Valgerði á þingi, þótt okkur hafi nú greint á um ýmislegt.

Það verður eftirsjá af svona reyndum stjórnmálamanni á þingi.

Miklar sviptingar eru hjá Framsókn þessi misserin.  Á innan við þremur árum hefur reynslumikið fólk eins og Halldór Ásgrímsson, Hjálmar Árnason, Guðni Ágústsson, Jónína Bjartmars og Jón Kristjánsson hætt á Alþingi og nú hafa bæði Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson tilkynnt að þau muni ekki bjóða sig fram í þingkosningunum í vor.   Þá er ónefndur Bjarni Harðarson, sem ekki einungis sagði af sér þingmennsku heldur sagði sig einnig úr flokknum í kjölfarið, auk Árna Magnússonar og Jóns Sigurðssonar, sem báðir áttu stuttan stjórnmálaferil.  

Eftir stendur þingflokkur sem er ungur að reynslu, að Siv undanskilinni.  Ungur maður, með engan bakgrunn í stjórnmálum gekk í flokkinn stuttu áður en hann var kjörinn formaður.  

Af sjö þingmönnum flokksins í dag eru þrír á sínu fyrsta kjörtímabili og tveir að hætta.  Reynsluboltarnir á næsta kjörtímabili verða því Siv og Birkir Jón sem tók sæti á Alþingi á árinu 2003, 23 ára að aldri, að því tilskyldu að þau nái áframhaldandi kjöri 

Framsóknarmenn eru í eðli sínu íhaldssamir og vilja að breytingar gerist hægt. Þessi staða og fimm formenn á innan við 2 1/2 ári veit ég að er nokkuð stór biti fyrir marga þeirra.  Hvernig þeim tekst að kyngja honum kemur í ljós í kosningunum í vor.

 


mbl.is Valgerður ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg afstaða

Þetta var furðuleg afgreiðsla hjá meirihluta viðskiptanefndar í morgun.  Ég sat þann hluta af fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem þessi málsmeðferð var m.a. rædd .   

Seðlabanki Evrópu vildi veita umsögn

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins óskuðum formlega eftir að fá umsögn frá Seðlabanka Evrópu um frumvarpið, en í gögnum nefndarinnar lá afrit af samskiptum frá tilteknum starfsmanni hjá Seðlabanka Evrópu sem hafði borist til skrifstofu forsætisráðherra þar sem boðist var til að bankinn gæfi umsögn um málið. 

Meirihlutinn hafnaði

Þessu hafnaði meirihluti viðskiptanefndar, með þeim rökum að ekki væri hefð fyrir því að leita til erlendra aðila um umsagnir í málum sem liggja fyrir Alþingi, slík ósk myndi tefja málið og að það gæti þýtt að einnig þyrfti að leita umsagnar seðlabanka um víða veröld.  Ég gef lítið fyrir þessi rök og lét bóka að þar sem íslenskt fjármálaumhverfi væri byggt á lögum sem hefðu uppruna í evrópski löggjöf væri mikilvægt að fá umsögn Evrópska seðlabankans á frumvarpinu, sem hefði sérþekkingu á málinu.      

Yfirlýsing Birgir Ármannssonar

Því til viðbótar hefur Birgir Ármannsson samþingmaður minn sent eftirfarandi athugasemd til fjölmiðla í kjölfar fréttar ríkisútvarpsins um málið í kvöldfréttum

„Vegna fréttar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kl. 18 vil ég taka eftirfarandi fram:Í frétt RÚV var réttilega greint frá því að inn á aukafund í viðskiptanefnd Alþingis í morgun bárust skilaboð um að Evrópski seðlabankinn (ECB) væri reiðubúinn að gefa umsögn um frumvarp forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni töldu sjálfsagt og eðlilegt að leita eftir þessari umsögn, enda er mikilvægt að við afgreiðslu málsins í nefndinni komi fram álit sérfróðra aðila, innlendra sem erlendra, á efnisatriðum frumvarpsins. Meirihluti nefndarmanna, fulltrúar VG, Samfylkingar og Framsóknarflokksins höfnuðu hins vegar tillögu sjálfstæðismanna um þetta og báru því einkum við að ætlunin væri að vinna málið hratt og því gæfist ekki tími til að bíða eftir þessari umsögn. Sjálfstæðismenn óskuðu þá eftir því að eftir því yrði leitað að ECB skilaði umsögn innan fárra daga, enda væri hvort sem er ljóst að talsverð vinna væri eftir við þetta mál innan nefndarinnar. Ekki var heldur á það fallist af hálfu meirihluta nefndarinnar.Þessi sérkennilega afgreiðsla meirihluta viðskiptanefndar veldur vonbrigðum, enda er ljóst að innan ECB er að finna verulega sérþekkingu á löggjöf um seðlabanka, sem eðlilegt hefði verið að nýta við meðferð þessa frumvarps.Með vinsemd og virðingu,Birgir Ármannsson,alþingismaður og nefndarmaður í viðskiptanefnd.“
mbl.is Afþökkuðu umsögn Seðlabanka Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg virðir meirihlutavilja þingsins

Það vakti eftirtekt í þingsölum í gær að formaður utanríkismálanefndar Árni Þór Sigurðsson, treysti sé ekki til að skrifa undir meirihlutaálit utanríkismálanefndar og skilaði einn og sér minnihlutaáliti við frumvarp um staðfestingu á samningi  um aðild Króatíu og Albaníu að NATO.  Þetta er mjög óvenjulegt,  svo ekki sé fastar að orði kveðið og segir töluvert um stöðu þessarrar minnihlutastjórnar sem nú er starfandi.  Í umræðum um frumvarpið sagði formaðurinn að hann gerði sér „grein fyrir því að meirihlutavilji er fyrir því á Alþingi og hann virði ég".

Þetta verður ekki skilið á annan veg en svo að hin almenna regla í þingstörfum VG verði í samræmi við þessa yfirlýsingu þingmannsins í málum sem koma til umfjöllunar á Alþingi næstu vikurnar.  Ég vænti þess þá að VG standi ekki í vegi fyrir meirihlutavilja þingsins sem kemur fram í þingsályktunartilllögu 36 þingmanna um áframhaldandi hvalveiðar og afgreiði málið með sama hætti: Hleypi málinu í gegn, en skili minnihlutaáliti.    

Það virðist því augljóst að Steingrímur Sigfússon, sjávarútvegsráðherra mun ekki fella úr gildi reglugerð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um heimildir til hvalveiða.


Nýr veruleiki

Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu .  Miðað við viðbrögð þingmanna hinna flokkanna á Alþingi er eins og þeir séu ekki búnir að átta sig á því.

Það hafa orðið hlutverkaskipti og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að þreifa sig áfram í þessari nýju stöðu.   Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gerst þaulsetnir í ræðustól síðustu daga og kvarta stjórnarliðar hástöfum undan elju þeirra og tengja hana komandi prófkjörum. Eins og þingmenn annarra stjórnmálaflokka séu ekki í sömu stöðu um þessar mundir! 

Stjórnarandstöðuflokkar hafa sérstöku hlutverki að gegna að veita stjórnarliðum aðhald.  Þetta er  meðal annars gert undir dagskrárliðnum störf þingsins sem er hálftíma umræða í byrjun þingfundar tvisvar í viku. Þá beina þingmenn fyrirspurnum að kollegum sínum, t.d. formönnum þingnefnda.   Aðra tvo þingdaga í viku hverri beina þingmenn fyrirspurnum sínum til ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.  Samkvæmt lauslegri athugun minni voru þingmenn stjórnarandstöðunnar í  um 90% tilvika frummælendur undir þessum liðum þingsins á haustþingi.   Þetta hefur nú snúist við, sem þingmenn stjórnarliða eiga erfitt með að höndla og þusa yfir.

Viðbrögð stjórnarliða við framgöngu okkar sjálfstæðismanna á þingi segja mér að við erum að gegna hlutverki okkar með sóma.  Fyrst og fremst leggjum við áherslu á að vera málefnaleg, þótt fjölmiðlar veiti því síður athygli en „uppákomum" og skærum manna á milli í umræðum.   

Ég skil það einnig svo að þau, ekki síður en við í þingflokki sjálfstæðismanna og almenningur allur, þarf að venjast því, tímabundið, að Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu.


„Tekinn í bólinu"

Vinstri grænir eru andvígir hugmyndum sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum og Norðausturlandi um frekari atvinnuuppbyggingu í Helguvík  á Reykjanesi og á Bakka við Húsavík á formi álframleiðslu.  Sem annan valkost hafa Vinstri Grænir bent á kísilflöguverksmiðju, sem er í sjálfu sér gott og blessað.   Þeim hefur hins vegar sést fyrir mikilvægur þáttur í þessu sambandi sem er að kísilflöguverksmiðja losar þrisvar sinnum meiri gróðurhúsalofttegundir en álver.  Á þetta benti Ólöf Nordal alþingismaður í í  utandagskrárumræðu á Alþingi í dag um áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

Nú er ég ekki neinn sérstakur talsmaður álvera umfram aðra kosti í nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu í landinu til að bregðast við auknu atvinnuleysi.  Hins vegar er athyglisverð þversögn í málflutningi VG að á sama tíma og þeir lýsa því yfir að þeir vilji fara í verkefni sem losa minni gróðurhúsalofttegundir á heimsvísu, kemur fram að valkostur þeirra umfram álver er kísilflöguverksmiðja, sem þegar upp er staðið losar þrisvar sinnum meiri gróðurhúsalofttegundir en álver. 

Þetta kallar maður að vera tekinn í bólinu. 


Tvær flugur í einu höggi

 Um 14 þúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá og fer þeim fjölgandi.  Þetta er fólk með fjölbreytta menntun og ólíkan bakgrunn. Það hrópar á tækifæri til að nýta þekkingu sína og reynslu til að sjá sér farborða og taka þátt í að byggja upp nýtt samfélag.

Stjórnvöld  ber skyldu til að skapa þessu fólki tækifæri til að standa á ný á eigin fótum og takast á við krefjandi verkefni. Um leið gefst þeim kostur á að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins.

Í því skyni þurfa stjórnvöld að endurskoða verkefni hins opinbera og auka samstarf við einkaaðila.    Einkaaðilar hafa mun meira svigrúm en ríkið til bregðast við nýjum viðskiptahugmyndum, útvíkka starfsemi sína og fjölga atvinnutækifærum og síðast en ekki síst að standa fyrir fjölþættri starfsemi  jafnt í þágu opinberra aðila og einkaaðila.         

Með þessari áherslubreytingu taka stjórnvöld að sér hlutverk upplýsts og krefjandi kaupanda þar sem aukin áhersla er lögð á árangur og bætta nýtingu fjármagns. Ávinningurinn  felst í því að með því að tiltekin starfsemi flyst til einkaaðila frá opinberum stofnunum eykst samkeppni um opinber verkefni og kaupendahópur fyrirtækjanna stækkar. Þeim er sköpuð betri starfsskilyrði með því að færa þeim stór og krefjandi verkefni og ný þekking verður til innan fyrirtækjanna sem styrkir stoðir þeirra til frekari afurðasköpunar.

Nefnum tvö dæmi af ólíkum toga.

Hugbúnaðarfyrirtæki hafa árum saman kallað eftir auknum verkefnum frá opinberum stofnunum, sem hafa rekið eigin tölvudeildir.      

Lagabreyting sem varð á árinu 2003 gerði einkaaðilum kleift að setja á stofn þjónustufyrirtæki, utan ríkiskerfisins, til að annast heilsuvernd, heilsufarsskoðanir og áhættumat á vinnustöðum.   Fjölmörg fyrirtæki fagmenntaðra heilbrigðisstarfsmanna spruttu upp í kjölfarið,  sem hafa skapað atvinnu og um leið létt verkefnum af opinberum starfsmönnum. 

Með útvistun verkefna ríkisins geta stjórnvöld slegið tvær flugur í einu höggi, skapað fleirum atvinnu og aukið hagkvæmni í rekstri ríkisins.

Grein birt í Fréttablaðinu 11.02.09


Enn við sama heygarðshornið

Ný ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún byggi efnahagsstefnu sína á fyrirliggjandi áætlunum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þýðir að hún þarf að ná markmiðum fjárlaga 2009 sem samþykkt voru fyrir jól. Hún þarf að beita »aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum« eins og segir í verkefnaskrá hennar.

Stóraukin útgjöld
Fyrstu skref ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn benda hins vegar til hins gagnstæða. Þeir eru enn við sama heygarðshornið. Ekki hefur orðið vart við breytingu á afstöðu þeirra frá afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, en þar fluttu þeir breytingatillögur um stóraukin útgjöld í öllum þáttum opinberrar starfsemi. »Aðhaldssöm og ábyrg stefna í efnahags- og ríkisfjármálum« er fjarri góðu gamni.
Fyrsta vikan
Í fyrstu viku nýrrar ríkisstjórnar hefur nýr heilbrigðisráðherra fellt niður innritunargjöld á sjúkrahús sem nema um eitt hundrað milljónum króna og skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu, sem áttu að skila um 1,3 milljörðum króna, eru í uppnámi. Stjórnendur viðkomandi heilbrigðisstofnana hafa lagt nótt við dag að útfæra tillögur sínar til að ná markmiðum fjárlaga og liggja þær fyrir hjá þeim flestum. Óvíst er hvort nýr heilbrigðisráðherra hafi kraft og þor til að fylgja þeim eftir. Vilji nýs menntamálaráðherra varðandi breytta útborgun námslána mun kosta ríkissjóð marga milljarða króna og 13 milljarða króna þarf til að ljúka tónlistarhúsi eins og hugur hennar stendur til.

Slá hendi á móti fleiri störfum
Ekki er á það bætandi að nýr sjávarútvegsráðherra virðist tilbúinn til að slá hendinni á móti um 5 milljarða tekjum og hátt á þriðja hundrað störfum með að fella úr gildi reglugerð um hvalveiðar.

Vonbrigði
Fyrstu skref VG í ríkisstjórn valda vonbrigðum, þau lýsa ekki skilningi á þeirri erfiðu efnahagslegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir, né hvaða aðgerða er þörf. Þau lýsa útgjaldagleði, sem er nokkuð sem við þurfum ekki á að halda þessa dagana

Grein birt í Morgunblaðinu 9.2.09


Tilkynning um framboð í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík

 Ásta Möller, alþingismaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins Í Reykjavík sem haldið verður 14. mars næstkomandi vegna Alþingiskosninga á vordögum

Ásta Möller var fyrst kjörin á Alþingi í alþingiskosningum 1999, var varaþingmaður frá 2003 til 2005. Í kosningunum vorið 2007 varð hún 7. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í upphafi þessa kjörtímabils var hún kjörin formaður heilbrigðisnefndar Alþingis og formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Auk þess var hún kjörin í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins í apríl á síðasta ári. Þá á hún sæti í fjárlaganefnd.

 Í störfum sínum hefur Ásta Möller lagt sérstaklega áherslu á heilbrigðismál, málefni aldraðra og önnur velferðarmál fjölskyldunnar, auk lífeyrismála og málefna launamanna.   

Ásta hefur gengt fjölmörgum forystustörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er ritari þingflokks sjálfstæðismanna.  Ásta var formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 2005-2007 og sat í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 2003-2006.   Þá var hún formaður heilbrigðis-og trygginganefndar Sjálfstæðisflokksins um árabil.

Ásta Möller hefur lokið BSc prófi í hjúkrunarfræði og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað við hjúkrun, stjórnun og kennslu í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gegndi formennsku í fag- og stéttarfélögum hjúkrunarfræðinga frá 1989-1999. 

Nánari upplýsingar er að finna á veffanginu http://www.astamoller.is/ og á bloggsíðunni http://www.astamoller.blog.is/.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband