Fréttablaðið hleypur á sig
11.4.2007 | 15:51
Til grundvallar voru landsfundarályktanir flokkanna.
Af handahófi voru teknar nokkrar setningar héðan og þaðan úr landsfundarályktunum og metið hvort á viðkomandi áhersluefni hefði verið tekið á kjörtímabilinu. Þar voru m.a. tekin atiði, sem ekki eru á valdi ríkisstjórnarinnar að ákveða. Það á t.d. við um "stórlækka fasteignagjöld eldri borgara" sem má finna í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Ákvörðun fasteignagjalda er á höndum sveitarfélaga og því augljóslega ekki um áhersluatriði alþingiskosninga.
Landsfundarályktanir fjalla þannig um stjórnmálalegar áherslur þvert á stjórnsýslustig og eru ekki kosningaloforð til einna kosninga. Því skal hins vegar haldið til haga að ríkisstjórnin felldi niður eignaskatta á íbúðarhúsnæði á kjörtímabilinu, sem er mikil kjarabót fyrir eldri borgara, en um og yfir 90% þeirra búa í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði, sem skatturinn lagðist af þunga á.
Með fullri virðingu fyrir landsfundarályktunum, þá eru þær sem sagt ekki kosningaloforð.
Landsfundarályktanir eru stefnuskrár flokkanna unnar af grasrótinni. Í þeim má finna margar frábærar hugmyndir og nýjungar, sem getur tekið mislangan tíma að hrinda í framkvæmd. Ályktun um niðurfellingu eignaskatts mátti t.d. finna í landsfundarályktunum flokksins um nokkurt skeið, áður en svigrúm skapaðist til að láta það verða að veruleika.
Nú hlýtur Fréttablaðið er einhenda sér í að skoða raunverulega stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar og sýna lesendum sínum svart á hvítu að Sjálfstæðisflokkurinn stendur við sín loforð.
Athugasemdir
Sæl Ásta
Fréttablaðið hleypur ekki á sig
Fréttablaðið hljóp ekki á sig á laugardaginn þegar það tók saman stefnumál, ályktanir og loforð, sem óumdeilanlega voru lögð fram sem slík, fyrir kosningarnar 2003. Skýrlega er tekið fram að ályktanir, stefnumál og loforð flokkanna fyrir kosningarnar hafi verið skoðuð. Það er ekkert athugavert við það. Mörg þessara stefnumála voru sett fram sem loforð fyrir kosningar, til að mynda lofaði Framsóknarflokkurinn því að hækka hlutfall lána upp í 90 prósent af verðgildi eignar hjá Íbúaðalánasjóði, og státaði sig svo af því að hafa staðið við loforðið fyrir kosningar, svo ég taki "handahófskennt" dæmi.
Ályktanirnar voru ekki valdar af handahófi "héðan og þaðan", eins og þú segir, heldur eftir ítarlega skoðun.
"Það á t.d. við um "stórlækka fasteignagjöld eldri borgara" sem má finna í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Ákvörðun fasteignagjalda er á höndum sveitarfélaga og því augljóslega ekki um áhersluatriði alþingiskosninga."
Lög um fasteignagjöld eru í gildi og þeim er hægt að breyta. Samkvæmt þeim þarf fólk að greiða gjald, sem ákveðið er af sveitarfélagi, sem er hlutfall af fasteignamati eignar. Út frá sjónarmiðum frjálshyggjuhugsjónarinnar þá er það óheilbrigð skattheimta, að gjald, sem ætlað er að standa undir kostnaði við fasteignir, skuli innheimtast í beinu samhengi við sveiflukennt viðmið sem fasteignamatið er. Vegna þess að kostnaðurinn hækkar ekki í samhengi við hækkun fasteignamatsins. Á mannamáli; óhjákvæmilegt að peningarnir séu notaðir í annað en bara kostnaðinn, sem síðan ætti að gefa vísbendingu um að lögin séu gölluð.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem er ráðandi afl í íslenskum stjórnmálum, er í aðstöðu til þess að breyta þessum lögum, eins og öðrum, og getur einnig - ef vilji er til þess - sett lög sem lækka gjöld á hópa sem, einhverra hluta vegna, eiga erfiðari með að borga fasteignagjöldin heldur en aðrir. Það er því rangt að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki beitt sér fyrir að eldri borgarar borgi lægri fasteignagjöld. Hann getur það.
Það er argasti misskilningur að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, og ályktanir hans, séu einhver innihaldslaus hugmyndaveita sem flokkurinn þarf ekki að fara eftir. Samkvæmt skipuriti flokksins er landsfundurinn æðsta málsvar flokksins, hvorki meira né minna.
Í heilsíðuauglýsingu í Sjálfstæðisflokksins á síðu 9 í Fréttablaðinu í gær stendur þetta: "Á landsfundi móta sjálfstæðismenn stefnu sína og kosningaáherslur fyrir komandi alþingiskosningar."
Þetta þýðir, að ályktanir landsfundar mánuði fyrir kosningar marka stefnu, sem flokkurinn leggur síðan í dóm kjósenda. Ergo = Ályktanir eru ekki bara einhverjar "frábærar hugmyndir" heldur stefnumarkandi og ætlað að hafa áhrif á breytni leiðtoga flokksins.
Það stendur ekki til að skoða stefnuskrána aftur, bara til þess að segja lesendum frá því, "svart á hvítu" að Sjálfstæðisflokkurinn standi við loforð sín. Morgunblaðið getur gert það.
kv
Magnús Halldórsson blaðamaður og heimspekingur
Magnús Halldórsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 17:07
Sæll Matthías.
Það er skiljanlegt að þú skulir verja eigin texta í Fréttablaðinu. Það breytir hins vegar ekki því að það er gerður greinarmunur á landsfundarályktunum og kosningaloforðum. Kosningaloforð eru þeir þættir/forgangsatriði úr landsfundarályktunum sem flokkurinn vill leggja áherslur á að nái fram á næsta kjörtímabili, fái hann til þess tækifæri. Þú þarft ekki annað en að spyrja ritstjóra Fréttablaðsins til að fræðast betur um það.
Dæmið um fasteignagjöldin segir okkur að landsfundarályktunin jafngildir ekki kosningaloforði vegna alþingiskosninga sem haldnar voru stuttu seinna, því ákvörðun fasteignagjalda eru "pure" sveitarstjórnarmál, sbr. að ákvæði um þau er að finna í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Fasteignagjöld er annar helsti tekjustofn sveitarfélaga og nemur uþb 11% af tekjum þeirra. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er sett lögbundið þak á heimildir sveitarfélaga á álagningu þeirra. Það er síðan alfarið hlutverk sveitarfélaganna að ákvarða prósentuhlutfall fasteignagjalda og afslátt eða niðurfellingu þeirra við tilteknar ástæður. Má t.d. benda á að Reykjavíkurborg lækkaði fasteignaskgjöld um 10% um síðustu áramót, til að koma til móts við 10% hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði á síðasta ári, þannig að borgarbúar komu út á sléttu. Það er því rétt hjá þér að Sjálfstæðisflokkurinn getur lækkað þessi gjöld í þeim sveitarfélögum sem þeir eru í meirihluta, um það fjallaði ályktunin, en varla færi flokkurinn að lofa því fyrir alþingiskosningar, þegar það er ekki á valdi þingsins að ákveða slíka lækkun.
Ekki hef ég haldið því fram að landsfundarályktanir séu "innihaldslaus hugmyndaveita sem flokkurinn þarf ekki að fara eftir" Það voru ekki mín orð. Landsfundarályktanir eru þvert á móti lagðar til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar um helstu áherslur flokksins fyrir kosningar og í málefnaskrá/stefnuskrá flokksins og síðar í málefnasamningi ríkisstjórnar. Þá má ekki gleyma því að í mörgum tilvikum hafa umdeild mál verið leidd til lykta á landsfundi, sbr. t.d. afstaða flokksins til auðlindagjalds, sem var ásteytingasteinn um árabil, en var leyst með miklum umræðum og málamiðlunum á landsfundi fyrir nokkrum árum.
Ef Fréttablaðið vill hins vegar raunverulega sannreyna hvað af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins hafi náð fram á kjörtímabilinu í stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn, hlýtur blaðið að taka þau fram og birta lesendum sínum þá athugun sína. Ég veit að það skjal var sent til ykkar við vinnslu greinarinnar.
Með bestu kveðju, Ásta Möller
Ásta Möller (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 23:37
Sæl Ásthildur
Eins og ég benti þér á, og þú virtist ekki átta þig á í upphafi, er að það er löggjafinn sem setur lög um fasteignagjöld sem sveitarfélög þurfa síðan að framfylgja. Telji menn lögin að einhverju leyti gölluð, til dæmis á þeim forsendum að það sé óréttlátt fyrir borgarana að borga fasteignagjöld í beinu samhengi við sveiflukennt viðmið sem fasteignamatið er, á þeim forsendum að peningarnir geti þá ómögulega farið einungis í að standa undir kostnaði, þar sem hann sveiflast ekki með fasteignamatinu, þá er hægt að breyta þeim. Hafi menn einnig vilja til þess að setja í lögin ákvæði um að fasteignagjöld á eldri borgara skuli að hámarki vera x hlutfall af fasteignamati, þá er það hægt. Þessu getur þú ekki mótmælt, en rökvillan í málflutningi þínum er rótföst í þessu atriði. Þetta þýðir, að þingmenn geta beitt sér fyrir því að breyta lögunum á þann veg að eldri borgarar, svo dæmi sé tekið, borgi lægri fasteignaskatt.
"Ákvörðun fasteignagjalda er á höndum sveitarfélaga," sagðir þú. Þetta er rangt, eins og ég hef bent þér á hér að ofan. Fasteignagjöldin fara eftir lögum um fasteignagjöld, og eftir þeim þurfa sveitarfélög að fara. Tal um annað er rangt og ósatt tal.
Síðan er það annað mál, að skýrlega er tekið fram í umfjölluninni að atriðin sem skoðuð voru, eru ályktanir stjórnarflokkanna fyrir kosningar á landsfundum. Það eru þínar meiningar að þau hafi veri sett fram sem kosningaloforð. En staðhæfingin, og fréttin, um að mörg kosningaloforð stjórnaflokkanna, til dæmis um að auðlindir sjávar skuli vera sameign þjóðarinnar (hvað sem það nú þýðir), hafi verið svikin, er rétt. Og tvímannalaust fréttnæm, nema hugsanlega á dagblöðum sem eru skyldgetin afkvæmi stjórnmálaflokkanna sem eiga í hlut.
Ég þarf ekki að spyrja ritstjóra Fréttablaðsins af því hvað sé kosningaloforð og hvað ekki. Ekki heldur hvað sé ályktun og hvað ekki. Né heldur hvort ályktanir Sjálfstæðisflokksins á landsfundi skipta einhverju máli fyrir kjósendur.
Og varðandi það að ég hafi fengið sent plagg frá Sjálfstæðisflokknum þar sem farið er yfir kosningaloforðin með jákvæðum hætti, sem þú sagðist vita um (sem er reyndar athyglisvert), þá að sjálfsögðu er hér ritstjórn sem kemur í veg fyrir að blaðið sé misnotað til þess að þjónka Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, Samfylkingunni, Vinstri grænum, Frjálslynda flokknum og öllum öðrum stjórnmálaflokkum.
Þeim sem stýra landinu, þarf að sýna aðhald. Það er þín leið að kvarta undan því að fjallað sé um ályktanir flokksins, sem eiga að vera stefnumarkandi fyrir kosningar og auglýstar sem slíkar fyrir kjósendum, gangi ekki eftir. Því betur hefur enginn annar gert það, enda finnst sjálfstæðismönnum það upp til hópa sjálfsagt að um þetta sé fjallað. Aðhaldið herðir og bætir. Alveg eins og það var sjálfsagt að fjalla um stjórnarsáttmálann í heilsíðu í Fréttablaðinu fyrir skömmu og láta meta það hvað hefði gengið eftir og hvað ekki. Sjálfsagt mál og góð þjónusta við lesendur.
Áður en þú ferð að dæma mig sem einhvern andstæðing Sjálfstæðisflokksins, þá eyði ég þeim misskilningi hér með strax. Mér er ekki illa við neinn stjórnmálaflokk og nálgast því efnið aldrei þannig.
Bestu kveðjur
Magnús Halldórsson
Magnús Halldórsson (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 11:15
Sæl Matthías.
1. Ég þekki eina Ásthildi, en það er ekki ég.
2. Að "stórlækka fasteignagjöld eldri borgara" er á forræði sveitarfélaga. Annað er útúrsnúningur.
3. Kosningaloforð formanns Sjálfstæðisflokksins sem komu fram í ræðu hans í gær voru fá eins og margir hafa tekið eftir. Landsfundarályktanir flokksins eru upp á tugi blaðsíðna.
4. Skjalið sem Fréttablaðið (þú?) fékk sent frá Valhöll voru einfaldlega kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar. Engin tilraun til ritstýringar á Fréttablaðinu, bara kosningaloforðin.
Kv. Ásta Möller, alþingismaður og sit í framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins
Ásta Möller, 13.4.2007 kl. 09:22
Sæl Ásta.
1. Ég þekki engan Matthías. Hitt stendur allt óhaggað.
kv
Magnús Halldórsson
Magnús Halldórsson (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 09:31
Sæll Magnús. Ætli við séum þá ekki kvitt, alla vega hvað nöfn okkar áhrærir! Kær kv. Ásta
Ásta Möller, 13.4.2007 kl. 10:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.