9-10 sjálfstæðiskonur á leið inn á þing!

 Við sjálfstæðismenn erum kátir yfir nýjustu Gallup könnuninni sem var birt í Morgunblaðinu í gær.  Ánægjuleg staða þegar kosningabaráttan er að hefja lokasprettinn eftir páska.

Sjálfstæðisflokkurinn er með rúm 40% atkvæða, sem þýðir 27 sjálfstæðismenn á þing, þar af 9-10 konur.     Framsóknarflokkurinn er með um 8% fylgi og fimm menn á þing, þannig að núverandi ríkisstjórn hefur enn meirihlutastuðning hjá þjóðinni. Því skal haldið til haga.  

Fylgi VG fer niður á við, eins var búist við -og þó fyrr hefði verið - er með um 21% fylgi.  Samfylkingin með 19,5%, sem er á sama róli og í skoðanakönnunum undanfarnar vikur.    

Það merkilega er að samanlagt fylgi VG og Samfylkingar er nákvæmlega það sama og í síðustu kosningum, en þá var Samfylkingin með 31% og VG með um 9%.  Þeir eru samanlagt jafnstórir Sjálfstæðisflokknum einum.   Þetta fylgi dugar þó ekki vinstri flokkunum til að mynda "kaffibandalagið" svokallaða, því frjálslyndir eru skv. könnuninni rétt að merja 3 menn á þing og það tæplega.   Með Framsókn innanborðs væru þeir með nauman meirihluta 33 þingmenn.  Ekki spennandi kostur það.  Það verður engin tveggja flokka stjórn mynduð eftir kosningar án Sjálfstæðisflokksins, ef þessi skoðanakönnun gengur eftir.  

Skoðanakönnun Stöðvar 2 fyrir Norðausturkjördæmi sem var birt í vikunni er einnig merkileg fyrir þær sakir að Steingrímur er að tapa fylgi kvenna til Íslandshreyfingarinnar.  10% kvenna í NA-kjördæmi og 2.2% karla styðja þessa nýju hreyfingu, þrátt fyrir að enginn listi liggur fyrir í kjördæminu!  Er Steingrímur að missa "mojo-ið" meðal kvenna?

Þessar fylgistölur þýða að það fara 9-10 sjálfstæðiskonur á þing eftir kosningarnar í vor og konur þannig þriðjungur þingflokksins eða ríflega það.   Það er vert að vekja athygli á þessu.  Til samanburðar má benda á að skv. skoðanakönnunum mun fylgi Samfylkingarinnar gefa þeim 13 þingmenn, þar af 3 konur.   Það hljóta að teljast tíðindi hjá flokki, sem hefur fram til þessa stært sig af stöðu kvenna innan flokksins.   

Heimasíða:  www.astamoller.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Til hamingju konur.

Sigfús Sigurþórsson., 6.4.2007 kl. 19:33

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Velkomin í moggabloggkommúnuna Ásta! En ertu virkilega kát yfir því að aðeins þriðjungur þingmanna D-listans verði konur? Auðvitað fær Sjálfstæðisflokkurinn aldrei 40% í kosningum og sennilega verður hlutfall kvenna á þingi fyrir flokkinn enn lægra en þriðjungur, sorglegt. Enda ætla konur ekki að kjósa íhaldið, þær kjósa Vinstri græn :) Þú getur verið ánægð með það. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 6.4.2007 kl. 19:48

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er gott að láta sig dreyma. Njóttu stundarinnar!

Haukur Nikulásson, 6.4.2007 kl. 21:38

4 Smámynd: Ólafur Als

Sæl Ásta,

nú er um að gera að spýta í lófana og stefna að því að vinna hug frjálslyndra kvenna í auknari mæli en kannanir sýna. Það er til mikils að vinna, því öflugur Sjálfstæðisflokkur er eina vörnin gagnvart gerræði og afturhaldi Vg. Gangi ykkur vel á næstu vikum.

Gleðilega páska,

Ólafur Als, 6.4.2007 kl. 23:42

5 Smámynd: Ásta Möller

Þakka góðar kveðjur. 

Hallur!  Minni þig á að í kosningunum 1999 fékk flokkurinn yfir 40% á landsvísu, svo haltu þér!  Mér sýnist nú konur í þínu kjördæmi vera að flytja sig frá einum skallanum á annan, frá Steingrími til hins sjarmatröllsins Ómars!  10% kvenna í kjördæminu styðja Íslandshreyfinguna að mestu á kostnað VG.  Það segir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sóknarfæri meðal kvenna í kjördæminu.  

Skv. skoðanakönnunum erum við með 3 menn inni og stutt í þann fjórða.   Þetta eru þau Kristján Þ. Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson er fjórði maður inn.  Gott hlutfall kynja og sérlega hæfir frambjóðendur.  Til viðbótar get ég glatt þig með því að það dugir 36% fylgi með þeirri dreifingu sem við höfum séð undanfarið, til að færa okkur 9 sjálfstæðiskonur á þing og 15-16 karla... og reiknaðu nú.

Óli Als!   Gaman að heyra frá þér og ég er sammála þér, sem fyrr! 

 Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur tryggt farsæld og aukna hagsæld fjölskyldunnar til langframa. Það sýna m.a. tölur um að kaupmáttur launa fjölskyldunnar hefur aukist um tugi prósenta á síðustu árum undir forystu Sjálfstæðismanna.  VG er hreinn vinstri flokkur, þótt hann hjúpi sig grænni skykkju, sem hefur villt um fyrir fólki.  Hreinn vinstri flokkur sem hækkar skatta, fer illa með opinbert fé, hneppir atvinnulíf í ríkisfjötra, eykur verðbólgu og allt hefur þetta áhrif á afkomu fjölskyldunnar til hins verra. Treystir einhver VG í ríkisfjármálum?  Fólk er búið að gleyma hvernig vinstri menn stjórna í landsmálum.  Það þarf að varast vinstri slysin!

 Gleðilega páska!  Ásta M 

Ásta Möller, 7.4.2007 kl. 10:23

6 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Hressileg lesning svona í morgunsárið Ásta, ég spái 40+... 

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.4.2007 kl. 11:06

7 Smámynd: Hlynur Hallsson

Hva, Ásta ertu að tala við pabba minn? Ég heiti Hlynur en er vissulega Hallsson!) Er ekki líka sérstaklega gott hlutfall milli kynja í NV og Suðurkjördæmi hjá íhaldinu? Þrír þreyttir karlar í efstu sætunum á báðum listum, húrra fyrir jafnræéttinu hjá flokknum þínum, eða þannig :) Auðvitað treystir fólk Vinstri grænum fyrir fjármálunum enda skynsamt fólk og jafnréttissinnað. Hlífðu okkur nú við hræsluáróðrinum Ásta, hann er svo þvældur. Svo bið ég þig vel að lifa og mundu nú að ég heiti Hlynur :)

Hlynur Hallsson, 7.4.2007 kl. 14:43

8 Smámynd: Ásta Möller

Fyrirgefðu Hlynur.  Auðvitað var ég að netspjalla við þig og engan annan!  Ekki auðvelt að gleyma þér!

Enginn hræðsluáróður í gangi, bara sögulegar staðreyndir, sannreyndar af fræðimönnum.  Ég skrifaði grein fyrir kosningar í febrúar 2003 undir yfirskriftinni "Ávísun á verðbólgu og hærri skatta", sem má nálgast á heimasíðunni minni. www.astamoller.is.  Tengill á greinina er hér: http://astamoller.is/grein.php?id_grein=153&b=1

 Þar segir ég m.a., eftirfarandi:

"Í bókinni "Frá kreppu til viðreisnar - Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930-1960", sem kom út á síðasta ári í ritstjórn Jónasar H. Haralz, ritar Þórunn Klemensdóttir grein um "Pólítískar hagsveiflur á Íslandi 1945-1998". Þar greinir hún m.a. pólítísk áhrif hægri stjórna annars vegar og vinstri stjórna hins vegar á helstu kennitölur efnahagsstjórnunar hér á landi. Skv. skilgreiningu hennar eru hægri stjórnir þær sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Aðrar teljast vera vinstri stjórnir.

Í grein Þórunnar kemur m.a. fram að á umræddu árabili er verðbólga umtalsvert hærri í tíð vinstri stjórna eða 24,5% að meðaltali í samanburði við 15,1% þegar hægri stjórnir eru við völd. Frá 1998 hefur þetta meðaltal lækkað enn. Þá er greinilegur munur á útgjaldaaukningu ríkisins eftir hvernig stjórn er við völd eða 11.2% að meðaltali á ári hverju í tíð vinstri stjórna til samanburðar við 3,3% útgjaldaaukningu á ári í tíð hægri stjórna.

Að sömu niðurstöðu kemst Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, í bók sinni "Úr digrum sjóði - fjárlagagerð á Íslandi" sem gefin var út 1999. Þar segir hann m.a. "að hægri stjórnir séu aðhaldssamari í fjármálum ríkisins en aðrar og að vinstri stjórnir eyði meiru." Sérstaklega er bent á að útgjöld drógust saman þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn, en þau jukust þegar Alþýðubandalagið var við stjórn. Fylgismenn Alþýðubandalagsins sáluga eru nú klofnir í tvo flokka, Samfylkinguna og Vinstri græna. "

 Hér er enginn hræðsluáróður á ferð, bara staðreyndir!

Kær kveðja, kæri Hlynur! 

 Ásta M

Framangreindir sérfræðingar í hagfræði og stjórnmálafræði hafa með athugunum sínum á tengslum stjórnarmunsturs annars vegar og verðbólgu og útgjaldaaukningar ríkisins hins vegar komist að álíka niðurstöðu: Hægri stjórnir eru hæfari, en vinstri stjórnir í stjórnun efnahagsmála.

Ásta Möller, 7.4.2007 kl. 16:11

9 Smámynd: Hlynur Hallsson

Hagstjórn hægrimanna:

- Íslandsmet í viðskiptahalla

- Verðbólga 7-8%

- Vextir þeir hæstu í Evrópu (og þótt víðar væri leitað)

- Matvælaverð ennþá alltof hátt

Þetta er hagstjórnin Í DAG Ásta og aðvitað væri hægt að hafa listann mun lengri. Það er alltaf gott að vitna í ritgerðir hægrimanna til að staðfesta eigin ágæti í fortíðinni en var það ekki vinstristjórn sem náði tökum á óðaverðbólgu Sjálfstæðisflokksins? Hagstjórn Vinstri grænna verður allt annað líf með réttlæti, velferð og aðhaldssemi í fyrirrúmi. Gleðilega páska og bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 8.4.2007 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband