Vanrækslusyndir

  Það er ekki að spyrja að seinheppni Samfylkingarinnar í auglýsingum þessa dagana.

Ekki fyrr voru þeir búnir að fordæma notkun heilbrigðisráðherra á framkvæmdasjóði aldraðra í auglýsingu í blöðunum þegar fulltrúar Landssambands eldri borgara báðu ráðherrar afsökunar á að hafa haft hann fyrir rangri sök.  Feilskot!

Í auglýsingu í blöðum í gær, standa síðan svilkonan og svilinn keik og lofa fyrir hönd Samfylkingarinnar 400 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu 18 mánuðum. Vanrækslusynd!?

Í grein sem ég setti á heimasíðuna mína í gær www.astamoller.is og birtist í fréttabréfi hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í hverfum austan Elliðaár sem er dreift nú í dymbilvikunni fjalla ég m.a. um ábyrgð R-listans á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík.

Þar segi ég m.a.:  "Þótt ríkið taki þátt í kostnaði við uppbyggingu öldrunarstofnana og greiðir stóran hluta af rekstrarkostnaði þeirra, er það á ábyrgð sveitarfélaga að meta þörf fyrir hjúkrunarrými. Þar liggja upplýsingar um þarfir íbúa fyrir samfélagslega þjónustu á hverjum tíma. Þessa ábyrgð hafa sveitarfélög á landsbyggðinni axlað, en það er ljóst að R-listinn sofnaði á verðinum í þau 12 ár sem hann sat við stjórnvölinn í Reykjavík. Það er fyrst nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við forystutaumum í borginni sem rofar til í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera umhugsunarefni."

Ég segi einnig eftirfarandi í greininni: "Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið tíðrætt um svokallaðar "vanrækslusyndir" sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Í því sambandi hlýt ég að spyrja um vanrækslusyndir R-listans vegna uppsafnaðs skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík".

Ekki var gengið í verkefnið þegar Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri í Reykjavík. Mundi þetta ekki flokkast undir dæmigerða "vanrækslusynd". Já, seinheppni Samfylkingarinnar ríður ekki við einteyming!    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl, Ásta og velkomin í spjallheima !

Bylur nú ekki hæst, í tómri tunnu ? Auðvitað var R- listinn, hver hafði forsjá ykkar Reykvízkra á hendi, lengi vel, sína agnúa; margvíslega.

Brjótum í blað, Ásta; hversu þjóðfélag okkar er stéttskipt og sundurtætt, eftir ríkistjórna tímabil Davíðs Oddssonar og hans nóta síðan, eða til þessa dags. Nú keppast flokksfélagar þínir, ásamt hinu miðjumoðinu, við að níða niður, og tortryggja Frjálslynda flokkinn, hver hefur þó þá einurð og áræði til að bera, að stinga á ýmsum þeim meinvörpum, sem við er að etja, hérlendis. 

Hví ættu kjósendur, almennt, að taka mark á fagurgala ykkar ? Sjáum dauðyflishátt Sivjar Friðleifsdóttur og ýmissa fyrirennara hennar, í þeim ráðuneytum, hverjum hún situr. Jah......... ekki vildi ég vera gamalmenni eða öryrki, á Íslandi í dag. Þið hlaðið undir alls lags gæðinga, og viðhlæjendur ríkisstjórnarinnar; og Ásta,, nú spyr ég þig, alveg sérstaklega,,, gjörið þið Sjálfstæðismenn út, af ykkar eykt, loddarann og sjónhverfingameistarann; Hannes Hólmstein Gissurarson, til þess að slá ryki í augu fólks, og gjöra tortryggilegar, niðurstöður útreikninga Stefáns Ólafssonar prófessors og annarra, um stöðu fátækra, á Íslandi, m.a. ?

Er það sæmandi, í vel bjargálna þjóðfélagi, að hjálparstofnanir þurfi að útbýta matargjöfum, til þeirra, hverjir verst mega, og heyrði, að minnsta kosti til algjörra undantekninga hér, fyrir 15 - 30 árum ?

Er það kannski stefna Sjálfstæðisflokksins, að viðhalda þessu ástandi, um ókomin ár, og hygla hinu síngjarna og skrumi skælda ''útrásarliði'' hvað mest og bezt, og þeim flottræflum öðrum, hverjir skammazt sín fyrir upprunann, og vilja helzt, með útlendum vera ?

Með beztu þjóðernissinna kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband