Færsluflokkur: Bloggar

Öfugsnúin auglýsing frjálslyndra

Frjálslyndi flokkurinn birtir umdeilda auglýsingu sína á ný í dagblöðum á skírdag. 

Ekki hefur auglýsingin skánað við endursýningu. 

Makalaust að stjórnmálaafl, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli bjóða fólki upp á slíka skrumskælingu á staðreyndum.  Það þýðir ekki fyrir þá að skýla sér bak við framsetningu auglýsingarinnar, að hún er sett fram í spurnarformi.  

Þá er líka með ólíkindum að þeir skuli tala tungum tveim, þegar þeir annars vegar segja  að "Frjálslyndi flokkurinn metur mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingarstarf í íslensku samfélagi", en á hinn bóginn er allur annar texti grímulaus áróður gagnvart útlendingum í anda erlendra öfgaflokka.

Flestum þeirra atriða sem fram koma í auglýsingunni hefur þegar verið svarað.

Aðalatriðið er að erlent fólk kemur til Íslands til að vinna, en ekki til að leggjast upp á íslenskt velferðarkerfi.

Það er skýringin á því að hlutfallslega fleiri erlendir ríkisborgarar eru starfandi á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd. Á Íslandi er atvinnuleysi hverfandi, en í Svíþjóð er það um 6% og í Finnlandi um 7,5%.  Atvinnuþátttaka fólks af erlendum uppruna á hinum Norðurlöndum er mun lægri en meðal innlendra.  Því er öfugt farið hér á landi, því atvinnuleysi meðal útlendinga á Íslandi er helmingi minna en meðal Íslendinga sjálfra.   

Þótt erlent vinnuafl sé talið um 9% af vinnandi fólki hér á landi, er jafnframt ljóst að margir þeirra stoppa stutt við og fara til síns heima að starfi loknu.  Það á t.d. við um stóran hluta þess mikla fjölda verkamanna og kvenna sem hafa starfað við uppbyggingu Kárahnúkavirkjunar.

Fullyrðingar frjálslyndra í auglýsingunni um að innflutningur erlends vinnuafls valdi álagi á velferðarkerfið eru út í bláinn.  

Erlendir ríkisborgarar sem eru í starfi hér á landi greiða tekjuskatta til íslenska ríkisins. Þannig greiddu þeir um 16 þúsund útlendingar sem störfuðu um lengri eða skemmri tíma á Íslandi á árinu 2005 um 6,4 milljarða króna í tekjuskatt og útsvar til ríkis og sveitarfélaga á því ári.  Greiðslur útlendinga í framkvæmdasjóð aldraðra einar voru 61 milljón króna á árinu 2005, sem mun sennilega seint gagnast þeim sjálfum!  

Með rökum mætti þvert á móti halda því fram að erlent vinnuafl á Íslandi ætti inni hjá okkur í þessum efnum, því skatttekjur þeirra gagnast Íslendingum fyrst og fremst.  Vera útlendinga á vinnumarkaði styrkir velferðarkerfið, en eru ekki baggi á því. 

Því til viðbótar má nefna að rannsóknir Þóru Helgadóttur hagfræðings, benda til þess að ef ekki hefði verið fyrir innflutning erlends vinnuafls, hefði verðbólgan verið 1.5% hærri en raunin er sem hefði áhrif á skuldir heimilanna, sem að mati Þóru hefðu ella verið 200 þúsund krónur hærri á hvert heimili í landinu á síðasta ári.  

Það kæmi mér verulega á óvart ef frjálslyndir ríðu feitum hesti í komandi kosningum ef þeir ætla að haga kosningaáróðri sínum með þessum hætti fram til 12. maí.

 www.astamoller.is

 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband