Endurgreiðsla vegna lyfjakostnaðar
4.5.2007 | 11:32
Í gær fjallaði ég um afsláttarkort. Hér mun ég fjalla um niðurgreiðslur ríkisins vegna lyfjakostnaðar og hvernig frekari öryggisnet eru byggð í kerfið þegar lyfjakostnaður hjá einstaklingum reynist hár. Sérstaklega fjalla ég um rétt elli- og örorkulífeyrisþega til niðurgreiðslu á lyfjum.
Ríkið greiðir stærstan hluta lyfjakostnaðar almennings, eins og í nágrannalöndum okkar og hefur Tryggingastofnun ríkisins á höndum það hlutverk að greiða niður lyf sjúkratryggðra einstaklinga.
Skipting á kostnaðir milli sjúklings og TR er mismunandi, eftir því um hvaða lyf er að ræða eða hvers eðlis sjúkdómurinn er. Þannig greiðir TR að fullu lyf sem sjúklingur þarf lífsnauðsynlega að halda og að staðaldri. Það á t.d. við um krabbameinslyf og sykursýkislyf.
Jafnframt greiða örorku- og ellilífeyrisþegar og börn með umönnunarmat lægra gjald en almennt gerist.
Niðurgreiðslur vegna lyfja er mismunandi og er flokkuð í 5 flokka. Ákveðin lyf greiðir TR að fullu eins og áður greindi og önnur lyf eru án greiðsluþátttöku TR, nema í sérstökum tilvikum. Greiðsluþátttaka í hinum þremur lyfjaflokkunum er mismunandi. Þannig greiða elli- og örorkulífeyrisþegar að lágmarki 200-600 krónur fyrir lyfjaskammt af tilteknum lyfjum sem falla undir þessa þrjá lyfjaflokka, en að hámarki 460-1375 krónur.
TR getur í ákveðnum tilvikum gefið út lyfjaskírteini sem eykur greiðsluþátttöku TR umfram það sem lyfjaflokkarnir gefa tilefni til eða jafnvel greiða þau að fullu. Fer það eftir ákveðnum reglum, sem hægt er að finna á heimasíðu TR, með þessum tengli: LYF Lyfjaskírteini eru gefin út þegar einstaklingur þarf að nota lyf um lengri tíma af brýnni nauðsyn, og TR greiðir ekki eða aðeins að hluta, eða viðkomandi notar mörg lyf eða er með alvarlegan sjúkdóm eins og t.d. parkinsonsjúkdóm eða krabbamein
Hér eru jafnframt sett frekari öryggisnet, því þeir einstaklingar sem hafa umtalsverðan kostnað vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar til TR og er þar tekið tillit til tekna fjölskyldunnar og heildarkostnað vegna heilbrigðisþjónustu.
Hægt er að sækja um endurgreiðslu tvö ár aftur í tímann.
Markmiðið með þessum niðurgreiðslum og öryggisnetum er að enginn sjúklingur eigi að þurfa að bera kostnað af lyfjum sem er honum ofviða.
Athugasemdir
Mig langar að koma með svar við commenti þínu Ásta hér fyrir neðan um fjölgun hjúkrunarnema. Ég veit það fullvel að hjúkrunarnemum hefur fjölgað, en það sjá það allir að það er ekki nóg, ég bendi þér á að kynna þér skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga en þar stendur"
að alls vanti nú 582 hjúkrunarfræðinga til að leysa úr skorti á hjúkrunarfræðingum til starfa. Skorturinn nær til sjúkrahúsa, heilsugæslu og hjúkrunarheimila og skortur á sjúkraliðum til starfa er ekki síður alvarlegt vandamál.
Hvernig ætlar þú að mæta þessum skorti með því að útskrifa bara fleiri hjúkrunarfræðinga. Ég útskrifast nú í vor og veit fyrir VÍST að það muni ekki allir úr mínum hópi fara að vinna við hjúkrun því fólk sættir sig hreinlega ekki við þessi móðgandi laun sem í boði eru!! Svo það að hafa farið með BHM í síðustu samninga var að mínu mati það versta sem FÍH gat gert en það kemur að sjálsögðu málinu ekki við. Málið er bara að þið frambjóðendur til alþingis verðið að kynna ykkur málin, lesa skýrsluna og bregðast við vandanum strax!!
Katrín hjúkrunarnemi (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 17:09
Sæl Ásta Möller. Sannleikurinn er sá að öryrkjar og ekkilífeyrisþegar á Íslandi eru svo aðþrengdir fjárhagslega að þeir geta ekki leyst út lyfin sín eða notið tannlæknisþjónustu tannlækna eða annara sérfræðinga innan heilbrigðisgeirans. Sjáðu sjálf ef launin þín lækkuðu um 5-600þúsund á mánuði hvaða heilbrigðisþjónustu hefðir þú efni á? Ef launin þín eftir skatta væru undir 100 þúsund krónur?
Ekki koma með útskýringar að hvergi í heiminum væri jafngott að vera fátækur og á Íslandi.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 4.5.2007 kl. 20:41
Sæl Katrín. Ég þekki þessa skýrslu mjög vel og skrifaði skýrslurnar um manneklu í hjúkrun frá árinu 1998 og 1999, þegar ég var formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum er mikil og hefur vaxið m.a. í fyrirtækjum utan opinbera heilbrigðiskerfisins. Síðan segja mér stjórnendur í hjúkrun að hjúkrunarfræðingar taki nú lengra fæðingarorlof en áður, en um 98% stéttarinnar eru konur. Þess vegna m.a. hefur lítið miðað að saxa á þennan skort á hjúkrunarfræðingum til starfa. Hann er hefur um langt árabil verið milli 10-20% m.v. stöðugildi. Það sem ég segi í athugasemdum mínum er að stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir sem munu leiða til fjölgunar hjúkrunarfræðinga á næstu árum. 1400 hjúkrunarfræðinga til viðbótar á næstu 10 árum.
Skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa er vandamál um allan heim. Þar hefur vandinn ekki síst verið lítil aðsókn í hjúkrunarnám. Hér á landi eru aftur á móti fleiri sem vilja í hjúkrunarnám, en námspláss segja til um. Sammála þér um launin, þau þurfa að hækka. Eyddi 10 árum ævi minnar í kjarabaráttu og aðra hagsmunabaráttu fyrir hjúkrunarfræðinga svo ég þekki málið vel!
Bendi þér síðan á grein sem ég sendi til Morgunblaðsins í dag og birtist einhvern næstu daga, en það er svar við grein formanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sjúkraliðafélags Íslands sem birtist í dag í Mogganum. Kv. Ásta M
Ásta Möller, 4.5.2007 kl. 20:52
Hvernig væri þá að nýta betur menntun sjúkralilða ?sem hafa mikið meiri menntun og þekkingu en þau störf sem þeir fá að vinna eða er það enþá þín skoðun eins og í löngu verkfallli sjúkraliða að þeir eigi bara að vinna á öldrunarsofnunum? ég er menntaður sjúkraliði og með míma menntun þá fékk ég mikið fjölbreitttari starf í svíþjóð en hér þ.e þar var mentun mín metin að verðleikum
Gunna-Polly, 4.5.2007 kl. 21:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.