Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Er löng stefnuyfirlýsing merki um traust?

Mætur maður sagði einu sinni að stutt stefnuyfirlýsing samsteypustjórna væri merki um traust milli viðkomandi stjórnarflokka.  Því styttri sem hún væri því meira traust og meiri líkur á að stjórnin næði árangri.

Nú hefur stefnuyfirlýsing vinstri flokkanna litið dagsins ljós, 17 síður, 7000 orð, 3, 5 sinnum lengri en meðal stefnuyfirlýsing stjórnarflokka á undanförnum áratugum ef marka má Moggann í dag.   7000 orð,  óritstýrð, froðukennd  og ómarkviss.  Hvað segir þessi langa stefnuyfirlýsing um traust á milli stjórnarflokkanna?  Hafandi verið vitni að samskiptum þingmanna þessarra flokka á Alþingi á undanförnum árum kemur traust og virðing ekki fyrst upp í hugann. 

Með ólíkindum má hins vegar teljast að í þessum 7000 orðum hafi þeim tekist að sneiða hjá helstu ágreiningsmálum sínum.  Ekki síst er þögnin hrópandi um verkefnin framundan , hvar eigi að bera niður í opinberum rekstri, hvernig eigi að standa að atvinnuuppbyggingu  í landinu og hvað stefnu eigi að taka í peningamálum þjóðarinnar.   

Vissulega má finna eitt og eitt bitastætt í yfirlýsingunni, t.d. um verndun umhverfis og samdrátt í ferðalögum, dagpeningum og slíku.  Þessir þættir yfirlýsingarinnar reyndust þó ómarktækir strax á fyrsta degi þegar forsætisráðherrann tilkynnti keik að fyrsti ríkisstjórnarfundurinn yrði haldinn á Akureyri.  Ríkisstjórnin ákvað sem sagt að eyða ómældu magni af  ósjálfbærum orkugjöfum (lesist: bensín og olía)  með tilheyrandi útblæstri til að koma 12 manna ríkisstjórn ásamt fylgdarliði til og frá Akureyri,  sem þar að auki þurfti að skipta niður á þrjár flugvélar til að  virða öryggisreglur. Að ónefndum  ferðakostnaði og dagpeningum sem falla á ríkissjóð.  

Svo mikið fyrir umhverfismál og sparnað í ríkisrekstri. 

Hvað kallast þetta annað en sýndarmennska?!    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband