Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Tilboð sem ekki er hægt að hafna?

„Slíðra þarf sverð. Ögmundur þarf að koma aftur til mikilvægs hlutverks, t.d. eftir uppstokkun í Stjórnarráðinu. Hans er þörf."  segir Stefán Ólafsson, prófessor í grein í Fréttablaðinu í dag, 9. okt., um Icesave.

Er verið að bjóða Ögmundi nýtt sameinað félags- heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem yrði lang-lang stærsta ráðuneytið með lang-lang mesta fjármagnið fyrir stuðninginn við Icesave.

Skyldi Árni Páll vita af þessu?

Óvinafagnaður hinn nýrri?

VG logar stafna á milli.

Í viðtali Moggans við Ögmund Jónasson í morgun er ekki hægt að greina nein elskulegheit gagnvart formanni VG.

Í gær skrifaði bróðir Ögmundar Jónassonar grein í Moggann undir fyrirsögninni „Að breyta kreppu í hrun" þar sem ríkisstjórnin fær það óþvegið. Þar segir m.a. „Það er kaldhæðnislegt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar mæri sjálfa sig hástöfum af elju sinni og löngum vinnudegi, ef árangurinn verður sá að gera aðra atvinnulausa." Fast skotið á Steingrím og Jóhönnu!

Í dag skrifar bróðir Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „ Að gera sig breiðan" en þar er Ögmundur Jónasson í skotlínunni þegar sagt er:  „Það sem er þó furðulegast af öllu er að þessi þjóðrembumálflutningur hafi glapið hinn ágæta mann Ögmund Jónasson og að hann taki nú þátt í vitleysunni. Það er kaldhæðnislegt að maður sem þorði að segja þjóðinni til syndanna í miðju útrásarfárinu skuli núna hlaupa á eftir popúlisma Framsóknarflokksins." Fast skotið á Ögmund!

Milli Samfylkingar og VG tíðkast einnig hin breiðu spjótin.

Málefnalegur ágreiningur er í öllum stóru málunum, m.a. AGS, Icesave, ESB og nýtingu orkugjafa. Flokkarnir tala í kross í hverju málinu á fætur öðru.

Bent hefur verið á að Samfylkingin noti öll tækifæri til að niðurlægja Jón Bjarnason og senda honum „pillur".

Órólega deildin í VG er hatrömm út í Jóhönnu og ríkisstjórnina vegna brottreksturs Ögmundar úr ríkisstjórn, eins og það er orðað.

Á lokadögum samstarfs Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar í ársbyrjun sýndu þingmenn Samfylkingar okkur svip óþolinmæðis og ergelsis, sem magnaðist er leið á. Ég þekkti þennan svip aftur á andliti Árna Páls félagsmálaráðherra í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag.

Það má því segja að yfirskrift pistilsins sé lýsandi fyrir stöðu mála í dag á stjórnarheimilinu með vísan til samnefndrar bókar Einars Kárasonar.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband