"Aðgerðastjórn" er öfugmæli

Í þrjár vikur hefur ný ríkistjórn, sem kennir sig við aðgerðastjórn, setið að völdum.  Hinar meintu aðgerðir láta hins vegar á sér standa. 

Engar nýjar tillögur

Það má glögglega sjá á grein Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, í Morgunblaðinu í morgun með yfirskriftinni „Aðgerðir til bjargar heimilunum".  

Þar útlistar hún ráðstafanir til að styðja við heimilin í landinu og merkir þær nýrri ríkisstjórn.

Þegar rýnt er í listann kemur í ljós að ekkert nýtt kemur fram í upptalningunni, allt eru þetta atriði sem þegar hafði verið tekið ákvörðun um í fyrri ríkisstjórn.  Hún nefnir m.a.  til sögunnar frumvarp um greiðsluaðlögun, um frestun nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis og lengingu aðfararfrests. 

Hún segir í greininni að hún vilji leggja mikið á sig að upplýsa fólk.  Það væri ekki vitlaust að hún byrjaði á að upplýsa framangreinda staðreynd.

Röng forgangsröðun

Á tímum þar sem aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu ættu að vera í forgrunni leggur ný ríkisstjórn allt sitt púður í að setja lög sem breytir skipuriti Seðlabankans og vinna að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá Íslands.  

Eru þetta forgangsmálin til að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu?  Varla er hægt að skella bankahruninu  á stjórnarskrána,  kosningalögin eða skipurit Seðlabankans?   Er ekki kominn tími til að einbeita sér að því sem raunverulega skiptir máli? Halda áfram aðgerðaáætlun til endurreisnar atvinnulífsins og til aðstoðar heimilunum í landinu.    Það viljum við Sjálfstæðismenn gera og viljum leggja okkur fram við það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Marinósson

Merkilegt að heyra sjálfstæðismenn tala stöðugt um aðgerðarleysi núverandi ríkisstjórnar og æpa sig ráma í þingsölum yfir því að ekkert sé gert og ekkert nýtt hafi komið fram til bjargar í þrengingum þjóðarinnar.

Þetta sama fólk sat í ríkisstjórn þegar hrunið hófst, hafði ekkert aðhafst til að koma í veg fyrir það, gerði ekkert nema til bölvunar fyrstu vikurnar og aðhafðist síðan nánast ekki neitt þar til stjórnin fór frá.

Núna eru aðgerðirnar hafnar og það er rétt að sumt var búið að ákveða að gera fyrir stjórnarslit en annað ekki.  Nú tala verkin hinsvegar og auðvitað sárnar sjálfstæðismönnum þegar valdakerfi þeirra í opinberum stofnunum riða til falls.

Sjálfstæðismenn eru búnir að standa vörð með sótthitakenndum ákafa um seðlabankann og reyna að tefja einsog þeim er unnt að skipt verði um yfirstjórn bankans sem er algjörlega nauðsynlegt til að traust skapist aftur á þessari stofnun.

Þessvegna er holur hljómur í öllum málflutningi sjálfstæðismanna varðandi framangreind atriði.  Þeim væri skammar nær að reyna að bæta fyrir axarsköft forystumanna sinna sem leiddu íslendinga í mestu þrengingar sem þeir hafa nokkru sinni horfst í augu við.

Þetta heitir að kunna ekki að skammast sín.

Ágúst Marinósson, 25.2.2009 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband