Áfram, áfram!

Viðskiptablaðið í gær var sérstaklega skemmtilegt aflestrar.  Þar var t.d. viðtal við Vigdísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra InPro, en fyrirtækið sérhæfir sig í veitingu heilbrigðisþjónusta á einkarekstrarlegum grunni, m.a. heilsuvernd í fyrirtækjum og hjúkrun í heimahúsum.   Þá er fyrirtækið í samstarfi við ýmsa aðila um framkvæmd forvarna t.d. forvarnir vegna hjartasjúkdóma í samstarfi við Hjartaheill á Suðurnesjum.  Fyrirtækið hefur jafnframt áhuga á að taka að sér verkefni með samningi við stjórnvöld um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu og nefnir Vigdís í viðtalinu rekstur heilsugæslustöðva sem dæmi. 

Hugmyndir Vigdísar eru ferskar og ég er hjartanlega sammála henni þegar hún segir í lok viðtalsins eftirfarandi: "... (það) þarf að skilgreina betur, og gera það fyrir opinberum tjöldum, hvaða þjónustu hið opinbera ætlar að fjármagna og tryggja þannig landsmönnum aðgang að. Í öðru lagi þarf að gefa einkaaðilum tækifæri til þess að sinna þessari þjónustu í mun meira mæli en nú er."

Ýmsir hafa orðið til þess að hallmæla sjálfstæðum rekstri í heilbrigðisþjónustu.  Gjarnan með að draga fram einhver öfgadæmi að utan.   Það á t.d. við um Vinstri græna, sem sjá svart þegar slíkar hugmyndir eru nefndar.

Reynslan hér á landi er hins vegar mjög góð.  Einkarekin heilsugæsla í Salahverfi sem hefur starfað í örfá ár og heilsugæslustöðin í Lágmúla,sem hefur starfað á þriðja áratug, þykja veita afbragðs þjónustu, sem m.a. hefur verið staðfest með könnunum á vegum Heilsugæslunnar í Reykjavík. Þá er hagkvæmi og skilvirkni í þjónustu betri hjá þeim, en hjá ríkisreknum heilsugæslustöðvum.  Það hefur heilbrigðisráðumeytið staðfest.  Hið sama má segja um einkarekna hjúkrunarheimilið Sóltún, en þjónustan og aðbúnaður aldraðra er notuð sem fyrirmynd annarra heimila.

Andstaða Vinstri grænna er því fremur í ætt við trúarbrögð, en að þeim sé umhugað að geta veitt gæðaþjónustu og fá fram betri nýtingu fjármuna úr opinberum sjóðum. 

Þessi heilbrigðisfyrirtæki eru rekin af opinberu fé með samningi við stjórnvöld.  

Sporin hér á landi þarf því ekki að hræðast, heldur eru hvatning til frekari þróunar. Það mun Sjálfstæðisflokkurinn gera, fái hann tækifæri eftir kosningar að taka að sér heilbrigðisráðuneytið, sem ríkur vilji er fyrir innan flokksins.  Ekki mun ég skorast undan að leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er ekki á ykkur auðvaldssinnana logið að þið standið ykkar vakt með sóma í vafasamri viðleitni ykkar í að veikja velferðarkerfið. Svo lætur þú þig hafa það að núa VG trúarbragðapólitík um nasir. Ja, heyra á endemi. Ef pólitík einhvers stjórnmálaflokks er trúarbrögð, þá fara Sjáfstæðismenn þar langfremstir í öfgum og ofsa. Ég get trúað þér fyrir því Ásta Möller, að ég þekki mitt heimafólk það vel í þessum efnum, að ég veit hvað ég er að segja.  

Jóhannes Ragnarsson, 28.4.2007 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband