Afsláttarkort
3.5.2007 | 16:50
Ég hef tekið út athugasemd sem sett var inn á bloggið hjá mér í dag, sem var meiðandi og meinfýsin.
Í athugasemdinni var hins vegar minnst á rétt einstaklinga sem hafa mikinn kostnað af heilbrigðisþjónustu, sem ég tel rétt að fjalla aðeins um.
Þegar tiltekinni upphæð er náð vegna kostnaðar í heilbrigðisþjónustu hefur sjúkratryggður rétt til að fá afsláttarkort skv. ákveðnum reglum. Þessi upphæð er 18 þúsund krónur á ári fyrir einstaklinga, 4500 fyrir elli- og örorkulífeyrisþega og fyrir öll börn í sömu fjölskyldu undir 18 ára aldri er upphæðin 6000.
Þetta má kalla öryggisnet, þegar fólk þarf að greiða mikið úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu. Með afsláttarkorti lækkar þessi greiðsla verulega.
Ég ákvað af þessu tilefni að setja hér inn á síðuna reglur TR um hámarksgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu og rétt til afsláttarkorta, en þær eru teknar af heimasíðu stofnunarinnar.
"Afsláttarkort Þegar ákveðinni hámarksgreiðslu er náð á einu almanaksári vegna læknis- eða rannsóknakostnaðar einstaklings eða allra barna í sömu fjölskyldu er hægt að sækja um afsláttarkort. Gegn framvísun þess er greitt lægra gjald.
Endurgreiðsla Þeir sem hafa orðið fyrir umtalsverðum læknis-, lyfja og þjálfunarkostnaði geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar að hluta gegn framvísun kvittana. Tekið er tillit til tekna auk útgjalda.
Þegar sjúkratryggðir einstaklingar hafa greitt tiltekna fjárhæð á sama almanaksári (frá janúar til desember) fyrir heilbrigðisþjónustu eiga þeir rétt á afsláttarkorti.
Árlegar greiðslur sem þarf að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu áður en afsláttarkort er útgefið eru eftirfarandi *: | Kr. á ári |
Einstaklingar | 18.000 |
Elli- og örorkulífeyrisþegar sem greiða lægra gjald fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu | 4.500 |
Öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu | 6.000 |
Afsláttarkortið er sent sjálfkrafa heim til þeirra sem ná hámarksgreiðslum ef upplýsingar um það eru til hjá Tryggingastofnun.
Tryggingastofnun berast upplýsingar frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem eru með samning við Tryggingastofnun um flestar greiðslur sjúklinga fyrir þjónustu þeirra.
Bent er á að rétt er að geyma allar kvittanir því upplýsingar sem TR hefur að byggja á eru takmarkaðar.
Tryggingastofnun berast ekki upplýsingar frá heimilis- og heilsugæslulæknum eða sjúkrahúsum. Þessum gögnum þarf fólk eftir sem áður að safna saman og senda til þjónustumiðstöðvar eða til umboða Tryggingastofnunar til að fá afsláttarkortið.
Endurgreiðslur verða lagðar beint inn á bankareikninga einstaklinga.
Greiðslur fyrir eftirtalda þjónustu gilda upp í afsláttarkort:
- komur á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis
- vitjanir lækna
- komur á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa
- komur til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa
- komur til sérfræðilækna á göngudeild sjúkrahúsa
- rannsóknir á rannsóknastofum
- geisla- og myndgreininga og beinþéttnimælinga
- sérfræðiviðtöl hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
Reikningar frá hjartalæknum gilda einnig upp í afsláttarkort ef sjúklingar hafa fengið tilvísun frá heimilislækni.
Kostnaður vegna þjálfunar, lyfja, tannlækninga o.fl. er hins vegar ekki tekinn með inn í hámarksupphæðina og veitir ekki rétt til afsláttarkorts.
Tryggingastofnun berast almennt reikningar frá læknum í lok hvers mánaðar.
Þeir sem hafa náð hámarksfjárhæð fyrr geta sent reikninga til Tryggingastofnunar og fengið kortið sent."
Hér er síðan tengill á frekari upplýsingar um upphæðir sem fólk greiðir eftir að hámarksupphæð er náð afsláttarkort
Athugasemdir
Ásta Möller.....hvernig geturðu horft framhjá því hverni þessi einsatklingur eigi að lifa og framfleyta sér á þessum fáu krónum sem koma í hans hlut??? Eftir allt? Og hvernig virkar sytemo sem lætur sjúklingana fara heim til að koma svo aftur daginn eftir svo þeir megi greiða gjöldin af rannsóknunum? Á foreldra sem eru st0ðugt að lenda í þessari gildru sem öryrkjar. Og hafa ekki aðgengi að túlkum vegna fötlunar sinnar eða aðgengi að öllum venjulegum upplýsingum þar sem ekki hefur fengist fjarmagn fyrir að texta það sem þau þurfa að vita í gegnum fjölmiðla. Eru algerlaga a hliðarlínunni. Ég hef séð um það síðan ég var barn að sjá þeim fyrir þeim upplysingum.....og túlka fyrir þeim réttindin sem eru engin. Enda ekki til fjármagn fyrir þeirra mannréttindum í velferðinni allri. Skömm skuluð þið hafa.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.5.2007 kl. 22:58
Vegna athugasemda frá Guðmundi Jónssyni hér á undan tek ég fram að ég áskil mér rétt að taka út athugasemdir á bloggsíðu minni sem eru meiðandi og illkvittnar eða fara út fyrir velsæmi eða vísa á slíkar síður.
Að öðru leyti vísa ég til nýjustu færslu minnar hér á síðunni um endurgreiðslur vegna lyfjakostnaðar.
Ásta M
Ásta Möller, 4.5.2007 kl. 11:55
Ásta ég myndi nú ekki skoða þetta sem meiðingu.Þetta eru orð frá langveikum og langþreyttum og reiðum þjóðfélagsþegn.Horfðu á orðin sem hlutlaus manneskja en ekki stjórnmálamaður(manneskjan sem orðin beinast að) settu þig í spor þessa manns sem því miður er ekkert einsdæmi um veikan mann sem er að gefast upp.Málið er nefnilega ekki bara sjúkleiki hans.Hann á konu,börn,barnabörn og trúlega eins og allflestir skuldugt hús,,,,, en svona þér að segja þá er það ekki tekið út með sitjandi sældinni að ver sjúklingur á íslandi.Og það er það sem okkur kjósendum sárnar svo allt þetta tal um tölur,skoðanakannanir,skipa í nefnd til að skipa í aðra nefnd,hvernig vinna megi að hinu og þessu.Auðvita veit ég að mörgu er að hyggja.En er ekki báknið í kringum allt orðið hvað öðru til trafala.Stundum finnst mér þetta allt vera orðið grautur og þvæla.Hlutirnir gerðir seint og illa.
Solla Guðjóns, 4.5.2007 kl. 19:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.