Tilboð sem ekki er hægt að hafna?

„Slíðra þarf sverð. Ögmundur þarf að koma aftur til mikilvægs hlutverks, t.d. eftir uppstokkun í Stjórnarráðinu. Hans er þörf."  segir Stefán Ólafsson, prófessor í grein í Fréttablaðinu í dag, 9. okt., um Icesave.

Er verið að bjóða Ögmundi nýtt sameinað félags- heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem yrði lang-lang stærsta ráðuneytið með lang-lang mesta fjármagnið fyrir stuðninginn við Icesave.

Skyldi Árni Páll vita af þessu?

Óvinafagnaður hinn nýrri?

VG logar stafna á milli.

Í viðtali Moggans við Ögmund Jónasson í morgun er ekki hægt að greina nein elskulegheit gagnvart formanni VG.

Í gær skrifaði bróðir Ögmundar Jónassonar grein í Moggann undir fyrirsögninni „Að breyta kreppu í hrun" þar sem ríkisstjórnin fær það óþvegið. Þar segir m.a. „Það er kaldhæðnislegt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar mæri sjálfa sig hástöfum af elju sinni og löngum vinnudegi, ef árangurinn verður sá að gera aðra atvinnulausa." Fast skotið á Steingrím og Jóhönnu!

Í dag skrifar bróðir Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „ Að gera sig breiðan" en þar er Ögmundur Jónasson í skotlínunni þegar sagt er:  „Það sem er þó furðulegast af öllu er að þessi þjóðrembumálflutningur hafi glapið hinn ágæta mann Ögmund Jónasson og að hann taki nú þátt í vitleysunni. Það er kaldhæðnislegt að maður sem þorði að segja þjóðinni til syndanna í miðju útrásarfárinu skuli núna hlaupa á eftir popúlisma Framsóknarflokksins." Fast skotið á Ögmund!

Milli Samfylkingar og VG tíðkast einnig hin breiðu spjótin.

Málefnalegur ágreiningur er í öllum stóru málunum, m.a. AGS, Icesave, ESB og nýtingu orkugjafa. Flokkarnir tala í kross í hverju málinu á fætur öðru.

Bent hefur verið á að Samfylkingin noti öll tækifæri til að niðurlægja Jón Bjarnason og senda honum „pillur".

Órólega deildin í VG er hatrömm út í Jóhönnu og ríkisstjórnina vegna brottreksturs Ögmundar úr ríkisstjórn, eins og það er orðað.

Á lokadögum samstarfs Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar í ársbyrjun sýndu þingmenn Samfylkingar okkur svip óþolinmæðis og ergelsis, sem magnaðist er leið á. Ég þekkti þennan svip aftur á andliti Árna Páls félagsmálaráðherra í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag.

Það má því segja að yfirskrift pistilsins sé lýsandi fyrir stöðu mála í dag á stjórnarheimilinu með vísan til samnefndrar bókar Einars Kárasonar.

Stjórnmál og fjölmiðlar

Stundum dettur maður í bækur sem hafa legið árum saman í bókaskápnum.

Ágætur félagi varð fimmtugur um daginn og þar sem hann hefur unnið við fjölmiðla um árabil ákvað ég að leita uppi bók sem mig langaði að gauka að honum. Bókina keypti ég á bókamarkaði forðum tíð, þá bókaormur á unglingsaldri.
Þegar á reyndi fann ég hins vegar ekki bókina, en rakst síðan á hana nokkrum dögum seinna á þeim stað sem hún auðvitað átti að vera.

Bókin heitir „ Blöð og blaðamenn 1773-1944" eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, sem var þjóðþekktur maður, útvarpsstjóri um árabil. Gefin út af Almenna bókafélaginu 1972.

Í fyrsta kafla bókarinnar fjallar Vilhjálmur um tengsl blaða við bókmenntir og stjórnmál og bendir á að eitt höfuðeinkenni blaðamennskunnar framanaf hafi verið hve mörg kunnustu skáld Íslendinga voru jafnframt ritstjórar og nefnir til sögunnar m.a. Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Matthías Jochumsson, Einar Benediktsson, Þorstein Erlingsson og Þorstein Gíslason. Þá ræðir hann um að margir forystumenn stjórnmála hafi einnig verið ritstjórar, „ allt frá Jóni Sigurðssyni til Bjarna Benediktssonar, og þannig fór Tryggvi Þórhallsson beint úr ritstjórn í embætti forsætisráðherra." Einnig nefnir hann Jónas frá Hriflu til sögunnar. Þá segir hann „ Þetta samband skálda og stjórnmálamanna við blöðin og forráð þeirra yfir þeim hefur í heild sinni orðið íslenzkri blaðamennsku til eflingar og fjölbreytni og um leið víkkað og treyst tengslin milli ýmissa þeirra afla og áhrifa, sem bezt voru og auðugust í þjóðlífinu, en einnig styrkt sambandið við almenning í landinu."
Þá segir Vilhjálmur einnig: „Það verður þó að teljast eitt af veigamestu, en jafnframt eitt af vandasömustu verkefnum blaða í lýðræðislöndum að túlka skoðanir hópa og flokka og gera það hart og hiklaust, þegar nauðsyn krefur, en kunna greinarmun á staðreyndum og fréttum og túlkun þeirra."

Vilhjálmur tekur saman að á 57 þingum frá árinu 1845 til 1930 sátu 305 fulltrúar og voru 47 þeirra blaðamenn, eða um 15% þingmanna á þessu tiltekna tímabili. Lausleg athugun á fyrirliggjandi starfsferilsskrá núverandi alþingismanna á vef Alþingis leiðir í ljós að 27 þeirra hafi á einhverju tímabili starfað við fjölmiðla, sem er um 43% sitjandi þingmanna. Þessi þróun er athugunarefni út af fyrir sig.

Tilefni þess að ég rifja þetta upp er ráðning Davíðs Oddssonar í ritstjórastól Morgunblaðsins . Má ég fremur biðja um opin tengsl fjölmiðla og stjórnmála, en óljós tengsl fjölmiðla og viðskiptahagsmuna, sem augljóslega hefur verið mikill skaðvaldur á síðustu árum.

Á morgun ætla ég síðan að færa mínum ágæta félaga bókina í síðbúna afmælisgjöf.

Er löng stefnuyfirlýsing merki um traust?

Mætur maður sagði einu sinni að stutt stefnuyfirlýsing samsteypustjórna væri merki um traust milli viðkomandi stjórnarflokka.  Því styttri sem hún væri því meira traust og meiri líkur á að stjórnin næði árangri.

Nú hefur stefnuyfirlýsing vinstri flokkanna litið dagsins ljós, 17 síður, 7000 orð, 3, 5 sinnum lengri en meðal stefnuyfirlýsing stjórnarflokka á undanförnum áratugum ef marka má Moggann í dag.   7000 orð,  óritstýrð, froðukennd  og ómarkviss.  Hvað segir þessi langa stefnuyfirlýsing um traust á milli stjórnarflokkanna?  Hafandi verið vitni að samskiptum þingmanna þessarra flokka á Alþingi á undanförnum árum kemur traust og virðing ekki fyrst upp í hugann. 

Með ólíkindum má hins vegar teljast að í þessum 7000 orðum hafi þeim tekist að sneiða hjá helstu ágreiningsmálum sínum.  Ekki síst er þögnin hrópandi um verkefnin framundan , hvar eigi að bera niður í opinberum rekstri, hvernig eigi að standa að atvinnuuppbyggingu  í landinu og hvað stefnu eigi að taka í peningamálum þjóðarinnar.   

Vissulega má finna eitt og eitt bitastætt í yfirlýsingunni, t.d. um verndun umhverfis og samdrátt í ferðalögum, dagpeningum og slíku.  Þessir þættir yfirlýsingarinnar reyndust þó ómarktækir strax á fyrsta degi þegar forsætisráðherrann tilkynnti keik að fyrsti ríkisstjórnarfundurinn yrði haldinn á Akureyri.  Ríkisstjórnin ákvað sem sagt að eyða ómældu magni af  ósjálfbærum orkugjöfum (lesist: bensín og olía)  með tilheyrandi útblæstri til að koma 12 manna ríkisstjórn ásamt fylgdarliði til og frá Akureyri,  sem þar að auki þurfti að skipta niður á þrjár flugvélar til að  virða öryggisreglur. Að ónefndum  ferðakostnaði og dagpeningum sem falla á ríkissjóð.  

Svo mikið fyrir umhverfismál og sparnað í ríkisrekstri. 

Hvað kallast þetta annað en sýndarmennska?!    


Eru verðbætur fjármagnstekjur

Um 30 þúsund eldri borgurum var tilkynnt í byrjun árs að þeir hefðu fengið ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins alls að upphæð tæpar 300 milljónir króna, sem þeir yrðu að greiða til baka eða semja um.

Þetta veldur óróa og óþægindum hjá eldri borgurum landsins

Fjármagnstekjur skerða lífeyri 100%
Um síðustu áramót gengu í gildi breytingar á almannatryggingalögum, sem fólu í sér að fjármagnstekjur umfram 100 þúsund krónur á ári, um 8000 á mánuði skerða að fullu lífeyri almannatrygginga. Áður skertu 50% fjármagnstekna lífeyri almannatrygginga. Til fjármagnstekna í þessum skilningi falla vaxtatekjur og verðbætur af bankareikningum, leigutekjur, arður og söluhagnaður.

Er þetta eitthvað til að gera veður út af?

Í fyrirspurnatíma í dag ræddi ég við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um þessa breytingu

Í ræðu sinni á Alþingi á sínum tíma sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra m.a. eftirfarandi:

"...Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerti bætur almannatrygginga um 50% skerði þær um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem er hægt að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti"

Mikil gagnrýni
Nú síðustu daga hefur komið fram veruleg gagnrýni á þessa breytingu og áhrif þeirra á kjör aldraðra

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara hefur mótmælt kröftuglega því sem þeir kalla ranglátar endurkröfur TR, sem stjórnin segir að byggist á óskiljanlegum og óréttlátum reglugerðum og lögum um að tekjutengja og meðhöndla vexti og verðbætur eins og um tekjur væri að ræða.

Verðbætur eru ekki fjármagnstekjur
Í þessu máli hefur sérstaklega verið gagnrýnt að verðbætur teljist til fjármagnstekna í skilningi almannatryggingalaga.  Í þeirri verðbólgu sem hefur ríkt á undanförnum mánuðum sé varhugavert að líta á verðbætur á sama hátt og vexti, þar sem þær eru ekki ávöxtun, heldur hugsaðar til þess að innistæður rýrni ekki. Verðbætur sem eiga að halda í verðbólguna, eigi því alls ekki að skerða lífeyri almannatrygginga, þær eiga að halda í við hækkandi verðlag.

Ég tek undir þessa gagnrýni og get einnig skilið að eldri borgarar séu svekktir vegna þessa.

Var of langt gengið?
Í umræðunni spurði ég Jóhönnu hvort hún telji að of langt hafi verið gengið í lagasetningu fyrir jól að fjármagnstekjur skerði að fullu bætur almannatrygginga, eftir að um 100 þúsund króna frítekjumarki er náð og hvort ástæða er til að endurskoða hvort verðbætur eigi að falla þar undir.

Hún svaraði í þá veru að þetta yrði skoðað

Efnisleg umræða, ekki málþóf

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ásakaðir um að stunda málþóf í umræðu á Alþingi í gær, þegar til umræðu var frumvarp ríkisstjórnarinnar um innlausn séreignalífeyrissparnaðar fólks hjá lífeyrissjóðunum.

Á þingi í dag, sem starfandi þingflokksformaður þá stundina, andmælti ég fullyrðingum Marðar Árnasonar í þessa veru.

Ekki heppileg leið
Í gær fór þvert á móti fram efnisleg umræða frá hendi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um heimildir fólks til að nálgast séreignasparnað sinn úr lífeyrissjóðum til að mæta greiðsluerfiðleikum heimilanna.

Þar gagnrýndum við sjálfstæðismenn harðlega þá leið sem ríkisstjórnin og framsóknarmenn vilja fara. Hún felur í sér að almenningur getur innleyst eina milljón króna í jöfnum greiðslum á 10 mánuðum, 100 þúsund krónur á mánuði í 10 mánuði, eða 63 þúsund krónur á mánuði eftir skatta. Slík útfærsla dugar skammt til að mæta vanda heimila í landinu sem eiga í greiðsluerfiðleikum og veldur almenningi vonbrigðum. Jafnframt getur hún skaðað starfsemi lífeyrissjóðanna.

Það er til önnur og betri leið
Leiðin sem sjálfstæðismenn mæltu fyrir í gær að frumkvæði Péturs H Blöndal og lögðu fram breytingatillögu um felur í sér að almenningur gæti útleyst séreignalífeyrissparnað sinn í einu lagi, einni milljón króna að frádregnum skatti, - í einni upphæð, sem má margfalda með tveimur ef hjón eða sambýlisfólk á slíka inneign í séreignalífeyrissparnaði, alls 630 -1260 þúsund.

Það var mat fulltrúa lífeyrissjóðanna að leið sjálfstæðismanna, kæmir betur til móts við yfirlýst markmið frumvarpsins um að rétta heimilunum hjálparhönd og um leið að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Ekki var hlustað á varnaðarorð
Vinna stjórnarliða og framsóknarmanna við vinnslu frumvarpsins var flaustursleg og var ekki hlustað á varnaðarorð umsagnaraðila.

Hafi þingmenn eitthvað lært af hamförum haustsins, þá er það að vanda til verka. Ekki má sýna andvaraleysi heldur skoða mál til hlítar og finna bestu leið, sem kemur sem flestum til góða

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að á það hafi skort í vinnslu frumvarps um innlausn séreignalífeyrissparnaðar og lögðu sig fram um að fá stjórnarliða og fylgismenn þeirra að snúa við blaðinu, en árangurslaust.

Vonandi tekst honum það.

Breytingar á heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum var eitt af stóru baráttumálum í kosningabaráttu Bill Clinton til forseta Bandaríkjanna.  

Hann fékk hundrað daga til að koma fram með áætlun sína og setti hann konu sína Hillary til að stýra nefnd sem átti leggja fram tillögur.  Honum mistókst ætlunarverk sitt, af ýmsum ástæðum, sem ég rakti í ritgerð sem ég skrifaði í meistaranámi mínu í opinberri stjórnsýslu og hægt er að nálgast á heimasíðu minni, www.astamoller.is undir Erindi og ritgerðir.

Allt hefði átt að ganga honum í haginn, en hann klúðraði því, því miður. 

Vonandi tekst nýjum forseta að fylgja eftir áætlun sinni að bæta heilbrigðisþjónustu Bandaríkjamanna, sérstaklega þeirra sem eiga undir högg að sækja.

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að hugmyndir um aukið samstarf ríkisins og sjálfstæðra aðila um rekstur í heilbrigðisþjónustu hefur ekkert með amerískt heilbrigðiskerfi að gera.  Þar er fyrst og fremst talað um að ríkið geri samninga við sjálfstæða aðila, sjálfseignastofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um að veita sjúklingum og öldruðum þjónustu, með óbreyttri greiðsluþátttöku almennings.

 

 

 


mbl.is Krefst endurbóta á heilbrigðiskerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna eiga konur að taka þátt í stjórnmálum?

Þessi frétt gladdi mig sérstaklega. 

Svo vill til að ég er einn af fjórum fulltrúum vestrænna ríkja í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU.  Var kosin í stjórnina í apríl á síðasta ári og vann þar þýskan þingmanna með nokkrum yfirburðum. Er ég annar þingmaður frá Íslandi sem hefur verið kjörin í framkvæmdastjórnina í yfir eitt hundrað ára sögu samtakanna.  Hinn er Geir H Haarde.

Þessi samtök leggja sérstaka áherslu á að jafna hlutföll kynjanna í stjórnmálum og hafa látið gera rannsókn um viðhorf karla og kvenna sem gegnt hafa þingstörfum og er hún um margt áhugaverð.  Þannig mæta konur og körlum mismunandi þröskuldum til að taka þátt í stjórnmálum og áherslur þeirra eru mjög ólíkar. 

Hér má finna tengil á þessa rannsókn:  http://www.ipu.org/PDF/publications/equality08-e.pdf

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru ein bestu rök fyrir því hvers vegna konur jafnt og karlar  eiga að taka þátt í stjórnmálum.

 


mbl.is Metfjöldi kvenna á þingi í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringingar, opnun og lestur passíusálma

Dagurinn í dag var fjölbreyttur.  Byrjaði daginn á klippingu, en fór síðan á fund stjórnar þingflokks sjálfstæðismanna þar sem dagurinn í þinginu var ræddur og skipulagður frá okkar hendi.   Þar voru mætt  auk mín, Geir, formaðurinn okkar og Arnbjörg þingflokksformaður, auk Árna Helgasonar framkvæmdastjóra þingflokksins. Síðan vann ég á skrifstofunni minni við skriftir, skipulagningu og símtöl til kl. 12, en þá var þingfundur settur.  

Um kl. 13 skaust ég í mat og fór síðan upp á kosningaskrifstofu til að funda um auglýsingamál. Nú gildir að nýta hvern eyri sem  best til kynningar.  Tók síðan nokkur símtöl, en um kl. 16 var þingflokksfundur í Alþingishúsinu.  Náði síðan að stoppa smá stund við opnun kosningaskrifstofu Jóns Magnússonar í Síðumúla ( á móti versluninni Álnabæ, eins og Jón sagði!)

Klukkan 18 átti ég að vera mætti í Grafarvogskirkju til flytja 6. sálm Passíusálma, en Sr. Bjarni Þór hefur leitað til okkar þingmanna síðustu ár í því skyni og hafði ég mikla ánægju af því. Þar hitti ég konu sem ég kannaðist við og hún vildi afhenda mér bréf, sem hún og gerði.  Á blaðinu var vísa eftir Sigurð Jónsson, sem hann orti til mín.  Ég kannaðist reyndar við konuna og kom í ljós þegar við ræddum saman að hún hefði unnið lengi í Reykjavíkurapóteki. Þangað hafði ég oft komið sem krakki með Elínu Soffíu æskuvinkonu minni, en pabbi hennar var lyfjafræðingur þar.  Þar fengum við stundum apótekaralakkrís og ég mundi eftir andliti konunnar eftir öll þessi ár.  Ég er mjög glögg á andlit, en er ekki eins klár á að muna hvaðan ég þekki fólk, hvað þá nöfn þess.  

Kvöldið fór í símtöl og fundi á kosningaskrifstofunni, en starfið þar er að fara í gang.  Bauð vinnandi fólki þar upp á kjúklingasalat sem var útbúið á staðnum.  

Ásta Möller

 


Staksteinar í dag.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, sem er sennilega víðlesnasti dálkur blaðsins segir m.a. eftirfarandi undir fyrirsögninni: 

"Uppgjör við framtíðina?

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sækjast eftir endurkjöri, eru byrjaðir að viðurkenna ábyrgð sína og flokksins á bankahruninu, a.m.k. að hluta til.

Ásta Möller sagði á Alþingi í gær. " Við vorum sjálfumglöð og sjálfsörugg og veittum ekki aðvörunarmerkjum athygli sem skyldi. Ég á minn þátt í þessu andvaraleysi sem við höfum gert okkur sek um (...) Fyrir sjálfa mig þykir mér það miður og hef beðist afsökunar á því."
Bjarni Benediktsson, sem alla líkur eru á að verði formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Sjónvarp mbl.is í gær: "Ég er sammála því að Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á ýmsu af því, sem hefur ekki lánast nógu vel hjá okkur á undanförnum árum."

Bjarni og Ásta bentu réttilega á að talsvert vantar upp á að í öðrum flokkum, sem verið hafa við stjórnvölinn undanfarin ár, fari fram svipuð umræða og sú, sem nú fer fram í Sjálfstæðisflokknum."...."

Eitt frumvarp að lögum á 4 vikum

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kennir sig við aðgerðastjórn.   Miðað við orðaflauminn mætti halda að víðtækar ráðstafanir hafi verið gerðar og mörg lög samþykkt á síðustu vikum til að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna. 

Svo er þó ekki. 

Á þeim fjórum vikum sem hún hefur starfað hefur „aðgerðastjórnin" einungis afgreitt ein lög frá Alþingi.    Það eru lög um Seðlabanka Íslands.  Það má sannreyna á heimasíðu Alþingis http://www.althingi.is/ á lista yfir nýsamþykkt lög. Nú vill ríkisstjórnin leggja allt kapp á að koma á breytingum á kosningalögum og breytingum á stjórnarskrá á þeim um 2 vikum sem eftir eru af þinginu.   Eru það brýnustu málin í samfélaginu í dag? Mun það hjálpa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu?

Aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu láta á sér standa.  Engin ný frumvörp hafa verið lögð fram, sem ekki voru þegar ákveðin í tíð fyrri stjórnar.  

Þetta framtaksleysi og ranga forgangsröðun er hrópandi.  

Þá hafa ýmsir spurt.  En hvað gerði fyrri ríkisstjórn?  Fyrir liggur samantekt sem fyrri ríkisstjórn lét gera byggða á upplýsingum úr öllum ráðuneytum um aðgerðir og ráðstafanir til að bregðast við bankahruninu og afleiðingum þeirra. Hér er tengill á þennan lista um 100 aðgerðir fyrrum ríkisstjórnar á 100 dögum:   http://xd.is/?action=grein&id=15993.

Ásta Möller


Sýklalyfjum ávísað að óþörfu

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni ræddi ég við Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra um þá staðreynd að sýklalyfjanotkun hér á landi er allt að 40% meiri en annars staðar á Norðurlöndum.  Þessi mikla notkun á sýklalyfjum hefur jafnframt leitt til vaxandi ónæmis almennings gagnvart sýklalyfjum.  

Í umræðunni kom m.a. eftirfarandi fram í ræðu minni:

  • 80% af allri sýklalyfjanotkun er utan sjúkrahúsa, þar af meirihluti vegna öndunarfærasýkinga þar sem meðferð með sýklalyfjum er yfirleitt óþörf.
  • Mikill þrýstingur er á lækna að ávísa á sýklalyf við jafnvel smávægilegum sýkingum t.d. vegna miðeyrnabólgu, sem skv. leiðbeiningum landlæknis er ekki mælt með sýklalyfum sem fyrsta val í meðferð.
  • Sýklalyfjanotkun hefur aukist um 35% hjá börnum undir 5 ára aldri á síðustu 10 árum.
  • Mikill munur er á sýklalyfjanotkun milli landshluta, t.d er hún helmingi minni á Akureyri en í Reykjavík.
  • Sýklalyfjakostnaður er mikill í þjóðfélaginu og skipar hann fimmta sætið í heildarkostnaði vegna lyfjamála.

afnframt ræddi ég um leiðir sem stjórnvöld geta farið til að stemma stigu við ofnotkun á sýklalyfjum, sem er langt umfram það sem hægt er að sætta sig við, ekki síst þegar haft er hliðsjón af alvarlegum afleiðingum þessa, sem er lyfjaónæmi.  

Ítarlegri grein um ofnotkun á sýklalyfjum er á heimasíðu minni http://www.astamoller.is/


Hættuleg breytingatillaga

Breytingatillaga meirihluta viðskiptanefndar um Seðlabankafrumvarpið við 3. umræðu hljóðar svo:

"Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til."

Þessi tillaga er frumhlaup og illilega vanhugsuð, svo ekki sér dýpra í árina tekið.

Hvaðan í heiminum kemur þetta? Örugglega ekki frá ESB.

Hlutverk Seðlabanka er að skapa stöðugleika í efnahagsumhverfinu. Ekki skapa óróleika.  Ég get ekki trúað því að í nokkru landi sé Seðlabanka gert skylt að tilkynna um alvarleg hættumerki í fjármálakerfinu, sem auðvitað yrðu að raunverulegu hættuástand um leið og bankinn gæfi slíka opinbera tilkynningu.

 Þetta er grafalvarleg hugsanaskekkja.


mbl.is Saka hvor annan um misskilning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einhlít rök fyrir sænsku leiðinni

Nú skal gerð enn ein tilraunin til að lögleiða hina svokölluðu "sænsku leið" á Íslandi.

Ég átti sæti í nefnd á vegum dómsmálaráðherra sem fékk það hlutverk að skoða þessa leið, en nefndin skilaði af sér á vordögum 2005. Formaður nefndarinnar er nú dómsmálaráðherra og lagðist hún gegn þessari leið.   

Yfirlýst markmið sænsku leiðarinnar er að minnka ofbeldi gagnvart konum með því með að gera vændiskaup refsiverð.  Áætluð áhrif eru annars vegar að fæla  "venjulega" menn frá að kaupa vændi og fækka þannig vændiskaupendum og hins vegar að gefa "mórölsk" skilaboð um að vændi sé ótilhlýðilegt.  

Það sem mælir gegn sænsku leiðinni er að þegar götuvændi minnkar, eins og reyndin varð í Svíþjóð, færist vændið neðanjarðar og erfiðara reynist að hafa eftirlit með starfseminni og beita félagslegum úrræðum.  Jafnframt verður vændisumhverfið hættulegra sem stríðir gegn markmiðum laganna. Þá verður sönnunarbyrði þyngri, því kaupendur verða sakamenn með því að játa kaup á vændi, sem styrkir stöðu vændismiðlara og gerir þá ósnertanlegri. Erfitt er að fylgja banninu eftir, sem minnkar almenna virðingu fyrir lögum.

Þá er óvissa um áhrif sænsku leiðarinnar á mansal.  Hún getur jafnvel virkað gegn baráttu gegn mansali, þar sem erfiðara er að fá vændiskaupendur til að kæra eða vitna gegn milliliðum eða meintun skipuleggjendum vændis, því um leið viðurkenna þeir á sig refsiverðan verknað. 

Það verður því ekki sagt að rökin fyrir hinni svokölluðu "sænsku leið" séu einhlít, né málsmetandi menn og konur sammála um ágæti hennar.


mbl.is Refsivert að kaupa vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðgerðastjórn" er öfugmæli

Í þrjár vikur hefur ný ríkistjórn, sem kennir sig við aðgerðastjórn, setið að völdum.  Hinar meintu aðgerðir láta hins vegar á sér standa. 

Engar nýjar tillögur

Það má glögglega sjá á grein Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, í Morgunblaðinu í morgun með yfirskriftinni „Aðgerðir til bjargar heimilunum".  

Þar útlistar hún ráðstafanir til að styðja við heimilin í landinu og merkir þær nýrri ríkisstjórn.

Þegar rýnt er í listann kemur í ljós að ekkert nýtt kemur fram í upptalningunni, allt eru þetta atriði sem þegar hafði verið tekið ákvörðun um í fyrri ríkisstjórn.  Hún nefnir m.a.  til sögunnar frumvarp um greiðsluaðlögun, um frestun nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis og lengingu aðfararfrests. 

Hún segir í greininni að hún vilji leggja mikið á sig að upplýsa fólk.  Það væri ekki vitlaust að hún byrjaði á að upplýsa framangreinda staðreynd.

Röng forgangsröðun

Á tímum þar sem aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu ættu að vera í forgrunni leggur ný ríkisstjórn allt sitt púður í að setja lög sem breytir skipuriti Seðlabankans og vinna að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá Íslands.  

Eru þetta forgangsmálin til að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum í landinu?  Varla er hægt að skella bankahruninu  á stjórnarskrána,  kosningalögin eða skipurit Seðlabankans?   Er ekki kominn tími til að einbeita sér að því sem raunverulega skiptir máli? Halda áfram aðgerðaáætlun til endurreisnar atvinnulífsins og til aðstoðar heimilunum í landinu.    Það viljum við Sjálfstæðismenn gera og viljum leggja okkur fram við það. 


Mikilvæg gögn í málinu

Fyrir nokkrum dögum greiddi ríkisstjórnarminnihlutinn ásamt Framsókn atkvæði gegn því í viðskiptanefnd alþingis að fá umsögn frá Evrópska seðlabankanum um seðlabankafrumvarpið.  

Rök okkar sjálfstæðismanna fyrir málinu var að reglugerðarverk um fjármálaumhverfið hér á landi á uppruna sinn í Evróputilskipunum.   Því væri mikilvægt að fá innlegg frá evrópska seðlabankanum, sem þar að auki hafði farið fram á að veita umsögn um málið.  Okkur þótti höfnunin sérkennileg, ekki síst þar sem Samfylkingin vill nú yfirleitt sækja flest til Evrópu!

Þeir hefðu betur þegið boð bankans, því nú kemur í ljós á fundi í viðskiptanefnd að ESB muni kynna nýja skýrslu eftir tvo daga, sem getur skipt máli fyrir málið.

Höskuldur komst að einu réttu niðurstöðunni.  Fara ætti faglega í málið og afla þessarra upplýsinga.

Svo má reyndar spyrja sig hvers vegna utanríkisráðuneytið hafði ekki vitneskju um tilurð skýrslunnar

Ásta Möller

 

 


mbl.is Lausn ekki fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2 milljarðar í yfirvinnu á LSH 2008

  Margt hefur breyst í starfsemi LSH á síðustu mánuðum.  Eitt af því er að nær allar stöður innan hjúkrunar eru mannaðar.  Það er algerlega ný staða, því það hefur verið viðvarandi skortur, sérstaklega á hjúkrunarfræðingum til starfa, en hann hefur verið á bilinu 10-20% a.m.k. síðustu 2 áratugi.  

1% starfsmanna fá uppsögn

Nýir stjórnendur spítalans hafa á stuttum tíma náð undraverðum árangri í rekstri og náð að bæta starfsandann verulega.  Ekki heyrast lengur óánægjuraddir á spítalanum sem var viðvarandi árum saman. Þótt uppsagnir séu ætíð erfiðar verður að segja að um 67 uppsagnir á 5000 manna sjúkrahúsi sé ekki mikið miðað við aðrar greinar, rétt rúmlega 1% á spítala þar sem starfamannavelta hefur verið umtalsverð.

Bætt mönnun, aukið öryggi sjúklinga

Breytt efnahagsástand gerði það að verkum að margir hjúkrunarfræðingar sneru á haustdögum til baka til starfa innan heilbrigðiskerfisins.   Mér er sagt að einn daginn hafi 4 hjúkrunarfræðingar hafið störf í fullri vinnu á deild sem hefur átt við viðvarandi skort á hjúkrunarfræðingum til starfa um árabil.  Krafa um yfirvinnu umfram vilja og getu starfsmanna heyrir sögunni til.  Bætt mönnun þýðir einnig betri þjónusta og aukið öryggi sjúklinga.  Fyrir utan að það er svo miklu skemmtilega að vinna á deild sem er vel mönnuð. 

2 milljarðar í yfirvinnu 2008

Með þessum breytingum fær sjúkrahúsið aukið svigrúm til að taka á yfirvinnu.  Á fundi í heilbrigðisnefnd í síðustu viku upplýstu yfirmenn stofnunarinnar að yfirvinna á síðasta ári hafi numið kostnaði sem samsvarar um 370 stöðugildum á ársgrundvelli eða um 2 milljörðum króna.  Þau áætla að ná henni niður á árinu um amk 500 milljónir króna.


mbl.is Sparnaður um milljarður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri verslun, minni samdráttur, styttri kreppa

Í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu sem vert er að veita athygli. Þar heldur á pennanum Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún bendir á þá alþekktu staðreynd að „Eyðsla eins er starf annars".

Fólk heldur að sér höndum

Hún dregur fram að sannarlega sé 10% atvinnuleysi í landinu, sem sé óviðunandi ástand, en það þýðir einnig að 90% vinnufærra manna og kvenna eru í launaðri vinnu. Margir hafa brugðist við hækkandi afborgunum og minnkandi tekjum með því að halda að sér höndum, sem sé skiljanlegt.

Margföldunaráhrif

Á hinn bóginn segir Erna einnig: „

Það eru þó margir sem ekki búa við há lán, í mörgum tilvikum engin og eiga jafnvel eitthvað í handraðinum. Þetta fólk má ekki hætta að lifa eðlilegu lífi, kaupa í verslunum landsins, halda við húsum sínum, fara á veitingastaði, ferðast svo lengi megi telja. Af hverju? Vegna þess að ef allir halda að sér höndum, hvort sem þeir þurfa þess eða ekki, hægir á hjólum atvinnulífsins, fleiri fyrirtæki fara í gjaldþrot, fleiri verða atvinnulausir og koll af kolli."

Erna bendir á að margföldunaráhrifin séu mikil bæði niður á við og upp á við. Ef viðskiptin aukast geta þau komið okkur fyrr upp úr hjólförunum og stytt krepputímann.

Aukin verslun, styttri kreppa

Íslendingar hafa brugðist við kreppunni með því að færa verslunina heim. Verslunarferðir til útlanda heyra að mestu tímanum til. Þeir hafa einnig meðvitað valið íslenskar vörur fram yfir erlendar, m.a. í því skyni að auka störf hér heima.

Mér er minnistætt eftir árásina á tvíburaturnana í New York á sínum tíma að almenningur dró saman í neyslu með samsvarandi samdrætti, sem var farið að hafa alvarleg efnahagsleg áhrif. Viðbrögð stjórnvalda í kjölfarið vöktu þá athygli mína, því þau hófu áróður fyrir því að fólk yki verslun, með þjóðernislegum rökum.

Ég tel mjög mikilvægt að skilaboð stjórnvalda hér á landi til almennings séu á þeim nótum sem Erna Hauksdóttir leggur til.


Falsvonir ráðherra?

Í umræðu um heilbrigðismál á Alþingi í dag kom staða St. Jósepsspítala í Hafnarfirði til umræðu. 

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur látið hafa eftir sér að hann ætli að tryggja áframhaldandi starfsemi spítalans, en sagði síðan í dag að spítalinn færi undir væng LSH eða eins og hann orðaði það: "...þar sem starfsemin á Sankti Jósefsspítala og starfsemi Landspítalans verði samhæfðar með það í huga að tryggja framtíð Sankti Jósefsspítala."

Það hefur verið bent á að rekstur St. Jósepsspítala í Hafnarfirði er dýrari en efni standa til og alveg ljóst að LSH sem er undir mikilli kröfu um hagræðingu myndi varla geta réttlætt það að halda úti starfsemi í Hafnarfirði, ef það væri hægt að gera það með hagkvæmari hætti á LSH:  Það væru alla vega einkennilega skilaboð.  Er heilbrigðisráðherrann að gefa falsvonir og er hann að víkja sér undan erfiðum ákvörðunum.

Í skýrslu ríkisendurskoðunar um spítalann frá árinu 2007 sem vísað er til í greininni segir m.a. eftirfarandi:

 „Gerð  (er) athugasemd við það að spítalinn tryggi læknum, ... full laun í veikindum og greiði í námssjóð þeirra. Þar sem læknarnir eru allir verktakar við stofnunina og starfa flestir hjá eigin einkahlutafélögum verður að telja þessi ákvæði mjög óeðlileg og ekki í neinu samræmi við þau kjör sem almennt gilda í samskiptum verktaka og verkkaupa." 

Viðmiðunarlaun læknanna í veikindaleyfi er reyndar látið ógetið.

Í umræðunni í dag sagði ég m.a. eftirfarandi um málið:

"Það er einnig eftirtektarverðar upplýsingar sem koma fram í athugasemdum ríkisendurskoðunar um samninga við lækna á sjúkrahúsins, þar sem svo virðist sem þar sé ruglað saman einkarekstri og opinberum rekstri með þeim hætti sem ekki er hægt að verja. ...Svona fyrirkomulag þar sem skipulag vinnu hyglir einni fagstétt umfram aðra og jafnvel á kostnað annarra er gamaldags og úrelt fyrirkomulag. Ég spyr hæstvirtan ráðherra hvort hann ætli að standa vörð um það.

Í mínum huga skiptir rekstrarform í heilbrigðisþjónustu ekki máli.  Stjórnvöld eiga að geta valið það eftir því sem henta þykir á hverjum stað og hverjum tíma með hliðsjón af gæðum þjónustunnar og hagkvæmni í rekstri.  Hins vegar verð ég að segja að vitlausasta rekstrarform í heilbrigðisþjónustu er þegar blandað er saman einkarekstri og opinberum rekstri, eins og gert er á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði.  Úr slíkri samsuðu geta skattborgarar ekkert annað en tapað, eins og kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðunar, jafnvel þótt þjónustan á spítalanum sé góð, er hún of dýru verði keypt." 


mbl.is Eignarhaldsfélög í veikindaleyfi.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS-samkomulagið á áætlun

Þetta eru góðar fréttir og tímabærar.

Gengið styrkist og stutt í vaxtalækkun og lækkun verðbólgu, eins og lagt var upp með. 

Þetta er allt samkvæmt áætlun.   

Samfylkingingin þraut örendið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, áður en árangur af áætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fór að koma fram.  Nú ríður á að halda áfram á þessari braut, sem þrátt fyrir stórkarlalega yfirlýsingar Steingríms J. um hið gagnstæða, er að bera árangur.

 


mbl.is Gengi krónunnar styrkist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband