Eru verðbætur fjármagnstekjur

Um 30 þúsund eldri borgurum var tilkynnt í byrjun árs að þeir hefðu fengið ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins alls að upphæð tæpar 300 milljónir króna, sem þeir yrðu að greiða til baka eða semja um.

Þetta veldur óróa og óþægindum hjá eldri borgurum landsins

Fjármagnstekjur skerða lífeyri 100%
Um síðustu áramót gengu í gildi breytingar á almannatryggingalögum, sem fólu í sér að fjármagnstekjur umfram 100 þúsund krónur á ári, um 8000 á mánuði skerða að fullu lífeyri almannatrygginga. Áður skertu 50% fjármagnstekna lífeyri almannatrygginga. Til fjármagnstekna í þessum skilningi falla vaxtatekjur og verðbætur af bankareikningum, leigutekjur, arður og söluhagnaður.

Er þetta eitthvað til að gera veður út af?

Í fyrirspurnatíma í dag ræddi ég við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um þessa breytingu

Í ræðu sinni á Alþingi á sínum tíma sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra m.a. eftirfarandi:

"...Við förum líka út í það að fjármagnstekjuskattur sem skerti bætur almannatrygginga um 50% skerði þær um 100%. Ég spyr: Er það eitthvað sem er hægt að gera ofboðslega mikið veður út af í þeim hremmingum sem við erum í? Ég held ekki, virðulegi forseti"

Mikil gagnrýni
Nú síðustu daga hefur komið fram veruleg gagnrýni á þessa breytingu og áhrif þeirra á kjör aldraðra

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara hefur mótmælt kröftuglega því sem þeir kalla ranglátar endurkröfur TR, sem stjórnin segir að byggist á óskiljanlegum og óréttlátum reglugerðum og lögum um að tekjutengja og meðhöndla vexti og verðbætur eins og um tekjur væri að ræða.

Verðbætur eru ekki fjármagnstekjur
Í þessu máli hefur sérstaklega verið gagnrýnt að verðbætur teljist til fjármagnstekna í skilningi almannatryggingalaga.  Í þeirri verðbólgu sem hefur ríkt á undanförnum mánuðum sé varhugavert að líta á verðbætur á sama hátt og vexti, þar sem þær eru ekki ávöxtun, heldur hugsaðar til þess að innistæður rýrni ekki. Verðbætur sem eiga að halda í verðbólguna, eigi því alls ekki að skerða lífeyri almannatrygginga, þær eiga að halda í við hækkandi verðlag.

Ég tek undir þessa gagnrýni og get einnig skilið að eldri borgarar séu svekktir vegna þessa.

Var of langt gengið?
Í umræðunni spurði ég Jóhönnu hvort hún telji að of langt hafi verið gengið í lagasetningu fyrir jól að fjármagnstekjur skerði að fullu bætur almannatrygginga, eftir að um 100 þúsund króna frítekjumarki er náð og hvort ástæða er til að endurskoða hvort verðbætur eigi að falla þar undir.

Hún svaraði í þá veru að þetta yrði skoðað

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband