Meiri verslun, minni samdráttur, styttri kreppa

Í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu sem vert er að veita athygli. Þar heldur á pennanum Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún bendir á þá alþekktu staðreynd að „Eyðsla eins er starf annars".

Fólk heldur að sér höndum

Hún dregur fram að sannarlega sé 10% atvinnuleysi í landinu, sem sé óviðunandi ástand, en það þýðir einnig að 90% vinnufærra manna og kvenna eru í launaðri vinnu. Margir hafa brugðist við hækkandi afborgunum og minnkandi tekjum með því að halda að sér höndum, sem sé skiljanlegt.

Margföldunaráhrif

Á hinn bóginn segir Erna einnig: „

Það eru þó margir sem ekki búa við há lán, í mörgum tilvikum engin og eiga jafnvel eitthvað í handraðinum. Þetta fólk má ekki hætta að lifa eðlilegu lífi, kaupa í verslunum landsins, halda við húsum sínum, fara á veitingastaði, ferðast svo lengi megi telja. Af hverju? Vegna þess að ef allir halda að sér höndum, hvort sem þeir þurfa þess eða ekki, hægir á hjólum atvinnulífsins, fleiri fyrirtæki fara í gjaldþrot, fleiri verða atvinnulausir og koll af kolli."

Erna bendir á að margföldunaráhrifin séu mikil bæði niður á við og upp á við. Ef viðskiptin aukast geta þau komið okkur fyrr upp úr hjólförunum og stytt krepputímann.

Aukin verslun, styttri kreppa

Íslendingar hafa brugðist við kreppunni með því að færa verslunina heim. Verslunarferðir til útlanda heyra að mestu tímanum til. Þeir hafa einnig meðvitað valið íslenskar vörur fram yfir erlendar, m.a. í því skyni að auka störf hér heima.

Mér er minnistætt eftir árásina á tvíburaturnana í New York á sínum tíma að almenningur dró saman í neyslu með samsvarandi samdrætti, sem var farið að hafa alvarleg efnahagsleg áhrif. Viðbrögð stjórnvalda í kjölfarið vöktu þá athygli mína, því þau hófu áróður fyrir því að fólk yki verslun, með þjóðernislegum rökum.

Ég tel mjög mikilvægt að skilaboð stjórnvalda hér á landi til almennings séu á þeim nótum sem Erna Hauksdóttir leggur til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Að velja Íslenskar vörur já, en hvað er Íslenskt, sjáðu bara eins og þetta dæmi með ORA, sem ég hef alltaf haft trú á að Íslenskt væri, en svo hófst umræða um þetta þegar fyrrverandi framleiðslustjórinn sagði að meirihlutinn af vöru ORA væri innflutt, þannig að það er ekki allt sem sýnist í þessu.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 21.2.2009 kl. 22:59

2 identicon

Auðvita er aðalvandamálið í kreppu að fólk eyðir minna og kreppan hættir þegar fólk fer að eyða meiru aftur.

Gallinn núna er það er engin leið að skynja stöðuna.  Þarf ég að eiga sparnaðinn minn á morgun? Ég veit það ekki, svo ég ætla að eiga hann til vonar og vara og leggja það til hliðar sem ég get. 

Kenningar, sem áttu ekki upp á pallborðið hjá Sjálfstæðisflokknum, voru þær að í þennslu sé dregið úr framkvæmdum hins opinbera, og í þennslu séu framkvæmdir auknar. 

Þú, Sjálfstæðiskonan, getur þú svarað þessu:  Hvað þurfa einstaklingarnir í þjóðfélaginu að auka eyðslu sína mikið til þess að mæta samdráttaráhrifum af því sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að spara í ríkisútgjöldum eftir kosningar? 

Þú getur ekki bæði haldið og sleppt í þessari eyðsluhagfræði. - Hvort villtu, eigum við að spara í gegnum dýpri kreppu og styttri eða eigum við að eyða okkur í gegnum grynnri kreppu og lengri?

Bragi (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband