Er löng stefnuyfirlýsing merki um traust?
12.5.2009 | 10:46
Nú hefur stefnuyfirlýsing vinstri flokkanna litið dagsins ljós, 17 síður, 7000 orð, 3, 5 sinnum lengri en meðal stefnuyfirlýsing stjórnarflokka á undanförnum áratugum ef marka má Moggann í dag. 7000 orð, óritstýrð, froðukennd og ómarkviss. Hvað segir þessi langa stefnuyfirlýsing um traust á milli stjórnarflokkanna? Hafandi verið vitni að samskiptum þingmanna þessarra flokka á Alþingi á undanförnum árum kemur traust og virðing ekki fyrst upp í hugann.
Með ólíkindum má hins vegar teljast að í þessum 7000 orðum hafi þeim tekist að sneiða hjá helstu ágreiningsmálum sínum. Ekki síst er þögnin hrópandi um verkefnin framundan , hvar eigi að bera niður í opinberum rekstri, hvernig eigi að standa að atvinnuuppbyggingu í landinu og hvað stefnu eigi að taka í peningamálum þjóðarinnar.
Vissulega má finna eitt og eitt bitastætt í yfirlýsingunni, t.d. um verndun umhverfis og samdrátt í ferðalögum, dagpeningum og slíku. Þessir þættir yfirlýsingarinnar reyndust þó ómarktækir strax á fyrsta degi þegar forsætisráðherrann tilkynnti keik að fyrsti ríkisstjórnarfundurinn yrði haldinn á Akureyri. Ríkisstjórnin ákvað sem sagt að eyða ómældu magni af ósjálfbærum orkugjöfum (lesist: bensín og olía) með tilheyrandi útblæstri til að koma 12 manna ríkisstjórn ásamt fylgdarliði til og frá Akureyri, sem þar að auki þurfti að skipta niður á þrjár flugvélar til að virða öryggisreglur. Að ónefndum ferðakostnaði og dagpeningum sem falla á ríkissjóð.
Svo mikið fyrir umhverfismál og sparnað í ríkisrekstri.
Hvað kallast þetta annað en sýndarmennska?!
Athugasemdir
Mikið vildi ég Ásta, að þú tækir frekar þann pól í hæðina að vinna með ríkisstjórninni að því að bjarga þjóðinni út úr þeim hörmungum sem fyrri ríkisstjórnir leiddu yfir hana heldur en að stilla þér upp á svona lágkúrulegan hátt. Í þeim tilgangi einum, að mér virðist til að vera á móti ríkisstjórninni bara af því að þinn flokkur er utan stjórnar.
Hvert sem litið er eru hræðilega erfið mál sem þjóðin þarf nauðsynlega á að halda að séu leyst í sameiningu.
Í guðanna bænum hristu af þér þessa leiðinlegu flokkadrætti og taktu þig til, þjóðarinnar vegna, og leggðu gott inn fyrir þjóðina sem situr saklaus í skuldasúpu.
Helga (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 04:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.