Færsluflokkur: Bloggar

Jón Baldvin og "ljóskan"

Einn helsti vandi Samfylkingarinnar um þessar mundir er ekki staða flokksins í skoðanakönnunum, ekki óljós og ístöðulítil stefna, né innanflokkserjur, heldur fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, forvera Samfylkingarinnar, Jón Baldvin Hannibalsson, sem lætur ekkert tækifæri ónotað til að naga skóinn af flokknum.  Varla var opnað blað, né kveikt á sjónvarpi um helgina að þar væri ekki mættur gamli kratahöfðinginn með yfirlýsingar sínar.  Að sönnu hafði hann skoðun á mörgu, en það sem stendur eftir er stuðningsleysi hans við sinn eigin flokk.  

Í Silfri Egils í gær svaraði hann spurningunni um hvort hann styddi Samfylkinguna í kosningunum í næsta mánuði eitthvað á þann veg að hann væri krati og ætti ekki annarra kosta völ!   Ekki beinlínis sannfærandi stuðningsyfirlýsing við flokkinn.   Hann sem sagt treystir ekki sínu eigin fóstri til að standa sig í landsstjórninni. Í því sambandi má einnig minna á að formaður Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, mat það svo í frægri Keflavíkurræðu að þjóðin treysti ekki þingmönnum flokksins, þannig að þar eru menn svo sem á sama báti. 

Þegar við það bætist að hann hefur ekki meiri trú á núverandi forystumönnum flokksins en að hann íhugaði af fullri alvöru að fara í framboð fyrir Íslandshreyfinguna, eins og kom fram í viðtalinu í Blaðinu!

Síðan þætti mér nú fróðlegt að heyra álit Samfylkingarkvenna á orðum Jóns Baldvins í garð Þorgerðar Katrínar varaformanns Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, sem hann kallaði "ljóskuna í menntamálaráðuneytinu" og kallaði hana Katrínu.  Mundi ekki nafnið hennar!

Hvernig ætla þær að bregðast við þessum orðum.  Ímyndum okkur t.d. viðbrögð Samfylkingarkvenna ef fyrrverandi forystumaður í  Sjálfstæðisflokknum hefði talað svona niður til einhvers kvenframbjóðenda Samfylkingar, t.d. formannsins! 

Það hefði verið hár hvellur, trúið mér!


A-ha! upplifun

 A-ha! upplifanir eru ávallt skemmtilegar.

Við vorum nokkrir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að kynna stefnu flokksins á öldrunarstofnun hér í Reykjavík á föstudaginn var.  Þar á meðal hugmyndir okkar um bætt kjör aldraðra, sem fela í sér að ríkið tryggir þeim sem hafa engan eða lítinn rétt úr lífeyrissjóði 25 þúsund króna lágmarksgreiðslur úr lífeyrissjóði til hliðar við lífeyri almannatrygginga; um minni tekjutengingar milli tekna úr lífeyrissjóði og úr almannatryggingum og að atvinnutekjur eftir sjötugt hafi ekki áhrif á lífeyri almannatrygginga.  Þar sem aðstæður eldra fólks eru mismunandi hafa þessar tillögur ólík áhrif á hag þess.

Vorum búin að ganga um stofnunina og tala við starfsfólk og heimilisfólk og vorum komin í salinn til að halda okkar ræðu.

Við Guðlaugur Þór sögðum nokkur orð og síðan opnað á spurningar.   Fram kom starfsmaður nokkur, köllum hann Guðmund, sem verður sjötugur seinna á árinu.   Hann og kona hans eru tiltölulega nýflutt í bæinn og vinna bæði hlutavinnu á stofnuninni.  Hann starfaði alla tíð á eigin vegum sem iðnaðarmaður og á að hans sögn lítinn eða engan rétt í lífeyrissjóði.    Hann sagði okkur að hann hefði um 80 þúsund krónur í tekjur á mánuði vegna vinnu sinnar við stofnunina. 

Hans spurning var í þessa veru: " Ertu að segja mér að gangi þessar tillögur eftir muni ég fá fullan lífeyri frá almannatryggingum, auk 25 þúsund króna lágmarkstekjur frá lífeyrissjóði og að atvinnutekjur mínar hafi ekki áhrif á það?"

Svarið var já.  Sigurður fór léttur á brún af þessum fundi.  Svei mér,  ef hann ætlaði ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor!  Konan hans, sem var líka þarna á staðnum, sagði að það myndi sæta tíðindum, því slíkt hefði ekki komið í huga hans fyrr.

Dæmið hjá honum lítur þannig út í dag að 80 þúsund króna atvinnutekjur hafa áhrif á upphæð lífeyris almannatrygginga, þannig að hann fær þaðan um 71 þúsund krónur, en óskertur lífeyrir almannatrygginga er um 103 þúsund krónur.  Tekjur hans eru því um 150 þúsund krónur á mánuði.  Tillögur Sjálfstæðisflokksins þýða að hann hefur að lágmarki samanlagt 120 þúsund kr. úr TR og lífeyrissjóði og eigin tekjur til viðbótar eftir að hann hefur náð 70 ára aldri, sem gerir um 200 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt.    Gangi tillögur flokksins eftir munu hvorki lífeyristekjur, né atvinnutekjur konu hans hafa áhrif á tekjur hans.  

Ég sagði honum að hann væri skólabókardæmi um hvernig þessar tillögur hafa áhrif á kjör eldra fólks til hins betra.  Við fórum öll glöð af þessum fundi og ekki síst  nefndur Guðmundur!


Hvar er VG!

Það var haft á orði í síðustu kosningabaráttu til Alþingis að í hvert sinn sem Steingrímur J opnaði munninn lækkaði fylgi VG!

Eftir því sem skoðanakannanir sýndu aukið fylgi VG þegar líða tók á veturinn sem nú er liðinn, urðu þingmenn flokksins orðvarari, ábyrgari og prúðari í framkomu.  Á þingi var jafnvel talað um að þeir væru farnir að máta sig í ráðherraklæðin og ráðherrastólana!

Í kosningabaráttunni undanfarnar tvær vikur hafa bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking verið áberandi í umræðu, ekki síst vegna landsfunda sinna um síðustu helgi.

Það hefur skilað sér í auknu fylgi flokkanna í skoðanakönnunum.

Framsókn hefur nýtt sér að þeir hafa ráðherra og ákvarðanir þeirra verið vel kynntar og mælst vel fyrir.  Enda hafa þeir góða reynslu af virkni auglýsinga í kosningabaráttu.

Síðustu vikurnar hefur hins vegar lítið borið á VG og fylgið á leið niður, eins og reyndar flestir bjuggust við.

Nú hljóta þeir að vera í vanda.  Hvort eiga þeir að láta meira eða minna á sér bera?  Hvort skyldi nú virka í þetta sinn, hafandi í huga reynslu síðustu kosninga.

Ja, maður spyr sig!


Fengin kvíga til sölu

Við rákumst á þessa auglýsingu sem birtist í Skessuhorni í vikunni, en það er vikublað gefið út á Vesturlandi:

Fengin kvíga til sölu

Tveggja vetra fengin kvíga til sölu.  Hún skilur bendingar og er barngóð og kassavön með hestaheilsu.  Uppl. í síma........

Er þetta kvíga, hundur, barnapía, köttur eða hestur!


Kjósendur vilja lækka tekjuskatt - auðvelt val.

Mogginn segir frá því í morgun að um 75% þjóðarinnar telji tekjuskatt á einstaklinga of háan, en hann er nú 35,72%.

Þetta er þvert á alla flokka, þótt ekki komi á óvart að minnstur stuðningur er meðal Vinstri grænna að lækka frekar skatta. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu árum lækkað skatta verulega. Hann er jafnframt eini flokkurinn sem hefur gefið það kosningaloforð að hann ætli að halda áfram að lækka skatta, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, ekki síst tekjuskatta.  Þetta kemur skýrt fram í úttekt Viðskiptablaðsins í dag.   

Val 75% kjósenda sem vilja áframhaldandi skattalækkanir ætti því að vera nokkuð ljóst!

Hér á eftir er samantekt á skattalækkunum síðustu ára, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur staðið fyrir, undir forystu okkar sjálfstæðismanna.

  • Tekjuskattur einstaklinga lækkaður úr 25,75% í 22,75% og sérstakur tekjuskattur aflagður.
  • Persónuafsláttur gerður að fullu millifæranlegur milli samsköttunarfólks og hann hækkaður verulega..
  • Skattlagning fjármagnstekna einstaklinga samræmd í einu 10% skatthlutfalli  
  • Eignarskattur einstaklinga aflagður.
  • Erfðafjárskattur lækkaður í 5%, skattfrelsismörk hækkuð og skattflokkum fækkað.
  • Virðisaukaskattur á matvæli lækkaður úr 14% í 7% og vörugjöld af matvælum afnumin.
  • Iðgjaldagreiðslur launafólks í lífeyrissjóði undanþegnar tekjuskatti, allt að 8% af tekjum.
  • Tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 33% í 18%.
  • Eignarskattur fyrirtækja aflagður.
  • Markvisst hefur verið komið til móts við fólk með lægri tekjur og efnaminni fjölskyldur, m.a. með hærri barnabótum, skattleysi húsaleigubóta, stórauknum rétti til fæðingarorlofs .

Með sérsveitinni

Eitt ánægjulegasta stjórnmálalega kvöldið sem ég hef setið á mínum ferli var í gærkvöldi.  Þá sótti ég fund í Hinu húsinu, gamla pósthúsinu við Pósthússtræti.  Þar bauð sérsveit Hins hússins fulltrúum stjórnmálaflokkanna að kynna stefnu sína og sitja í pallborði. Auk mín voru mætt Sæunn frá Framsókn, Valdemar frá Frjálslyndum, Margrét Sverris frá Íslandshreyfingunni, Helgi Hjörvar frá Samfylkingu og Álfheiður frá VG.

Sérsveitin sér um tómstundir fyrir fólk með fötlun og hittist hópurinn á miðvikudagskvöldum og á sunnudögum.

Aldrei áður hefur mér verið fagnað með eins miklum virktum, með kossum, knúsum og faðmlögum á alla bóga.  Samt þekkti ég fáa!  

Fyrst vorum við stjórnmálamennirnir með stutta kynningu og síðan komu spurningar úr sal.  Margt brennur á þessum krökkum um búsetumál, atvinnumál, félagsmál og eigin fjármál.  Skoðanir voru skiptar og greinilegt að margir höfðu myndað sér sterkar skoðanir um hverja þeir vildu styðja í kosningunum framundan.  Einlægnin og áhuginn lýsti úr andlitum þeirra. 

Einna eftirminnilegastur fannst  mér ungur 26 ára strákur sem er nýfluttur á sambýli, þar sem hann býr ásamt nokkrum félögum sínum. Við skulum kalla hann Val.  Eins og honum fannst gott að vera hjá foreldrum sínum, fannst honum enn betra að búa sjálfstætt og á eigin vegum í sambýli!  Ég hef fylgst með umbreytingu fólks í sömu sporum og þau eru dásamleg!  Hlakka til að sjá nýja íslenska mynd um þetta efni, sem verið er að kynna.

Miklar breytingar hafa orðið í málefnum fatlaðra á síðustu árum.  Fjölmörg sambýli hafa verið byggð og önnur á teikniborðinu.  Hafi einhver verið í vafa um þessa stefnu, hefði hann átt að upplifa gleði Vals yfir breytingum á lífi sínu.  Hér erum við á réttri leið!


Biðlistar eftir hjúkrunarrými

Í grein sem birtist eftir mig í Fréttablaðinu í dag svara ég Guðríði Arnardóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingar í Reykjavík vegna umræðu um ábyrgð flokksins á biðlistum eftir hjúkrunarými í Reykjavík

Í ferðum þingmanna um landið á vegum nefnda þingsins er lögð áhersla á að ræða við sveitarstjórnarmenn á hverjum stað.  Það hefur vakið athygli mína hve ötullega þeir halda á lofti umræðu um aðbúnað eldri borgara, þörf fyrir endurbætur á hjúkrunarheimilum þeirra eða stækkun.  

Þetta er í samræmi við skyldur þeirra skv. sveitarstjórnarlögum og lögum um málefni aldraðra, en sveitarfélög eiga að tryggja nauðsynlega stofnanaþjónustu þegar hennar er þörf og bera ábyrgð á að skipa í þjónustuhóp aldraðra, sem hefur haft það verkefni að gera tillögur til sveitarstjórna um  öldrunarþjónustu og meta vistunarþörf aldraðra.

Í greininni segir ég m.a. eftirfarandi:

"Ábyrgð sveitarfélaga á að tryggja öldruðum stofnanaþjónustu þegar þeim brestur heilsa og þrek til sjálfstæðrar búsetu er því skýr. Þótt ríkið taki þátt í kostnaði við uppbyggingu öldrunarstofnana og greiðir stóran hluta af rekstrarkostnaði þeirra, er það á ábyrgð sveitarfélaga að meta þörf fyrir hjúkrunarrými. Þar liggja upplýsingar um þarfir íbúa fyrir samfélagslega þjónustu á hverjum tíma. Flest sveitarfélög landsins hafa gegnt þessari skyldu sinni með ágætum. Þegar í heildina er litið eru næg hjúkrunarrými hér á landi til að fullnægja þörf fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þeim er hins vegar misdreift um landið. Skortur á hjúkrunarrýmum er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík.

Skv. lögum eiga sveitarfélög að leggja til 15% af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík brugðust borgaryfirvöld við skorti á hjúkrunarrýmum m.a. með byggingu Droplaugarstaða með 65% kostnaðarhlutdeild á árinu 1981 og Seljahlíðar með 100% hlutdeild á árinu 1986. Ekkert slíkt framtak átti sér stað í tíð R-listans til að bregðast við sama vanda. Hins vegar liggja nú þegar fyrir áætlanir um byggingu 400 hjúkrunarrýma á næstu árum að mestu á höfuðborgarsvæðinu.

Það er því ljóst að R-listinn sofnaði á verðinum í þau 12 ár sem hann sat við stjórnvölinn í Reykjavík. Því finnst mér ótrúlega djarft leikið af Samfylkingunni að slá upp auglýsingu um að flokkurinn vildi byggja 400 ný hjúkrunarrými á næstu 1 1/2 ári, þegar meginhluti vandans er á ábyrgð þeirra sjálfra! Hverra er „vanrækslusyndin"? Ég spyr! "

 



 


Umræða um launaleynd

Upp á síðkastið hefur ákvæði í frumvarpi til jafnréttislaga sem lagt var fram til kynningar rétt fyrir þinglok verið í umræðunni.  Það varðar upplýsingagjöf um laun og starfskjör starfsmanna, oft tengt hugtakinu launaleynd.  Þess má geta að frumvarpið var samið af nefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fv. hæstaréttardómara og áttu stjórnmálaflokkarnir hver sinn fulltrúa í nefndinni.   Nefndin komst að samhljóða niðurstöðu, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins setti nokkra fyrirvara um ákveðin atriði.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni var Bjarni Benediktsson, alþingismaður, en ég var varamaður hans í nefndinni.

Því hefur verið haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sett sig upp á móti ákvæði er varðar upplýsingagjöf um launakjör.  Það er ekki rétt. Fyrirvarar Bjarna Benediktssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um frumvarpið vörðuðu ekki þetta atriði.

Ákvæðið sem samkomulag var um meðal nefndarmanna er eftirfarandi og er í 17. gr. frumvarpsins:

" Atvinnurekanda er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör."

Skv. ákvæðinu er launamanni heimilt hvenær sem er að veita þriðja aðila upplýsingar um starfskjör sín.  Hvorki honum né atvinnurekanda er heimilt að undirrita ráðningarsamning sem gera starfsmanni skylt að leyna kjörum sínum.  Starfsmanni er hins vegar í sjálfsvald sett hvort hann upplýsir þau eða heldur þeim fyrir sig. 

Ákvæðið snýst þannig ekki um að banna launaleynd, heldur er það sett í hendur starfsmanns hvort hann vilji upplýsa þau.   

Um þetta voru fulltrúar allra flokka á þingi sammála í nefndinni. 

Það er því rangt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhverja sérstöðu hvað varðar þetta ákvæði frumvarpsins.

Það er hins vegar afar jákvætt framtak og fagnaðarefni að félagsmálaráðherra kynnti í vikunni nokkurs konar "vottunarkerfi" jafnlauna, þar sem það er gert eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að fá vottun um að það fyrirtæki mismuni ekki kynjum í starfskjörum. Það er hin rétta nálgun og fær félagsmálaráðherra hrós fyrir.

 


Í sátt við eldri borgara

Setti inn grein á heimasíðuna mína, sem er birt í Árbæjarblaðinu og Grafarvogsblaðinu í dag.

Hér er tengillinn: http://astamoller.is/grein.php?id_grein=524&b=1


Afstaða til innflytjenda

 

Það er erfitt að átta sig á hvaða mið Frjálslyndir ætla að róa í kosningunum framundan.

Eina málið sem þeir halda á lofti í kosningabaráttunni er hertari löggjöf um innflytjendur með undirtón andstöðu við þá.   Þar skera þeir sig frá öðrum flokkum.

Í skoðanakönnun Blaðsins í dag kemur fram að um 76% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnuninni telja að vera innflytjenda hér á landi sé lítið eða ekkert vandamál.  Tæp 13% telja að það færi með sér mikinn vanda og rétt um 4% að um mjög mikinn vanda sé að ræða.

Kannski er það þessi 4% sem frjálslyndir eru að sækjast eftir og gangi það eftir má spyrja sig hvort það sé kjörfylgið sem þeir óska sér.    Verði þeim að góðu!

Það sem vekur einnig athygli er að landsbyggðarfólk, sérstaklega þeir sem búa á Norð-austurlandi og hafa mesta reynslu af samskiptum við innflytjendur og erlenda starfsmenn eru jákvæðastir í garð innflytjenda.

Það bendir til að aukin kynni og aukin samskipti við innflytjendur, auka jákvæðni í þeirra garð.

Af gefnu tilefni, þar sem Sigurjón Þórðarson sendi mér línu hér á bloggið um afstöðu Sjálfstæðisflokksins varðandi málefni innflytjenda þá langar mig að láta fljóta hér með hluta úr nýsamþykktri landsfundarályktun um fjölskyldumál, þar sem fjallað er um málefni innflytjenda: 

"Innflytjendur hafa auðgað íslenskt menningar- og atvinnulíf. Íslenskukennsla fyrir innflytjendur og afkomendur þeirra er lykill að íslensku samfélagi. Jafnframt á að gefa nemendum kost á að taka próf á öðru tungumáli ef fullnægjandi íslenskukunnátta er ekki til staðar. Íslenskukennsla á vinnustað og í vinnutíma er eftirsóknarverð.

Skýra skal reglur og viðmið þegar mat fer fram á menntun og námi sem innflytjendur hafa aflað sér í menntastofnunum erlendis.

Bæta skal upplýsingaflæði til innflytjenda og aðstandenda þeirra á þeirra tungumáli, t.d. um réttindi sem tengjast dvalar- og atvinnuleyfi þeirra. Túlka- og þýðingarþjónustu ber að stórefla.

Vernda þarf samningsbundinn rétt erlends starfsfólks, þannig að tryggt sé að þeim sé greitt samkvæmt samningum og það njóti sömu kjara og aðrir launþegar"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband