Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9-10 sjálfstæðiskonur á leið inn á þing!
6.4.2007 | 19:27
Sjálfstæðisflokkurinn er með rúm 40% atkvæða, sem þýðir 27 sjálfstæðismenn á þing, þar af 9-10 konur. Framsóknarflokkurinn er með um 8% fylgi og fimm menn á þing, þannig að núverandi ríkisstjórn hefur enn meirihlutastuðning hjá þjóðinni. Því skal haldið til haga.
Fylgi VG fer niður á við, eins var búist við -og þó fyrr hefði verið - er með um 21% fylgi. Samfylkingin með 19,5%, sem er á sama róli og í skoðanakönnunum undanfarnar vikur.
Það merkilega er að samanlagt fylgi VG og Samfylkingar er nákvæmlega það sama og í síðustu kosningum, en þá var Samfylkingin með 31% og VG með um 9%. Þeir eru samanlagt jafnstórir Sjálfstæðisflokknum einum. Þetta fylgi dugar þó ekki vinstri flokkunum til að mynda "kaffibandalagið" svokallaða, því frjálslyndir eru skv. könnuninni rétt að merja 3 menn á þing og það tæplega. Með Framsókn innanborðs væru þeir með nauman meirihluta 33 þingmenn. Ekki spennandi kostur það. Það verður engin tveggja flokka stjórn mynduð eftir kosningar án Sjálfstæðisflokksins, ef þessi skoðanakönnun gengur eftir.
Skoðanakönnun Stöðvar 2 fyrir Norðausturkjördæmi sem var birt í vikunni er einnig merkileg fyrir þær sakir að Steingrímur er að tapa fylgi kvenna til Íslandshreyfingarinnar. 10% kvenna í NA-kjördæmi og 2.2% karla styðja þessa nýju hreyfingu, þrátt fyrir að enginn listi liggur fyrir í kjördæminu! Er Steingrímur að missa "mojo-ið" meðal kvenna?
Þessar fylgistölur þýða að það fara 9-10 sjálfstæðiskonur á þing eftir kosningarnar í vor og konur þannig þriðjungur þingflokksins eða ríflega það. Það er vert að vekja athygli á þessu. Til samanburðar má benda á að skv. skoðanakönnunum mun fylgi Samfylkingarinnar gefa þeim 13 þingmenn, þar af 3 konur. Það hljóta að teljast tíðindi hjá flokki, sem hefur fram til þessa stært sig af stöðu kvenna innan flokksins.
Heimasíða: www.astamoller.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.4.2007 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vanrækslusyndir
5.4.2007 | 12:45
Ekki fyrr voru þeir búnir að fordæma notkun heilbrigðisráðherra á framkvæmdasjóði aldraðra í auglýsingu í blöðunum þegar fulltrúar Landssambands eldri borgara báðu ráðherrar afsökunar á að hafa haft hann fyrir rangri sök. Feilskot!
Í auglýsingu í blöðum í gær, standa síðan svilkonan og svilinn keik og lofa fyrir hönd Samfylkingarinnar 400 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu 18 mánuðum. Vanrækslusynd!?
Í grein sem ég setti á heimasíðuna mína í gær www.astamoller.is og birtist í fréttabréfi hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í hverfum austan Elliðaár sem er dreift nú í dymbilvikunni fjalla ég m.a. um ábyrgð R-listans á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík.
Þar segi ég m.a.: "Þótt ríkið taki þátt í kostnaði við uppbyggingu öldrunarstofnana og greiðir stóran hluta af rekstrarkostnaði þeirra, er það á ábyrgð sveitarfélaga að meta þörf fyrir hjúkrunarrými. Þar liggja upplýsingar um þarfir íbúa fyrir samfélagslega þjónustu á hverjum tíma. Þessa ábyrgð hafa sveitarfélög á landsbyggðinni axlað, en það er ljóst að R-listinn sofnaði á verðinum í þau 12 ár sem hann sat við stjórnvölinn í Reykjavík. Það er fyrst nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við forystutaumum í borginni sem rofar til í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera umhugsunarefni."
Ég segi einnig eftirfarandi í greininni: "Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið tíðrætt um svokallaðar "vanrækslusyndir" sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Í því sambandi hlýt ég að spyrja um vanrækslusyndir R-listans vegna uppsafnaðs skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík".
Ekki var gengið í verkefnið þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri í Reykjavík. Mundi þetta ekki flokkast undir dæmigerða "vanrækslusynd". Já, seinheppni Samfylkingarinnar ríður ekki við einteyming!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)