Staðan að loknum landsfundi
16.4.2007 | 13:45
Forysta flokksins, Geir og Þorgerður Katrín, fékk óskoraðan stuðning landsfundarfulltrúa í kosningu til formanns og varaformanns, en á landsfundi eru þannig séð allir í kjöri til þessara embætta. Forystan er sterkari og einbeittari fyrir bragðið í kosningabaráttunni framundan. Samanburðurinn við Samfylkinguna, þar sem landsfundurinn veitti forystunni áframhaldandi umboð án kosninga, hlýtur að vera óþægilegur fyrir Samfylkinguna, ekki síst í ljósi augljósrar óánægju innan flokksins með stöðu hans. Það veikir Samfylkinguna enn frekar.
Nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Andri Óttarsson, stóðst fyrstu prófraun sína, með miklum glæsibrag. Umbúnaður og skipulag landsfundarins var til fyrirmyndar, enginn blettur þar á. Ný og breytt Laugardalshöll með sínum mörgu fundaherbergjum gerði það að verkum að nefndarstarf var á svæðinu, en ekki vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið eins og áður. Þetta breytti miklu og jók ánægju fólks. Um leið var hægt að hafa meiri yfirsýn yfir starfið og auðveldaði fólki að fara á milli málefnafunda, ef svo bar við.
Ég einbeitti mér að málefnanefndum um velferðarmál og málefni aldraðra. Umræðan var fyrsta flokks og leiddi til mjög góðrar niðurstöðu. Velferðarmálin eru á oddinum og stefnan skýr.
Sérstaka athygli vakti á fundinum hve hlutur kvenna í störfum landsfundar var stór. Þær voru mjög virkar í umræðu um ályktanir fundarins og sennilega voru þær þar í meirihluta meðal ræðumanna, eins og á síðasta landsfundi. Í kosningum til miðstjórnar buðu sig fram 12 konur og 13 karlar í ellefu sæti. 8 konur náðu kjöri og 3 karlar. Landssamband sjálfstæðiskvenna, sem ég er í forsvari fyrir, útbjó og dreifði á fundinum plakati með myndum og upplýsingum um kvenframbjóðendur. Það hefur örugglega haft sín áhrif á niðurstöðuna, hve vel þær voru kynntar. Allar eru þetta reynsluríkar konur í störfum fyrir flokkinn. Tvær þeirra eru starfandi sveitarstjórar og leiddu flokkinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum, þær Unnur Brá Konráðsdóttir og Eyrún Sigþórsdóttir. Erla Ósk Ásgeirsdóttir núverandi formaður Heimdallar og Áslaug Friðriksdóttir formaður Hvatar voru kosnar, auk Elínbjargar Magnúsdóttur, Þórunnar Helgu Hauksdóttur, Helgu Þorbergsdóttur og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur. Þessar konur hafa verið eða eru kjörnir fulltrúar eða varafulltrúar í sveitarstjórnum og /eða á listum til alþingiskosninga fyrir flokkinn. Flottur hópur og sóma þeir karlarnir Kjartan Gunnarsson, Vilhjálmur borgarstjóri og Örvar skipstjóri sér vel í þeirra félagsskap!
Heiti potturinn í Árbæjarlauginni á morgnana er oft ágætur barómeter á umræðuna. Þar eru oft skiptar skoðanir og hart deilt um menn og málefni. Í morgun tóku margir það upp við mig hve þeir voru ánægðir með Geir. Yfirvegun hans, öryggi og vingjarnleiki. Traust og velvild. Góð blanda af ábyrgum landsföður og góðum gaur!
Sjálfstæðismenn fara vel nestaðir í baráttuna framundan með frísklega forystu, sterka málefnalega stöðu og ekki skemmir að finna meðbyr!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.