Árni á hrós skilið!

Vandi þeirra barna og foreldra þeirra sem bíða eftir plássi á BUGL er erfiður.  Eins og kom fram í fréttum ríkissjónvarpsins í gærkvöldi sagði Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra að börn sem væru í bráðaþörf væru í forgangi í þjónustu á stofnuninni.  Börn sem eru með alvarlegan vanda sökum geðsjúkdóms þurfa á slíkri innlögn að halda.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að við getum breytt áherslum í geðheilbrigðisþjónustu og náð jafnvel betri árangri í betri líðan fólks.   Vandinn er að við leggjum allt of mikla áherslu á stofnanaþjónustu og innlögn á stofnun.  Það á við á flestum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. 

Við erum með hlutfallslega einna flest hjúkrunarrými fyrir aldraða og sjúkrarúm í geðheilbrigðisþjónustunni í samanburði við önnur Norðurlönd.  Það skortir á úrræði utan stofnana á göngudeildum, í heimahúsum og innan félagslega kerfisins.  Fólk er á stofnunum, sem gæti með auknum stuðningi heilbrigðis- og félagslega kerfisins búið sjálfstætt og fengið þjónustu utan stofnana eða heim til sín. 

Þetta er einn helsti ljóður á okkar heilbrigðiskerfi og hann er okkur dýr, bæði mannlega og fjárhagslega.

Það er hægt að gera hlutina öðruvísi.  Það staðfesta m.a. ummæli Helga Vilberg hjá Reykjavíkurborg og Gylfa Jóns Gylfasonar í Fréttablaðinu í fyrradag, 23. apríl, um þjónustu við börn með hegðunarvanda.   Þar segja þeir að þau kerfi sem sinna þessum börnum "tali ekki saman" og BUGL vísi ekki á þau úrræði sem fyrir eru innan skóla- og félagskerfis til að styðja við þessi börn og fjölskyldur þeirra.  Jafnframt er bent á að það skorti á slíkt úrræði.  

Einna athyglisverðast þó er framtak Reykjanesbæjar.  Sveitarfélagið bíður foreldrum upp á uppeldisnámskeið til að draga úr líkum á hegðunarvanda hjá börnum.  Stoðkerfi samfélagsins, heilbrigðiskerfið, skólinn og félagslega kerfi sveitarfélagsins styðja við þá nálgun sem námskeiðið er byggt á.  Áhersla er á að veita þjónustu í heimabyggð.

Afleiðingin er að tilvísanir vegna barna í Reykjanesbæ vegna hegðunarvanda eru mun færri og innlögnum barna úr sveitarfélaginu á barnageðdeild hefur fækkað um helming.

Þetta er þarft og gott framtak, sem sýnir næmni á þarfir samfélagsins!   Bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, á þar hrós skilið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Hegðunarvandi er eitt og alvarleg geðræn vandamál annað. Við skulum ekki rugla þessu tvennu saman. Það er til skammar hvernig þessi mál hafa verið vanrækt undanfarin ár. Að börn með alvarleg vandamál skuli ekki fá þá læknisþjónustu sem þau þurfa er til skammar! Ekki gera lítið úr þvú með því að gefa í skyn að hér sé um hegðunarvandamál að ræða!

Auðun Gíslason, 25.4.2007 kl. 13:14

2 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Þetta var pínu sjokk ég þekki mikið til einstaklinga sem hafa þurft að leita á Bugl og finnst mér þessi grein benda svolítið á foreldra sem þeir hafi ekki staðið sig nógu vel. Þegar um geðræn vandamál er að stríða, þá erum við að tala um sjúkdóm.

En, svo má auðvitað styðja vel við barnafjölskyldur, og mikil steita er innan fjölskyldna þar sem er mikið peningaleysi og foreldrar þurfa að vinna mikið til að ná endum saman á einn eða annan hátt. Þá hafa foreldrar líka minni tíma í að sinna börnum sínum og veita þeim þroskavænleg uppeldisskilyrði. Einnig get ég séð að fólk er ekki eins hamingjusamt þegar streita er vegna fjármála..... SVO, væri ekki snilld að byrja á því að hugsa um þá sem hafa það ekki of gott í samfélaginu, hækka skattleysismörk til muna, lækka bensínverð til muna, lækka gjöld sem hvíla á barnafjölskyldum og hækka barnabætur og eins vaxtabætur. við búum í of íhaldssömu samfélagi þar sem of mikil einstaklinghyggja ríkir og þessvegna er þetta ekki svona eins og ég var að segja. Tók áfanga í félagsvísindadeild sem kenndi aðeins inn á þetta.

Inga Lára Helgadóttir, 25.4.2007 kl. 20:42

3 Smámynd: Bergur Þorri Benjamínsson

Það er aðdáunarvert hversu vel Sjálfstæismenn standa að málefnum fjölskyldunnar. Heimgreiðslur það sem pistillinn hér að ofan ræðir osfv... Áfram Árni Sigfússon, áfram Sjálfstæðisflokkurinn.

Bergur Þorri Benjamínsson, 25.4.2007 kl. 23:55

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Já það er rétt að mörgu leiti og það er rétt hjá Ástu að Árni eigi hrós skilið, en það þarf samt að taka höndum saman varðandi Bulg og það er ekkert annað í stöðunni þar en að stækka stofnunina og fjölga starfsfólki og borga því hærri laun ! Það er í blöðunum þessa dagana að biðlistar séu að lengjast og starfsfólk séu að hætta það bendir til þess að mínu mati að eitthvað sé verið að gera rangt !!! Þetta er sorglegt og ég trúi því ekki að þróunin eigi að vera þessi.

Inga Lára Helgadóttir, 26.4.2007 kl. 10:29

5 Smámynd: Ásta Möller

Sæl Inga Lára. Eins og ég sagði í textanum mínum er vandi þessara barna erfiður, bæði fyrir þau sjálf og foreldra þeirra.  Mörg þessara barna þola illa bið eftir þjónustu og mikilvægt að bregðast strax við þegar innlagnar er þörf.  Ég er fyrst og fremst að taka undir sjónarmið þeirra fagmanna sem ég nefndi að kerfin "tali ekki nægilega saman" og fráleitt að koma ábyrgð á foreldra.   Ég bendi hins vegar á að innlögn er ekki endilega besta lausnin og mörg börn má meðhöndla án innlagnar.   Þannig kom fram í fjölmiðlum í gær að lenging biðlista á BUGL á síðustu tveimur mánuðum er fyrst og fremst til komin af því að dregið hefur úr þjónustu á göngudeild vegna skorts á starfsfólki.  Það er því hægt að meðhöndla þau án innlagnar.  Á þessu þarf að taka. 

Ásta Möller, 26.4.2007 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband