Tvær flugur í einu höggi
11.2.2009 | 11:42
Stjórnvöld ber skyldu til að skapa þessu fólki tækifæri til að standa á ný á eigin fótum og takast á við krefjandi verkefni. Um leið gefst þeim kostur á að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins.
Í því skyni þurfa stjórnvöld að endurskoða verkefni hins opinbera og auka samstarf við einkaaðila. Einkaaðilar hafa mun meira svigrúm en ríkið til bregðast við nýjum viðskiptahugmyndum, útvíkka starfsemi sína og fjölga atvinnutækifærum og síðast en ekki síst að standa fyrir fjölþættri starfsemi jafnt í þágu opinberra aðila og einkaaðila.
Með þessari áherslubreytingu taka stjórnvöld að sér hlutverk upplýsts og krefjandi kaupanda þar sem aukin áhersla er lögð á árangur og bætta nýtingu fjármagns. Ávinningurinn felst í því að með því að tiltekin starfsemi flyst til einkaaðila frá opinberum stofnunum eykst samkeppni um opinber verkefni og kaupendahópur fyrirtækjanna stækkar. Þeim er sköpuð betri starfsskilyrði með því að færa þeim stór og krefjandi verkefni og ný þekking verður til innan fyrirtækjanna sem styrkir stoðir þeirra til frekari afurðasköpunar.
Nefnum tvö dæmi af ólíkum toga.
Hugbúnaðarfyrirtæki hafa árum saman kallað eftir auknum verkefnum frá opinberum stofnunum, sem hafa rekið eigin tölvudeildir.
Lagabreyting sem varð á árinu 2003 gerði einkaaðilum kleift að setja á stofn þjónustufyrirtæki, utan ríkiskerfisins, til að annast heilsuvernd, heilsufarsskoðanir og áhættumat á vinnustöðum. Fjölmörg fyrirtæki fagmenntaðra heilbrigðisstarfsmanna spruttu upp í kjölfarið, sem hafa skapað atvinnu og um leið létt verkefnum af opinberum starfsmönnum.
Með útvistun verkefna ríkisins geta stjórnvöld slegið tvær flugur í einu höggi, skapað fleirum atvinnu og aukið hagkvæmni í rekstri ríkisins.
Grein birt í Fréttablaðinu 11.02.09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.