Umræða um launaleynd
18.4.2007 | 10:58
Upp á síðkastið hefur ákvæði í frumvarpi til jafnréttislaga sem lagt var fram til kynningar rétt fyrir þinglok verið í umræðunni. Það varðar upplýsingagjöf um laun og starfskjör starfsmanna, oft tengt hugtakinu launaleynd. Þess má geta að frumvarpið var samið af nefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fv. hæstaréttardómara og áttu stjórnmálaflokkarnir hver sinn fulltrúa í nefndinni. Nefndin komst að samhljóða niðurstöðu, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins setti nokkra fyrirvara um ákveðin atriði.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni var Bjarni Benediktsson, alþingismaður, en ég var varamaður hans í nefndinni.
Því hefur verið haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sett sig upp á móti ákvæði er varðar upplýsingagjöf um launakjör. Það er ekki rétt. Fyrirvarar Bjarna Benediktssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um frumvarpið vörðuðu ekki þetta atriði.
Ákvæðið sem samkomulag var um meðal nefndarmanna er eftirfarandi og er í 17. gr. frumvarpsins:
" Atvinnurekanda er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör."
Skv. ákvæðinu er launamanni heimilt hvenær sem er að veita þriðja aðila upplýsingar um starfskjör sín. Hvorki honum né atvinnurekanda er heimilt að undirrita ráðningarsamning sem gera starfsmanni skylt að leyna kjörum sínum. Starfsmanni er hins vegar í sjálfsvald sett hvort hann upplýsir þau eða heldur þeim fyrir sig.
Ákvæðið snýst þannig ekki um að banna launaleynd, heldur er það sett í hendur starfsmanns hvort hann vilji upplýsa þau.
Um þetta voru fulltrúar allra flokka á þingi sammála í nefndinni.
Það er því rangt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhverja sérstöðu hvað varðar þetta ákvæði frumvarpsins.
Það er hins vegar afar jákvætt framtak og fagnaðarefni að félagsmálaráðherra kynnti í vikunni nokkurs konar "vottunarkerfi" jafnlauna, þar sem það er gert eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að fá vottun um að það fyrirtæki mismuni ekki kynjum í starfskjörum. Það er hin rétta nálgun og fær félagsmálaráðherra hrós fyrir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.