Einmana íslensk börn

Eitt sinn heyrði ég barn segja: "Krakkarnir vilja ekki gera sig að fífli að tala við mig." 

Einmana börn, var yfirskrift fundar sem ég sótti í morgun á vegum Samtakanna Náum áttum sem er opinn samráðsvettvangur ýmissa aðila um fræðslu og fíkniefnamál.   Í samráðshópnum eru bæði opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök . 

Kveikjan var nýleg alþjóðleg rannsókn sem sýndi að íslensk börn lýsa einni mestri einsemd í samanburði við börn í öðrum löndum.  

Þetta er mikið áhyggjuefni og umhugsunarefni fyrir foreldra í forgangsröðun sinni og skóla í áherslum sínum.

Á fundinum var m.a. sagt frá unglingsstúlku, sem hefur orðið útundan í félagahópi, en hún eyddi öllum páskunum fyrir framan tölvuna sína. Foreldrar hennar eru mikið fjarverandi vegna vinnu sinnar, m.a. vegna vaktavinnu. Þetta er ekki einsdæmi.  

Vinir skipta unglinga miklu máli.  Þau sem lenda útundan meðal félaga sinna, finna til einmanaleika, kvíða og depurðar.  Þessir krakkar eru í áhættu að missa tök á lífinu og oft þarf mikið átak til að byggja upp sjálfstraust og  sannfæra þau um ágæti sitt.   Á fundinum var sýnt fram á að inngrip skóla og foreldra og samvinna þeirra getur skipt sköpum um líðan og afdrif þessara krakka.  Jafnframt var athyglisverð umræða um að netnotkun þessarra barna hefur reynst þeim hættuleg. Netheimar eru opnir öllum og nýta níðingar sér það.  Þessir krakkar eru í sérstakri hættu gagnvart þeim, því sókn þessara krakka eftir samskiptum og viðurkenningu getur gert þau að auðveldum fórnarlömbum níðinga. 

Þessi umræða er mikilvæg og það var gott að hlusta á fagfólk lýsa hvernig þau nálgast unglingana af  umhyggju fyrir velferð þeirra og áhuga á að verða þeim að liði og hvaða árangri er hægt að ná með markvissum hætti.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband