Of stór biti?
14.2.2009 | 17:10
Það hefur verið gott að vinna með Valgerði á þingi, þótt okkur hafi nú greint á um ýmislegt.
Það verður eftirsjá af svona reyndum stjórnmálamanni á þingi.
Miklar sviptingar eru hjá Framsókn þessi misserin. Á innan við þremur árum hefur reynslumikið fólk eins og Halldór Ásgrímsson, Hjálmar Árnason, Guðni Ágústsson, Jónína Bjartmars og Jón Kristjánsson hætt á Alþingi og nú hafa bæði Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson tilkynnt að þau muni ekki bjóða sig fram í þingkosningunum í vor. Þá er ónefndur Bjarni Harðarson, sem ekki einungis sagði af sér þingmennsku heldur sagði sig einnig úr flokknum í kjölfarið, auk Árna Magnússonar og Jóns Sigurðssonar, sem báðir áttu stuttan stjórnmálaferil.
Eftir stendur þingflokkur sem er ungur að reynslu, að Siv undanskilinni. Ungur maður, með engan bakgrunn í stjórnmálum gekk í flokkinn stuttu áður en hann var kjörinn formaður.
Af sjö þingmönnum flokksins í dag eru þrír á sínu fyrsta kjörtímabili og tveir að hætta. Reynsluboltarnir á næsta kjörtímabili verða því Siv og Birkir Jón sem tók sæti á Alþingi á árinu 2003, 23 ára að aldri, að því tilskyldu að þau nái áframhaldandi kjöri
Framsóknarmenn eru í eðli sínu íhaldssamir og vilja að breytingar gerist hægt. Þessi staða og fimm formenn á innan við 2 1/2 ári veit ég að er nokkuð stór biti fyrir marga þeirra. Hvernig þeim tekst að kyngja honum kemur í ljós í kosningunum í vor.
Valgerður ekki í framboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það ættu fleiri en Valgerður að sleppa framboði.
Ólafur I Hrólfsson
Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 17:17
Sammála þér Ólafur, vonandi að við fáum 63 NÝJA þingmenn í vor. Því það er greinilegt að "reynsla" hefur afar lítið að segja þegar til þingstarfa kemur þar skipta aðrir kostir meira máli sem "reynslumiklir" þingmenn virðast algjörlega týna eftir því sem "reynsla" þeirra við þingstörf eykst eins og dæmin sanna. Á meðan þjóðin sekkur dýpra og dýpra, bæði fjárhagslega og tilfinningalega þá láta 63 kjánar á alþingi eins og smábörn í sandkassaleik og rífast um hver er bestur og mestur. Ætla a.m.k. að vona að okkur sjálfstæðismönnum takist að endurnýja í sem flestum sætum.
Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 07:33
Haldið þið virkilega að það komi betra í staðinn.? Ég hef meiri trú á reynslu en menntun. Hinsvegar er eðlileg endurnýjun góð og gild,en bylting er eitthvað sem ég óttast.
Ragnar Gunnlaugsson, 15.2.2009 kl. 09:54
Ég vona það að fleiri stjórnmálaflokkar taki sér Framsóknarflokkinn til fyrirmyndar og losa sig við alla þá stjórnmálamenn sem þar starfa nú. Þeir hafa nú aldeilis sannað það að þeir réðu ekki við starfið og áttu aldrei að fara á þing.
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, 15.2.2009 kl. 13:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.