Staðan að loknum landsfundi

Kraftmiklum landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk í gær. 

Forysta flokksins, Geir og Þorgerður Katrín, fékk óskoraðan stuðning landsfundarfulltrúa í kosningu til formanns og varaformanns, en á landsfundi eru þannig séð allir í kjöri til þessara embætta.  Forystan er sterkari og einbeittari fyrir bragðið í kosningabaráttunni framundan.  Samanburðurinn við Samfylkinguna, þar sem landsfundurinn veitti forystunni áframhaldandi umboð án kosninga, hlýtur að vera óþægilegur fyrir Samfylkinguna, ekki síst í ljósi augljósrar óánægju innan flokksins með stöðu hans.  Það veikir Samfylkinguna enn frekar.

Nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Andri Óttarsson, stóðst fyrstu prófraun sína, með miklum glæsibrag.  Umbúnaður og skipulag landsfundarins var til fyrirmyndar, enginn blettur þar á.   Ný og breytt Laugardalshöll með sínum mörgu fundaherbergjum gerði það að verkum að nefndarstarf var á svæðinu, en ekki vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið eins og áður.  Þetta breytti miklu og jók ánægju fólks.  Um leið var hægt að hafa meiri yfirsýn yfir starfið og auðveldaði fólki að fara á milli málefnafunda, ef svo bar við.   

Ég einbeitti mér að málefnanefndum um velferðarmál og málefni aldraðra.  Umræðan var fyrsta flokks og leiddi til mjög góðrar niðurstöðu.  Velferðarmálin eru á oddinum og stefnan skýr.

Sérstaka athygli vakti á fundinum hve hlutur kvenna í störfum landsfundar var stór.   Þær voru mjög virkar í umræðu um ályktanir fundarins og sennilega voru þær þar í meirihluta meðal ræðumanna, eins og á síðasta landsfundi.   Í kosningum til miðstjórnar buðu sig fram 12 konur og 13 karlar í ellefu sæti.   8 konur náðu kjöri og 3 karlar.   Landssamband sjálfstæðiskvenna, sem ég er í forsvari fyrir, útbjó og dreifði á fundinum plakati með myndum og upplýsingum um kvenframbjóðendur.  Það hefur örugglega haft sín áhrif á niðurstöðuna, hve vel þær voru kynntar. Allar eru þetta reynsluríkar konur í störfum fyrir flokkinn. Tvær þeirra eru starfandi sveitarstjórar og leiddu flokkinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum, þær Unnur Brá Konráðsdóttir og Eyrún Sigþórsdóttir.  Erla Ósk Ásgeirsdóttir núverandi formaður Heimdallar og Áslaug Friðriksdóttir formaður Hvatar voru kosnar, auk Elínbjargar Magnúsdóttur, Þórunnar Helgu Hauksdóttur, Helgu Þorbergsdóttur og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.  Þessar konur hafa verið eða eru kjörnir fulltrúar eða varafulltrúar í sveitarstjórnum og /eða á listum til alþingiskosninga fyrir flokkinn.   Flottur hópur og sóma þeir karlarnir Kjartan Gunnarsson, Vilhjálmur borgarstjóri og Örvar skipstjóri sér vel í þeirra félagsskap! 

Heiti potturinn í Árbæjarlauginni á morgnana er oft ágætur barómeter á umræðuna.  Þar eru oft skiptar skoðanir og hart deilt um menn og málefni.  Í morgun tóku margir það upp við mig hve þeir voru ánægðir með Geir.  Yfirvegun hans, öryggi og vingjarnleiki.  Traust og velvild.   Góð blanda af ábyrgum landsföður og góðum gaur! 

Sjálfstæðismenn fara vel nestaðir í baráttuna framundan með frísklega forystu, sterka málefnalega stöðu og ekki skemmir að finna meðbyr! 


Tilviljun eða hvað?

Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á miðstjórnarfund s.l.  haust að landsfundur flokksins yrði haldinn dagana 12.-15. apríl 2007 og tilkynnti það opinberlega.  Margt löngu seinna ákvað Samfylkingin að hafa sitt landsþing á sömu helgi.

Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu fram í auglýsingu í blöðum um hálfum mánuði fyrir landsfund  þar sem flokksmenn voru boðnir velkomnir á fundinn.  Um það bil viku seinna birtist sams konar auglýsing í blöðunum, en nokkru minni,  með formanni og varaformanni Samfylkingarinnar.

Í gær, á opnunarhátíð landsfundar Sjálfstæðisflokksins, komu frambjóðendur fram á sviðinu  til  að sýna öflugan hóp að baki forystu sinni. Það var áhrifamikið atriði.  Við biðum spennt eftir því hvort Samfylkingin myndi herma þetta atriði eftir okkur!  Viti menn, það gerðist, ég sá það í fréttum sjónvarpsins í kvöld.  Hersing frambjóðenda Samfylkingar á sviðinu að baki forystu flokksins! 

Tilviljun eða hvað?

P.s. Svo mátti af ræðu formanns Samfylkingarinnar ráða að helstu keppinautur flokksins væru litlu flokkarinar sem stælu fylgi af þeim.   Atkvæðin sem dyttu niður dauð.  Nú er Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur helsti keppinauturinn um fylgi, heldur litlu sérmálaflokkarnir!


Hagstjórnarmistök, hvað?

Opnunarhátíð landsfundar Sjálfstæðisflokksins var með eindæmum glæsileg.  Konur sem ég hitti á vel heppnuðum kvennakvöldverði Landsambands sjálfstæðiskvenna í gærkvöldi sögðu að þær hefðu fengið "gæsahúð" af hrifningu þegar tjaldið var dregið frá eftir tónlistaratriðið og frambjóðendur flokksins til alþingiskosninga stigu fram á sviðið með formann og varaformann í fararbroddi.  Glæsilegur hópur og til alls vís til góðra verka!   Þá sýndi samspil formanns og varaformanns á opnunarhátíðinni hvernig ný forysta hefur breytt stíl flokksins. 

Ræðu formannsins var vel tekið, enda innihaldsrík og beitt. 

Það voru sérstaklega tveir hápunktar í ræðu Geirs, sem ég var sérstaklega ánægð með.

Eftir að hafa farir nokkrum orðum um meintan aukinn ójöfnuð í samfélaginu og aukna fátækt sem vinstri menn hafa haldið á lofti og bálbiljur um að skattaækkanir síðustu ára hafi í raun verið skatthækkanir tók Geir á nýjustu kosningabrellu Samfylkingarinnar um meint hagstjórnarmistök  og jarðaði hana, þegar hann sagði:

" Er 60% kaupmáttaraukning almennings frá 1995 ,,hagstjórnarmistök”? Er stórfelld niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs ,,hagstjórnarmistök”? Er full atvinna ,,hagstjórnarmistök”? Er 4,5 % hagvöxtur á ári að meðaltali ,,hagstjórnarmistök”? En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim"

Já, hagstjórnarmistök, hvað?

Hinn hápunkturinn var um málefni aldraðra og öryrkja.

Þar kynnti Geir kosningaloforð flokksins um bættan hag þessara hópa.  Þessar tillögur eru svör við helstu áherslum ekki síst eldri borgara síðustu mánuði um að bæta sérstaklega kjör þeirra öldruðu sem búa við lægst kjör og að aldraðir sem vilja og geta unnið, geti bætt hag sinn með launavinnu, án þess að lifeyrir almannatrygginga skerðist.   Tillögurnar gera ráð fyrir að 70 ára og eldri geti unnið að vild, án þess að það hafi áhrif á lífeyri.  Einföld og skýr skilaboð.   Þá tilkynnti hann um að skerðingar á bótum lækki úr um 40% í 35% og um að ríkið tryggði öllum lágmarkslífeyri frá lífeyrissjóði t.d. 25 þúsund krónur á mánuði til hliðar við lifeyri almannatrygginga.  Þetta eru stór skref og þegar þau eru sett í samhengi við þær breytingar á minnkum tekjutenginga milli maka sem lögfestar voru í desember sl. má ljóst vera að í mikið hefur verið lagt í að mæta kröfum eldra fólks um breytingar á kjörum sínum. 

Við mótum þessarra tillagna áttum við nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins krefjandi en gefandi samstarf við fulltrúa Landssambands eldri borgara og Samtök eldri sjálfstæðismanna um nokkurra vikna skeið, sem er ánægjulegt að skilaði árangri eins og kom fram í ræðu formannsins   Auk mín voru Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur Blöndal og Einar Oddur Kristjánsson í þessum samstarfshópi. 

 

 

 

 


Hvaða skó?

Stjórnmálakonur hafa ekki haft sama aðgang að fjölmiðlum og karlar. Rannsóknir á Íslandi frá 2000 og 2005 hafa leitt í ljós að konur eru um 30% viðmælenda í fjölmiðlum. Rannsókn sem gerð var í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 sýndi að konur voru 24% viðmælenda í spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi.  Þessar tölur endurspegla ekki stjórnmálaþátttöku kvenna.

Stundum þegar stjórnmálakonur hafa tekið þátt í umræðuþætti í sjónvarpi hafa viðbrögð við framgöngu þeirra oft beinst fremur að klæðaburði, en málefnalegri frammistöðu.  Ég held að allar stjórnmálakonur hafi slikar sögur að segja.  Sumir halda því fram að meiri kröfur séu gerðar til kvenna um útlit og klæðaburð, en til karla. 

Í þessu sambandi er vert að vekja áhuga á fyrirlestri undir heitinu. " Hvar fékk hún þessa skó - Stjórnmálakonur sem fréttaefni."  sem haldinn verður í hádeginu á morgun í Norræna húsinu. Fyrirlesarinn er Karen Ross sem er prófessor í fjölmiðlafræðum og hefur skrifað fjölda bóka m.a. um þetta viðfangsefni.  Í auglýsingu um fyrirlesturinn segir að hún muni m.a. ræða eftirfarandi spurningar:

Hvernig er umfjöllun fjölmiðla um stjórnmálakonur? Hvaða aðferðum beita fjölmiðlar? Hvaða orð eru notuð og hvernig myndir eru sýndar þegar fjallað er um konur í stjórnmálum? Er fremur fjallað um þær sem konur en sem þátttakendur í stjórnmálum í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra? Hvaða aðferðum geta stjórnmálakonur nýtt sér gagnvart áhugalausum eða jafnvel fjandsamlegum  fjölmiðlum? Eru fjölmiðlar að taka sér sífellt meira vald við að túlka stjórnmál og móta  skoðanir (þar á meðal um konur) í stað þess að vera hlutlausir, réttlátir og upplýsandi? Hvað þarf að gera til að bæta umfjöllun um stjórnmálakonur og pólitísk ferli yfirhöfuð þannig að konur sem aðrir njóti sannmælis?

Fyrirlesturinn er á vegum Blaðamannafélags Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ.

Nú er bara að taka fram skóna og mæta!


Fréttablaðið hleypur á sig

Fréttablaðið hljóp á sig á síðasta laugardag í umfjöllun um meint svikin kosningaloforð Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins frá síðustu kosningum.

Til grundvallar voru landsfundarályktanir flokkanna. 

Af handahófi voru teknar nokkrar setningar héðan og þaðan úr landsfundarályktunum og metið hvort á viðkomandi áhersluefni hefði verið tekið á kjörtímabilinu.  Þar voru m.a. tekin atiði, sem ekki eru á valdi ríkisstjórnarinnar að ákveða.   Það á t.d. við um "stórlækka fasteignagjöld  eldri borgara" sem má finna í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins.  Ákvörðun fasteignagjalda er á höndum sveitarfélaga og því augljóslega ekki um áhersluatriði alþingiskosninga.  

Landsfundarályktanir fjalla þannig um stjórnmálalegar áherslur þvert á stjórnsýslustig og eru ekki kosningaloforð til einna kosninga.  Því skal hins vegar haldið til haga að ríkisstjórnin felldi niður eignaskatta á íbúðarhúsnæði á kjörtímabilinu, sem er mikil kjarabót fyrir eldri borgara, en um og yfir 90% þeirra búa í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði, sem skatturinn lagðist af þunga á.   

Með fullri virðingu fyrir landsfundarályktunum, þá eru þær sem sagt ekki kosningaloforð. 

Landsfundarályktanir eru stefnuskrár flokkanna unnar af grasrótinni.  Í þeim má finna margar frábærar hugmyndir og nýjungar, sem getur tekið mislangan tíma að hrinda í framkvæmd.   Ályktun um niðurfellingu eignaskatts mátti t.d. finna í landsfundarályktunum flokksins um nokkurt skeið, áður en svigrúm skapaðist til að láta það verða að veruleika.

Nú hlýtur Fréttablaðið er einhenda sér í að skoða raunverulega stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og sýna lesendum sínum svart á hvítu að Sjálfstæðisflokkurinn stendur við sín loforð.

 


Lífeyrir er ekki tvískattaður

Það er rangt að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum sé tvískattaður. Þessu er m.a. haldið fram í leiðara Blaðsins í dag og þetta var fullyrt af formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi á annan í páskum.

Í leiðara Blaðsins í dag segir m.a. eftirfarandi: "Þetta fólk ( þ.e. aldraðir, innskot ám ) greiddi skatta af lífeyrissjóðsgreiðslum meðan það var á vinnumarkaði og gerir það aftur nú þegar það fær þennan lögskipaða sparnað borgaðan út. Það er ósanngjarnt."  Ég get tekið undir þetta, ef það væri rétt, en svo er ekki .  Það verður heldur ekki réttara þó það sé síendurtekið. 

Sem regla hafa iðgjöld til lífeyrissjóða verið frádráttarbær frá skatti.  Iðgjaldahluti fyrirtækja sem hefur verið og er á bilinu 6-11,5% hefur alltaf verið dreginn frá skatti eins og annar launakostnaður.  Iðgjaldahluti launþega í samtryggingu lífeyrissjóðanna sem löngum hefur verið 4%, hefur verið undanþeginn tekjuskatti, að undanskildu 7 ára tímabili frá 1988 til ársins 1995.  Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp á árinu 1988 var persónuafsláttur hækkaður verulega og inn í hann voru m.a.. felldir þættir eins og iðgjald í lífeyrissjóð og vaxtagjöld.  Frá árinu 1995 var fyrra kerfi tekið upp og iðgjald launþega var dregið frá tekjum fyrir skatt.

Því er það rangt sem Blaðið heldur fram í dag og hefur verið fullyrt af mörgum við ólík tækifæri að lífeyrisgreiðslur séu tvískattaðar.  Það er einnig á mörkunum að fullyrða á þessu sjö ára tímabili hafi verið um tvísköttun að ræða, því kerfisbreytingin var þess eðlis.   


Vandræðagangur frjálslyndra

Þegar ég horfði á Kastljósið í gærkvöldi undraði ég mig á vandræðaganginum í Guðjóni A Kristjánssyni í umræðunni um málefni innflytjenda.  Hann afneitaði þeim boðskap sem auglýsingar hans eigin flokks í málefnum innflytjenda standa fyrir... og sem hann sjálfur er formaður fyrir.     

Hann tók ítrekað og hálf vandræðalega undir með formönnum hinna flokkanna þegar þeir lýstu hófsamri stefnu sinna flokka í innflytjendamálum, sem byggir á virðingu fyrir fólki og uppruna þess.  Það er augljóst að Guðjón Arnar er ekki sammála stefnu flokks síns í málaflokknum.   Þar er ég sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag, þegar hann segir eftirfarandi: " Þessi gamalreyndi skipstjóri er augljóslega á móti stefnu flokks síns í þessum málum, en hefur látið aðra teyma sig út í ógöngur".

Fylgi flokksins tók stökk fyrr í vetur þegar hann sýndi tilburði að reka harða stefnu í málefnum útlendinga að undirlagi Jóns Magnússonar, sem nú er kominn í framboð fyrir Frjálslynda í Reykjavík.  Síðan hefur flokkurinn klofnað m.a. vegna málsins, en á sama tíma hafa þeir dregið úr og í, verið margsaga og túlkað auglýsingar sínar með ólíkum hætti.  Þegar upp er staðið hafa þeir því sennilega bæði fælt frá sér fylgi þeirra sem styðja harða útlendingastefnu og hinna sem eru hófsamari, því hvorugur hópurinn fær lesið skýr skilaboð frá þeim. 

Tilraunin til að hífa fylgið upp aftur með auglýsingunni alræmdu hefur sennilega og blessunarlega mistekist, því forystumennirnir tala tungum tveim og eru ekki trúverðugir.

Þeir verða að fara að ákveða sig hver er formaðurinn í flokknum Guðjón A, Jón Magg eða einhver annar!  Þeir verða líka að ákveða hver er raunveruleg stefna þeirra í málefnum innflytjenda. Það er alla vega ljóst að málflutningur þeirra verður að vera skýrari, ef þeir ætla sér eitthvað í pólítík.

 

 


Um óvinsældir foringja

Samfylkingarmenn eru að fara á límingunum vegna slælegrar útkomu formanns þeirra og flokksins í skoðanakönnunum undanfarið.  Þetta kemur fram hjá þeim í bloggheimum, síðum dagblaða og spjall- og umræðuþáttum í ljósvakamiðlum.

Vinsælasta skýring þeirra nú er að fólk þoli ekki að það sé kona sem er uppi á dekki og að kynferði hennar sé helsta skýringin á gagnrýni á hana sem hefur leitt til þessara óvinsælda. Þessu heldur t.d. Torfi Tulinius, félagi í Samfylkingunni á lofti í grein í Morgunblaðinu í dag.  Þessi skýring heldur nú ekki vatni. 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rakti sjálf óvinsældir sínar í Kastljósi í gærkvöldi  til andstöðu sjálfstæðismanna við sig.  Harla léleg skýring það!

Nú var Davíð Oddsson lengi vel óvinsælasti stjórnmálamaður landsins- og reyndar yfirleitt á sama tíma einnig vinsælastur.  Að honum og persónu hans var vegið með ýmsum hætti á öllum tímum.  Ekki er hann kona.

Nei, ég held að samfylkingarfólk verði að leita annarra og betri skýringa á óvinsældum formanns síns og flokksins. 

Þeir gætu t.d. litið í eigin rann.  Ósamlyndið og málefnalegt ístöðuleysi er t.d. hrópandi.  Formaðurinn kallar á frestun á stóriðju.   Á sama tíma koma tveir þingmenn Samfylkingarinnar fram í fjölmiðlum og vilja álver í þeirra eigin bakgarði.  Hin geðþekki Kristján Möller, vill álver í Húsavík og Jón Gunnarsson, reyndur maður í sveitarstjórnarmálum og atvinnumálum vill álver að Keilisnesi. 

Ósamlyndið tekur einnig á sig ólíklegustu myndir, þegar forystumaður Samfylkingarinnar í Hafnarfirði einn fárra Hafnfirðinga, ákvað að láta ekki uppi afstöðu sína varðandi stækkun álvers í Straumsvík.  Bæjarstjórinn sjálfur, Lúðvík Geirsson, sem var kjörin til að gæta hagsmuna bæjarbúa í hvívetna, stendur nú uppi með það að ákvarðanir hans, eða öllu heldur ákvarðanafælni, hefur stefnt atvinnuöryggi hundruða bæjarbúa í stórhættu og minnkað möguleika á að bæta hag bæjarbúa með skatttekjum af álverinu. 

Þá má Samfylkingarfólk einnig athuga skoðun Torfa Tulinius, félaga í Samfylkingunni, sem segir í Moggagreininni í dag m.a. eftirfarandi: "...Fáir taka til máls til að verja Ingibjörgu: sífellt nöldur hjá andstæðingum hennar, en áberandi þögn úr röðum forystumanna Samfylkingarinnar." (undirstrikun mín)

Ég held að Samfylkingin og formaðurinn geti alveg leyft sér að líta í eigin rann.  Það geislar nú ekki beinlínis af heimilisgleði á þeim bænum!

Heimasíða www.astamoller.is


Munur á hagstjórn hægri og vinstri manna.

Í spjalli hér á bloggsíðunni um páskahelgina urðu nokkur orðaskipti milli okkar Hlyns Hallssonar, núverandi varaþingmanns VG.  Hlyni fannst ég mála vinstri menn svörtum litum í athugasemdum hér á síðunni,  dró þær í efa og kallaði hræðsluáróður þegar ég sagði m.a.:

"Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur tryggt farsæld og aukna hagsæld fjölskyldunnar til langframa. Það sýna m.a. tölur um að kaupmáttur launa fjölskyldunnar hefur aukist um tugi prósenta á síðustu árum undir forystu Sjálfstæðismanna.  VG er hreinn vinstri flokkur, þótt hann hjúpi sig grænni skykkju, sem hefur villt um fyrir fólki.  Hreinn vinstri flokkur sem hækkar skatta, fer illa með opinbert fé, hneppir atvinnulíf í ríkisfjötra, eykur verðbólgu og allt hefur þetta áhrif á afkomu fjölskyldunnar til hins verra. Treystir einhver VG í ríkisfjármálum?  Fólk er búið að gleyma hvernig vinstri menn stjórna í landsmálum.  Það þarf að varast vinstri slysin!"

Þessi orðaskipti urðu tilefni til að ég gróf upp grein sem ég skrifaði fyrir kosningarnar 2003 og var birt í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni "Ávísun á verðbólgu og hærri skatta." Greinin stendur fyrir sínu, en þar vitna ég í  ummæli tveggja fræðimanna um mun á hagstjórn hægri og vinstri manna

 Þar segir ég m.a., eftirfarandi:

"Í bókinni "Frá kreppu til viðreisnar - Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930-1960", sem kom út á síðasta ári í ritstjórn Jónasar H. Haralz, ritar Þórunn Klemensdóttir grein um "Pólítískar hagsveiflur á Íslandi 1945-1998". Þar greinir hún m.a. pólítísk áhrif hægri stjórna annars vegar og vinstri stjórna hins vegar á helstu kennitölur efnahagsstjórnunar hér á landi. Skv. skilgreiningu hennar eru hægri stjórnir þær sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að. Aðrar teljast vera vinstri stjórnir.

Í grein Þórunnar kemur m.a. fram að á umræddu árabili er verðbólga umtalsvert hærri í tíð vinstri stjórna eða 24,5% að meðaltali í samanburði við 15,1% þegar hægri stjórnir eru við völd. Frá 1998 hefur þetta meðaltal lækkað enn. Þá er greinilegur munur á útgjaldaaukningu ríkisins eftir hvernig stjórn er við völd eða 11.2% að meðaltali á ári hverju í tíð vinstri stjórna til samanburðar við 3,3% útgjaldaaukningu á ári í tíð hægri stjórna.

Að sömu niðurstöðu kemst Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, í bók sinni "Úr digrum sjóði - fjárlagagerð á Íslandi" sem gefin var út 1999. Þar segir hann m.a. "að hægri stjórnir séu aðhaldssamari í fjármálum ríkisins en aðrar og að vinstri stjórnir eyði meiru." Sérstaklega er bent á að útgjöld drógust saman þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn, en þau jukust þegar Alþýðubandalagið var við stjórn. Fylgismenn Alþýðubandalagsins sáluga eru nú klofnir í tvo flokka, Samfylkinguna og Vinstri græna.

Framangreindir sérfræðingar í hagfræði og stjórnmálafræði hafa með athugunum sínum á tengslum stjórnarmunsturs annars vegar og verðbólgu og útgjaldaaukningar ríkisins hins vegar komist að álíka niðurstöðu: Hægri stjórnir eru hæfari, en vinstri stjórnir í stjórnun efnahagsmála. "

Greinin er birt á heimasíðu minni á þessum tengli: http://astamoller.is/grein.php?id_grein=153&b=1


Páskadagsmorgun

Fátt er jafn notalegt og að vakna á páskadagsmorgni við morgunmessu í útvarpinu og heyra sálminn "Sigurhátíð sæl og blíð" óma.   Vakna góðar minningar úr foreldrahúsum.

Birtan hér í Borgarfirðinum í morgun var í takt við hátíðleika dagsins.  Dúnalogn, sólarglæta varpaði nánast geistlegum ljóma á stekkinn og grasbalann við húsið okkar. Þögnin alger.  Ekki einu sinn fuglarnir voru komnir á kreik þegar við tókum góðan morgungöngutúr áður en krakkarnir vöknuðu. Páskadagsmorgun.

Þegar við komum aftur í hús var skellt í skonsur, ekki þessar venjulegu í þetta skiptið sem eru bakaðar á pönnukökupönnunni, heldur hefðbundnar skoskar skonsur, sem eru bakaðar í ofni. Bornar fram með sultu og rjóma, eða bara sett smjör og/eða ostur ofaná, eftir því sem hver vill.  Te, kaffi og appelsínusafi.  Páskaeggin tekin fram.

Steinn Haukur farin að hreyfa hrossin, sé hann ríða niður veginn með tvo til reiðar. Hann ætlar að láta þau vera úti í hestagirðingu í dag.  Haukur að slá utan af skemmugrunninum sem var steyptur í síðustu viku, Helga Lára, Siggi og Hildur farin í bæinn því þau þurfa að nota tímann vel fyrir prófin. Sjálf sit ég við tölvuna að skrifa og yfirfara texta, auk þess sem ég er  að þreifa fyrir mér með Moggabloggið, sem ég hóf á fimmtudag.  Form sem ég þarf að átta mig á, sem viðbót við heimasíðuna mína sem ég hef haldið úti um nokkur ár.

Páskadagsmorgun, smá kærkomið hlé.  Landsfundur og kosningabaráttan á fullt framundan.

 www.astamoller.is

 


Öfugsnúin auglýsing frjálslyndra

Frjálslyndi flokkurinn birtir umdeilda auglýsingu sína á ný í dagblöðum á skírdag. 

Ekki hefur auglýsingin skánað við endursýningu. 

Makalaust að stjórnmálaafl, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli bjóða fólki upp á slíka skrumskælingu á staðreyndum.  Það þýðir ekki fyrir þá að skýla sér bak við framsetningu auglýsingarinnar, að hún er sett fram í spurnarformi.  

Þá er líka með ólíkindum að þeir skuli tala tungum tveim, þegar þeir annars vegar segja  að "Frjálslyndi flokkurinn metur mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingarstarf í íslensku samfélagi", en á hinn bóginn er allur annar texti grímulaus áróður gagnvart útlendingum í anda erlendra öfgaflokka.

Flestum þeirra atriða sem fram koma í auglýsingunni hefur þegar verið svarað.

Aðalatriðið er að erlent fólk kemur til Íslands til að vinna, en ekki til að leggjast upp á íslenskt velferðarkerfi.

Það er skýringin á því að hlutfallslega fleiri erlendir ríkisborgarar eru starfandi á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd. Á Íslandi er atvinnuleysi hverfandi, en í Svíþjóð er það um 6% og í Finnlandi um 7,5%.  Atvinnuþátttaka fólks af erlendum uppruna á hinum Norðurlöndum er mun lægri en meðal innlendra.  Því er öfugt farið hér á landi, því atvinnuleysi meðal útlendinga á Íslandi er helmingi minna en meðal Íslendinga sjálfra.   

Þótt erlent vinnuafl sé talið um 9% af vinnandi fólki hér á landi, er jafnframt ljóst að margir þeirra stoppa stutt við og fara til síns heima að starfi loknu.  Það á t.d. við um stóran hluta þess mikla fjölda verkamanna og kvenna sem hafa starfað við uppbyggingu Kárahnúkavirkjunar.

Fullyrðingar frjálslyndra í auglýsingunni um að innflutningur erlends vinnuafls valdi álagi á velferðarkerfið eru út í bláinn.  

Erlendir ríkisborgarar sem eru í starfi hér á landi greiða tekjuskatta til íslenska ríkisins. Þannig greiddu þeir um 16 þúsund útlendingar sem störfuðu um lengri eða skemmri tíma á Íslandi á árinu 2005 um 6,4 milljarða króna í tekjuskatt og útsvar til ríkis og sveitarfélaga á því ári.  Greiðslur útlendinga í framkvæmdasjóð aldraðra einar voru 61 milljón króna á árinu 2005, sem mun sennilega seint gagnast þeim sjálfum!  

Með rökum mætti þvert á móti halda því fram að erlent vinnuafl á Íslandi ætti inni hjá okkur í þessum efnum, því skatttekjur þeirra gagnast Íslendingum fyrst og fremst.  Vera útlendinga á vinnumarkaði styrkir velferðarkerfið, en eru ekki baggi á því. 

Því til viðbótar má nefna að rannsóknir Þóru Helgadóttur hagfræðings, benda til þess að ef ekki hefði verið fyrir innflutning erlends vinnuafls, hefði verðbólgan verið 1.5% hærri en raunin er sem hefði áhrif á skuldir heimilanna, sem að mati Þóru hefðu ella verið 200 þúsund krónur hærri á hvert heimili í landinu á síðasta ári.  

Það kæmi mér verulega á óvart ef frjálslyndir ríðu feitum hesti í komandi kosningum ef þeir ætla að haga kosningaáróðri sínum með þessum hætti fram til 12. maí.

 www.astamoller.is

 


9-10 sjálfstæðiskonur á leið inn á þing!

 Við sjálfstæðismenn erum kátir yfir nýjustu Gallup könnuninni sem var birt í Morgunblaðinu í gær.  Ánægjuleg staða þegar kosningabaráttan er að hefja lokasprettinn eftir páska.

Sjálfstæðisflokkurinn er með rúm 40% atkvæða, sem þýðir 27 sjálfstæðismenn á þing, þar af 9-10 konur.     Framsóknarflokkurinn er með um 8% fylgi og fimm menn á þing, þannig að núverandi ríkisstjórn hefur enn meirihlutastuðning hjá þjóðinni. Því skal haldið til haga.  

Fylgi VG fer niður á við, eins var búist við -og þó fyrr hefði verið - er með um 21% fylgi.  Samfylkingin með 19,5%, sem er á sama róli og í skoðanakönnunum undanfarnar vikur.    

Það merkilega er að samanlagt fylgi VG og Samfylkingar er nákvæmlega það sama og í síðustu kosningum, en þá var Samfylkingin með 31% og VG með um 9%.  Þeir eru samanlagt jafnstórir Sjálfstæðisflokknum einum.   Þetta fylgi dugar þó ekki vinstri flokkunum til að mynda "kaffibandalagið" svokallaða, því frjálslyndir eru skv. könnuninni rétt að merja 3 menn á þing og það tæplega.   Með Framsókn innanborðs væru þeir með nauman meirihluta 33 þingmenn.  Ekki spennandi kostur það.  Það verður engin tveggja flokka stjórn mynduð eftir kosningar án Sjálfstæðisflokksins, ef þessi skoðanakönnun gengur eftir.  

Skoðanakönnun Stöðvar 2 fyrir Norðausturkjördæmi sem var birt í vikunni er einnig merkileg fyrir þær sakir að Steingrímur er að tapa fylgi kvenna til Íslandshreyfingarinnar.  10% kvenna í NA-kjördæmi og 2.2% karla styðja þessa nýju hreyfingu, þrátt fyrir að enginn listi liggur fyrir í kjördæminu!  Er Steingrímur að missa "mojo-ið" meðal kvenna?

Þessar fylgistölur þýða að það fara 9-10 sjálfstæðiskonur á þing eftir kosningarnar í vor og konur þannig þriðjungur þingflokksins eða ríflega það.   Það er vert að vekja athygli á þessu.  Til samanburðar má benda á að skv. skoðanakönnunum mun fylgi Samfylkingarinnar gefa þeim 13 þingmenn, þar af 3 konur.   Það hljóta að teljast tíðindi hjá flokki, sem hefur fram til þessa stært sig af stöðu kvenna innan flokksins.   

Heimasíða:  www.astamoller.is


Vanrækslusyndir

  Það er ekki að spyrja að seinheppni Samfylkingarinnar í auglýsingum þessa dagana.

Ekki fyrr voru þeir búnir að fordæma notkun heilbrigðisráðherra á framkvæmdasjóði aldraðra í auglýsingu í blöðunum þegar fulltrúar Landssambands eldri borgara báðu ráðherrar afsökunar á að hafa haft hann fyrir rangri sök.  Feilskot!

Í auglýsingu í blöðum í gær, standa síðan svilkonan og svilinn keik og lofa fyrir hönd Samfylkingarinnar 400 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu 18 mánuðum. Vanrækslusynd!?

Í grein sem ég setti á heimasíðuna mína í gær www.astamoller.is og birtist í fréttabréfi hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í hverfum austan Elliðaár sem er dreift nú í dymbilvikunni fjalla ég m.a. um ábyrgð R-listans á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík.

Þar segi ég m.a.:  "Þótt ríkið taki þátt í kostnaði við uppbyggingu öldrunarstofnana og greiðir stóran hluta af rekstrarkostnaði þeirra, er það á ábyrgð sveitarfélaga að meta þörf fyrir hjúkrunarrými. Þar liggja upplýsingar um þarfir íbúa fyrir samfélagslega þjónustu á hverjum tíma. Þessa ábyrgð hafa sveitarfélög á landsbyggðinni axlað, en það er ljóst að R-listinn sofnaði á verðinum í þau 12 ár sem hann sat við stjórnvölinn í Reykjavík. Það er fyrst nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við forystutaumum í borginni sem rofar til í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera umhugsunarefni."

Ég segi einnig eftirfarandi í greininni: "Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið tíðrætt um svokallaðar "vanrækslusyndir" sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Í því sambandi hlýt ég að spyrja um vanrækslusyndir R-listans vegna uppsafnaðs skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík".

Ekki var gengið í verkefnið þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri í Reykjavík. Mundi þetta ekki flokkast undir dæmigerða "vanrækslusynd". Já, seinheppni Samfylkingarinnar ríður ekki við einteyming!    

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband