Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Stjórnmál og fjölmiðlar

Stundum dettur maður í bækur sem hafa legið árum saman í bókaskápnum.

Ágætur félagi varð fimmtugur um daginn og þar sem hann hefur unnið við fjölmiðla um árabil ákvað ég að leita uppi bók sem mig langaði að gauka að honum. Bókina keypti ég á bókamarkaði forðum tíð, þá bókaormur á unglingsaldri.
Þegar á reyndi fann ég hins vegar ekki bókina, en rakst síðan á hana nokkrum dögum seinna á þeim stað sem hún auðvitað átti að vera.

Bókin heitir „ Blöð og blaðamenn 1773-1944" eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, sem var þjóðþekktur maður, útvarpsstjóri um árabil. Gefin út af Almenna bókafélaginu 1972.

Í fyrsta kafla bókarinnar fjallar Vilhjálmur um tengsl blaða við bókmenntir og stjórnmál og bendir á að eitt höfuðeinkenni blaðamennskunnar framanaf hafi verið hve mörg kunnustu skáld Íslendinga voru jafnframt ritstjórar og nefnir til sögunnar m.a. Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Matthías Jochumsson, Einar Benediktsson, Þorstein Erlingsson og Þorstein Gíslason. Þá ræðir hann um að margir forystumenn stjórnmála hafi einnig verið ritstjórar, „ allt frá Jóni Sigurðssyni til Bjarna Benediktssonar, og þannig fór Tryggvi Þórhallsson beint úr ritstjórn í embætti forsætisráðherra." Einnig nefnir hann Jónas frá Hriflu til sögunnar. Þá segir hann „ Þetta samband skálda og stjórnmálamanna við blöðin og forráð þeirra yfir þeim hefur í heild sinni orðið íslenzkri blaðamennsku til eflingar og fjölbreytni og um leið víkkað og treyst tengslin milli ýmissa þeirra afla og áhrifa, sem bezt voru og auðugust í þjóðlífinu, en einnig styrkt sambandið við almenning í landinu."
Þá segir Vilhjálmur einnig: „Það verður þó að teljast eitt af veigamestu, en jafnframt eitt af vandasömustu verkefnum blaða í lýðræðislöndum að túlka skoðanir hópa og flokka og gera það hart og hiklaust, þegar nauðsyn krefur, en kunna greinarmun á staðreyndum og fréttum og túlkun þeirra."

Vilhjálmur tekur saman að á 57 þingum frá árinu 1845 til 1930 sátu 305 fulltrúar og voru 47 þeirra blaðamenn, eða um 15% þingmanna á þessu tiltekna tímabili. Lausleg athugun á fyrirliggjandi starfsferilsskrá núverandi alþingismanna á vef Alþingis leiðir í ljós að 27 þeirra hafi á einhverju tímabili starfað við fjölmiðla, sem er um 43% sitjandi þingmanna. Þessi þróun er athugunarefni út af fyrir sig.

Tilefni þess að ég rifja þetta upp er ráðning Davíðs Oddssonar í ritstjórastól Morgunblaðsins . Má ég fremur biðja um opin tengsl fjölmiðla og stjórnmála, en óljós tengsl fjölmiðla og viðskiptahagsmuna, sem augljóslega hefur verið mikill skaðvaldur á síðustu árum.

Á morgun ætla ég síðan að færa mínum ágæta félaga bókina í síðbúna afmælisgjöf.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband