Ekki einhlít rök fyrir sænsku leiðinni
25.2.2009 | 21:19
Nú skal gerð enn ein tilraunin til að lögleiða hina svokölluðu "sænsku leið" á Íslandi.
Ég átti sæti í nefnd á vegum dómsmálaráðherra sem fékk það hlutverk að skoða þessa leið, en nefndin skilaði af sér á vordögum 2005. Formaður nefndarinnar er nú dómsmálaráðherra og lagðist hún gegn þessari leið.
Yfirlýst markmið sænsku leiðarinnar er að minnka ofbeldi gagnvart konum með því með að gera vændiskaup refsiverð. Áætluð áhrif eru annars vegar að fæla "venjulega" menn frá að kaupa vændi og fækka þannig vændiskaupendum og hins vegar að gefa "mórölsk" skilaboð um að vændi sé ótilhlýðilegt.
Það sem mælir gegn sænsku leiðinni er að þegar götuvændi minnkar, eins og reyndin varð í Svíþjóð, færist vændið neðanjarðar og erfiðara reynist að hafa eftirlit með starfseminni og beita félagslegum úrræðum. Jafnframt verður vændisumhverfið hættulegra sem stríðir gegn markmiðum laganna. Þá verður sönnunarbyrði þyngri, því kaupendur verða sakamenn með því að játa kaup á vændi, sem styrkir stöðu vændismiðlara og gerir þá ósnertanlegri. Erfitt er að fylgja banninu eftir, sem minnkar almenna virðingu fyrir lögum.
Þá er óvissa um áhrif sænsku leiðarinnar á mansal. Hún getur jafnvel virkað gegn baráttu gegn mansali, þar sem erfiðara er að fá vændiskaupendur til að kæra eða vitna gegn milliliðum eða meintun skipuleggjendum vændis, því um leið viðurkenna þeir á sig refsiverðan verknað.
Það verður því ekki sagt að rökin fyrir hinni svokölluðu "sænsku leið" séu einhlít, né málsmetandi menn og konur sammála um ágæti hennar.
Refsivert að kaupa vændi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það hefur sannað sig í gegnum tíðina að ströng bönn við hlutum gera ávallt illt verra. Sem dæmi þá varð áfengisbannið í USA á þriðja áratugnum til þess að skipuleg glæpastarfsemi blómstraði og eru Bandaríkin enn að gjalda fyrir þau mistök.
Það sama gildir hér heima enda urðu Íslendingar snillingar í því að brugga landa á bannárunum og fyrir það gjöldum við enn, unglingar kaupa enn landa hér á landi og er það nánast sérdæmi að vestrænt ríki eigi við vandamál að stríða hvað varðar landasölu enda er slíkt yfirleitt tengt við þróunarríki.
Blóðug barátta gegn eiturlyfjum hefur síðan orðið til þess að skæruliðasamtök á vegum eiturlyfjabaróna halda heilu löndunum í Suður- og mið Ameríku í gíslingu. Dæmi um slík ríki eru Kólumbía, Brasília og Mexíkó. Í þessum ríkjum eiga yfir völd í blóðugu stríði við eiturlyfjabaróna sem harðnar með hverjum degi, í stríði þessu hika hvorki yfirvöld né skæruliðar við að þverbrjóta mannréttindi fólks, sbr. t.d. FARC skæruliðasamtökin í Kólumbíu og BOPE (sérsveit brasilísku lögreglunnar).
Hverju hefur stríðið gegn eiturlyfjum skilað, jú því sama og stríðið gegn alkahóli skilaði á sínum tíma, semsagt aukinni skipulagri glæpastarfsemi og nánast engri minnkun í sölu og neyslu eiturlyfja.
Varðandi vændi þá hafa Evrópuríki á seinustu árum komist að þeirri niðurstöðu að bann við vændi sé ekki jafn gagnlegt og margir halda. Í Hollandi og Þýskalandi hefur lögleiðing vændis meðal annars skilað því að vændiskonur og vændiskarlar eiga hafa fengið aðgang að stéttarfélögum sem vernda rétt þeirra líkt og annarra meðlima sinna.
Í Þýskalandi hefur reyndar verið gengið örlítið lengra en í Hollandi og tekur þýska ríkið nú virðisaukaskatt af vændi ásamt því að vændiskonur og karlar eiga rétt á því að fara reglulega í læknisskoðun á kostnað ríkisins.
Reynsla þessara ríkja hefur orðið til þess að önnur ríki Evrópu hafa tekið upp á því lögleiða vændi.
Dæmi um ríki Evrópu sem hafa lögleitt vændi: Holland, Þýskaland, Dannmörk, Finnland, Frakkland, Ungverjaland, Austurríki, Belgía, Búlgaría (engin lög til um vændi), Kýpur, Tékkalnd, Eistland, Grikkland, Ísland, Írland, Ítalía, Kazakhstan (á mörkum Evrópu og Asíu), Lettland, Lichtenstein (ólöglegt, en banni er ekki framfylgt af lögreglu), Lúxemborg, Pólland, Portúgal (engin löggjöf um vændi), Spánn, Sviss, Tyrkland (vændiskonur þurfa að sækja um atvinnuleyfi hjá stjórnvöldum), Bretland.
Fyrir utan Noreg og Svíþjóð þá eru það aðeins fyrrum Sóvíet-ríki sem banna vændi í Evrópu. Líkt og með áfengi og eiturlyf þá mun þjónar bann við vændi engum tilgangi öðrum en að friða samvisku fólks, styrkja skipulagða glæpastarfsemi og neyða vændi í undirheimana þar sem næstum ómögulegt er fyrir hið opinbera að hafa eftirlit með því.
Er því ekki skárra að læra lexíu af áfengisbanninu gamla og halda vændi löglegu þannig að hægt sé að hafa opinbert eftirlit með því og tryggja þar með réttindi og velferð vændiskvenna (og karla).
Hafsteinn (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 21:42
Ég er mjög sammála flestu sem fram kemur hér fyrir ofan.
En ég dreg reyndar mörkin við eiturlyf. En allavega mín skoðun er þessi eins og í markaðsfræði 101 þá þá stjórnast framboð af eftirspurn þar af leiðandi þá þarf að eyða eftirpsurn til að eyða framboðinu. Ef það eru engir kaupendur þá er enginn að selja.
Stefán Gestsson, 25.2.2009 kl. 22:38
Hvaða leiðir sérð þú færar Ásta til að stemma stigu við vændi? Má ekki færa rök fyrir því að sá sem í krafti fjármagns eða aðstöðu sinnar notfærir sér líkamama annarra til að svala físnum sínum verði gerður ábyrgur fyrir gjörðum sínum? Sé ekki stikkfrír í ferlinu?
Nú ert þú hjúkrunarfræðingur og væntanlega hefur þú haft upplýsingar um eðli vændis, rannsóknir á áhrifum vændis á þolendur þess, bakgrunn þeirra og væntanlega skýrslur um mansal og nauðung. Hvaða leiðir telur þú best fallnar til að sporna gegn eftirspurninni, setja fókusinn á neytendurnar og kaupendur?
Það er hreinlega löngu tímabært að flytja fókusinn yfir á þá sem skapa eftirspurnina eða eru kaupendurnir. Þeir þurfa að vera undir smásjánni og taka sinn skerf af málinu. Þeir hafa of lengi verið án ábyrgðar, og þeirra er ábyrgðin. Nú skal setja hana á þeirra herðar og draga þá fram í dagsljósið.
Gústa (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 01:17
Þú tókst þátt í því, frú Ásta Möller, að búa til það vandamál, sem við getum nú horft upp á. Með því að gera vændi að mestu refsilaust – þ.e.a.s. ef það er ekki boðið með tilstilli melludólgs né með auglýsingum né með mansalsfólki – þá var vitaskuld – eins og ég varaði við og eins og biskup Íslands mælti eindregið gegn – verið að innleiða hér nýtt og ömurlegt siðferði, lækka þröskulda og gera vændi að samþykkjanlegri söluvöru og þar með freista bæði fólks til slíks (bæði til framboðs og eftirspurmar) og gera ennþá grófari brot auðveldari að smjúga fram hjá augum lögreglu, því að erfitt er fyrir hana að greina á milli dólgavændis og dólgalauss vændis, en auðveldara verður hins vegar fyrir t.d. eiturlyfjasala að ætlast til vændissölu af hálfu fórnarlamba sinna, af því að þetta sé nú "orðið löglegt".
Já, ég lýsi ábyrgð á hendur stuttbuxnadeild frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum, sem töldu eðlilegt, að mannslíkaminn væri gerður að verzlunarvöru og keyrðu á, að þetta frumvarp yrði samþykkt, m.a. með hjálp Björns Bjarnasonar og frænda hans Bjarna unga Benediktssonar, þvert gegn gamalli áherzlu flokksins á að styðja kristin giðldi og siðferði.
Þið gerðuð þetta þrátt fyrir viðvaranir mínar og annarra. Þið völduð jafnvel að taka það sérstaklega fram, að samþykkt þessara lagafæli EKKI í sér nein ný útgjöld!!! Sem sé engin ný útgjöld lögreglu né heilbrigðiskerfisins vegna vændis þrátt fyrir augljósa, aukna eftirlitsskyldu lögreglu og yfirvofandi hættu á útbreiðslu kynsjúkdóma vegna vændisstarfsemi íslenzkra sem erlendra vændiskvenna og -karla!
Eina rétta leiðin er að banna bæði sölu og kaup vændis, eins og ég hef rökstutt vel í greinum mínum, sjá nánar fjölda pistla í vefmöppu minni: Vændisumræða.
Með von um, að þið sjáið að ykkur og gætið að þjóðarhag, kynheilbrigði landsmanna, velferð hjónabanda og sálarheill ungra kvenna sem karla,
Jón Valur Jensson, 26.2.2009 kl. 15:48
Halldór, þú nálgast málið með mýtunni um hamingjusömu hóruna sem gefur blíðum og góðum manni ást sína og hann gaukar að henni nokkrum aurum fyrir viðvikið. Vændi bara snýst ekki um ást. Vændi snýst um að kaupa sér aðgang að kynfærum. Ekkert annað.
Ef menn þurfa kærleika og stuðning eru allskyns leiðir færar. Ef þeir eiga ekki gott fólk í kringum sig geta þeir alltaf talað við prest, sálfræðing, ráðgjafa nú eða ef þeir eru einmana geta þeir gegnið í allskyns félagasamtök eð ahreinlega hringt í hjálparsímann. Þar er ekki verið að skiptast á líkamsvessum. Vændiskaup eru kaup á aðgangi að kynfærum og hefur ekkert að gera með ást og blíðu. Undarleg samblanda það nema til þess eins að viðhalda hugmydnum um eðli kynjanna, forgangskröfu karlmanna til að fá kynferðislega útrás á kostnað annarra og undarlegar hugmyndir um samskipti kynjanna, eðli kvenna og bakgrunn vændiskvenna. Í þessum hugmyndum þínum er kaupandinn í raun einn í sinni blekkingu um að vændiskonan sé að gefa honum einhverja blíðu sem er raunveruleg, að hann sér einn um hana. Ekki einn í af mörgum körlum sem kaupa sér aðgang að kynfærum hennar.
Horfðu á Lila4Ever. Then get back to us.
Gústa (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 16:49
Halldór, þú ert á villigötum í þessu efni; reyndu ekki að sublimera hlutverk karlmannsins í þessum aðstæðum né vændiskonunnar.
Vændi er ekki einkamál, heldur niðurbrjótandi fyrir siðferði og samfélag, kynheilbrigði, gagnkvæman trúnað maka og fjölskyldulíf.
Jón Valur Jensson, 26.2.2009 kl. 22:44
Vændiskonur eru dauðhræddar við, að það vitnist, hvað þær eru að gera. Um það getur þú, Halldór, lesið í viðtali í helgarblaði DV, útgefnu í gær. Það fylgir þessum "atvinnurekstri" skömm og vanmetakennd. Er það gott veganesti í lífinu? Og hvað eiga vændiskonur að segja börnum sínum um starf sitt?
Vændi er greinilega ekki "einkamál", þegar það stuðlar að framhjáhaldi. Það er enn síður einkamál, þegar upp um framhjáhaldið kemst og maki verður fyrir áfalli, hjónaband sundrast og börn aðskiljast frá daglegri umgengni við feður sína. Það er að lokum allra sízt einkamál, þegar karlinn smitast af kynsjúkdómi og ber hann síðan í konu sína eða aðrar konur, en miklu meira er um kynsjúkdóma (m.a. HIV-smit) hjá vændisfólki en hjá almenningi yfirleitt, eins og margar rannsóknir staðfesta.
Íslendingar eru ekki sammála ykkur í þessum grófa líberalisma (lausungarhyggju). Í marz 2007 kom í ljós í skoðanakönnun, að 70% almennings vill, að teknar verði upp refsingar við vændiskaupum.
Og reynslan af vændislöggjöf BB og Bjarna unga Ben. og félaga sýnir vitaskuld, að viðvaranir manna voru ekki að ástæðulausu. 13 ára stúlkur hafa nýlega verið staðnar að því að selja aðgang að líkömum sínum (og minnztu þess, að sumir kynsjúkdómar geta gert þær að óbyrjum og aðrir gert þær að langtíma-sjúklingum). Erlend kona er í gæzluvarðhaldi vegna meints reksturs tveggja hóruhúsa. Og á einkamálasíðum er blygðunarlaust verið að bjóða fram vændis- og kynlífs-"þjónustu", þótt það sé ólöglegt að auglýsa hana. Lögreglan kemst ekki yfir öll tilfellin. Við þessu varaði ég og ekki sízt því, að þegar mörk hins leyfilega að lögum eru færð út, færist ramminn enn utar, það er alltaf gengið heldur lengra í reynd, og með þessari löggjöf er jafnvel verið að gefa í skyn, að siðferðislega sé þetta í lagi, en það hefur þau aukaáhrif, að ungu fólki sumu hverju fer að finnast þetta ásættanlegt og prófandi, ekki aðeins til kaups, heldur líka til að selja líkama sinn. Það er ekki hlutskipti, sem ég get óskað neinum.
Þegar fólk fer út á þessa braut, brýtur það niður sjálfsmynd einstaklingsins, og sumir finna sér uppbót í eiturlyfjum. En þú heldur, Halldór, eflaust áfram að mæla með vændi.
Öllu undarlega er hins vegar, að kona sem verið hefur formaður heilbrigðisnefndar Alþingis síðustu ár, skuli verja núverandi heilsu- og siðspillandi lausungarlöggjöf. Hvernig væri fyrir þig, Ásta, að prófa að fara í kirkjur landsins og bjóða upp á erindi þar sem reynir að verja þetta?!
Jón Valur Jensson, 28.2.2009 kl. 02:00
Þarna talaði ofurfrjálshyggjan – lausungarhyggjan – hrein og tær.
En gefin forsenda Halldórs er röng – það er VÍST iðulega verið að brjóta á einum aðila og oft fleiri aðilum með vændi. Það freistar ofbeldismanna, að til sé vændisstarfsemi, og stór hluti vændiskvenna heimsins og m.a.s. Evrópu er settur í þessa "atvinnugrein" með nauðung og þvingunum, blekkingum og svikum af þessara manna hálfu. "Löglegt" vændi er þægilegur réttlætingarhjúpur fyrir þessa menn til að laumast til að skemma konur og nýta þær til eigin gróða.
Svo eru eiginkonur oft fórnarlömb vændiskaupa eiginmannsins – sem og aðrar konur. Og almennu kynheilbrigði þjóðar hnignar með vændisstarfsemi, þegar hún hefur staðið nokkur ár, og þar eru mörg fórnarlömbin. Þetta hefði hjúkrunarfræðingurinn Ásta átt að hugsa um í tæka tíð. En ofurfrjálshyggjumenn geta boðað öðrum en mér sinn fagnaðaróð, hvort sem hann er um reglugerðalausan kapítalisma, vændi eða eiturlyfjasölu.
Jón Valur Jensson, 6.3.2009 kl. 02:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.